30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (1429)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Hákon Kristófersson:

Það var álitið, að það væri mjer að kenna, hve óhöndulega tókst til með þetta frv. síðast, þegar fyrirsögn þess skildi við. Jeg skal ekkert bera af mjer í því efni, en nú langar mig til að rifja lítið upp fortíð þessa máls. Jeg var þá á Alþingi, þegar þetta embætti var stofnað. Eins og menn ef til vill muna, þá var það flutt af hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Jeg var ekki þá, frekar en nú, viss um nauðsyn þessa embættis, og hallaðist jafnvel fremur að því, að það myndi vera óþarft. En þessi hv. þm. (S. St.) mælti þá með því, með hinum alkunna skörungsskap, sem honum er laginn, og með því að mjer var það kunnugt, hve ábyggilegur maður hann er, þá fór svo að lokum, að jeg ljet undan siga fyrir öruggri sókn hans og fullyrðingum um nauðsyn embættisins. Fanst mjer einkum til koma, hve átakanlega hann lýsti því, hver fróðleikur væri þá fyrir borð borinn fyrir prestastjettinni, ef grískunámið yrði forsmáð svo til lengdar. Það var því vegna hinna mjög svo sannfærandi ummæla hv. flm. (S. St.), að jeg ljeði frv. fylgi mitt til 2. umr. í hv. Ed. En svo þegar á leið meðferð frv. í deildinni, tók hann af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að líta hornauga til þessa afkvæmis síns. Ágerðist þetta eftir því, sem á leið, og lauk með því, að hann, við 3. umr., lagðist hreint og beint á það, eins og Krónos forðum. Þótti mjer þetta að vísu ferlegar aðfarir, en fylgdist þó með, í ofurtrausti mínu til mannsins, sem verkið framdi. Því eins og áður er tekið fram, brast mig algerlega þekkingu á nauðsyn embættis þessa, og þótt jeg liti svo á, að það væri óþarft, þá reiddi jeg mig á ummæli hv. flm. (S. St.). Og þegar svo var komið, að hann var sannfærður um, að ekki væri brýn nauðsyn fyrir stofnun embættisins, gat jeg því vel snúist með honum á þá sveifina, sjerstaklega þar sem jeg hafði upprunalega litið svo á. En hjer fór enn sem áður, að Seifur slapp, enda verður ófeigum ekki í hel komið. Nú er svo komið, að embætti þetta stendur enn við höggstokkinn, leitt þangað af sínum eigin föður. Eru jafnskiftar skoðanir um það sem áður, hvort gengið skuli milli bols og höfuðs á því eða eigi.

Þegar jeg styð mig við mína eigin skoðun eingöngu, þá verð jeg að kannast við, að jeg álít, að hægt sje að komast af án þessa embættis. En ýmislegt er hjer fleira, sem taka verður til greina. Þetta frv. er nú borið fram af sparnaðarnefndinni, og vil jeg alls ekki gera lítið úr lofsverðri viðleitni hennar, bæði til að spara þetta og annað, sem án verður verið. Veit jeg og með vissu, að það er sparnaður ríkissjóðsins, sem liggur til grundvallar fyrir þessari till. hennar, en ekki það, hvaða maður er nú í stöðunni, sem ýmsir hafa þó getið til. Jeg er sjálfur fylgjandi niðurskurði embætta — en ekki embættismanna. Jeg vil með engu móti, að svo geist sje farið í þær sakir, að embættismönnum sje misboðið í nokkru. Eins og mönnum er kunnugt, þá hefir stjórnin nú lýst því yfir, að hún ætli að taka embættakerfið til ítarlegrar athugunar, gera till. um, hvar leggja megi niður embætti og hver sje hægt að sameina, og leggja þær fyrir næsta þing. Með þetta fyrir augum finst mjer helst, að þær till., sem fram hafa komið í þessu efni, megi helst skoðast sem bendingar til stjórnarinnar frá þinginu. Er því þannig farið með þetta mál. Má það vel bíða til næsta þings, enda ekkert sparað með því í bili. Svo er heldur ekki, þótt samþykt verði brtt. sú við það, er fram er komin, enda gæti hún seinna leitt til mjög vafasams sparnaðar, því eins og hún ber með sjer, er hún í þá átt að ákveða hlutaðeigandi embættismanni óvanalega há eftirlaun. Þar sem þjóðin hefir lýst sig algerlega mótfallna öllum eftirlaunum, þykir mjer það undarlegt, að hv. sparnaðarnefnd fer nú inn á þá braut. Með þetta fyrir augum leyfi jeg mjer því að koma fram með svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Með því að deildin lítur svo á, að því megi óhætt treysta, að landsstjórnin taki til nákvæmrar yfirvegunar alla embættaskipun landsins og leggi fyrir næsta Alþingi ákveðnar tillögur um það, á hvern hátt megi gera hana einfaldari, og þá um leið ódýrari, þykir henni ekki að þessu sinni ástæða til að taka neina ákvörðun hvað þetta embætti snertir, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg verð að líta svo á, að með samþykt þessarar dagskrár sje skilið sómasamlega við þetta mál. Og víst er um það, að ríkissjóði er ekki neinn geigur unninn með því að láta það bíða til næsta þings. Jeg skal játa, að jeg er þakklátur háttv. sparnaðarnefnd fyrir sumar till. hennar. En jeg verð þó að geta þess, að til eru mál, sem hún hefði fyr átt að láta til sín taka en þetta. — Þætti mjer t. d. við eiga, að hún beindi þeirri fyrirspurn til stjórnarinnar, hve lengi 2 landlæknar eigi að vera í landinu. Þeir hafa nú verið það um hríð, en nú er sá tími útrunninn, sem þess þarf með. Þó hefi jeg heyrt því fleygt af kunnugum mönnum, að vel geti þeir orðið tveir eitt missirið enn. Þótt þetta sje nokkuð utan við dagskrána, þá vil jeg samt leyfa mjer að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvað hún ætlist fyrir í þessu efni. Jeg hefði annars vænst þess, að sparnaðarnefndin ljeti þetta ekki alveg afskiftalaust. Sömuleiðis furðar mig á því, að hún skuli ekki hafa komið fram með neinar till. um að fækka prestsembættum hjer á landi. Þætti mjer líklegt, að af yrði komist án einhvers guðsmannsins, ef satt er, sem sagt er, að ekki sje prjedikað í sumum kirkjunum nema 4–6 sinnum á ári. (P. O.: Eða tvisvar), Þá því fremur. Hygg jeg að fáum geti dulist það, að slík embætti er dýrari en svo að þjóðin hafi ráð á að halda þeim við. Annars er það svo ótal margt, sem um embættaskipun og stjórnarfar okkar má segja, að ekki verður alt til tínt á svipstundu, enda margt hvað þess eðlis, að tæplega verður lagað, nema einhver veruleg straumhvörf eigi sjer stað í hugsunarhætti manna, frá því sem nú er.

Ætla jeg svo ekki að segja meira að þessu sinni, en leyfi mjer að afhenda hæstv. forseta þessa rökstuddu dagskrá.