30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (1430)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jakob Möller:

Jeg hefi hlustað með athygli á þessar umr. og jeg get bætt því við, að jeg hefi ekki undrast lítið yfir afstöðu háttv. frsm. sparnaðarnefndar (S. St.) í þessu máli. Jeg hefi athugað afstöðu hans frá byrjun og reynt að gera mjer grein fyrir, af hverju hún rjeðist, hvaða „motiv“ lægi að baki, og jeg held, að mjer hafi tekist þetta.

Upphaflega var það þessi hv. þm. (S. St.), sem flutti frv. um stofnun þessa embættis. Eins og menn vita, hefir hann nú margsinnis lýst yfir því, að hann hafi gert það sökum þess, að hann hafi talið það metnaðarsök fyrir prestastjett landsins að eiga yfir að ráða nokkurri grískukunnáttu. En jeg verð þá að segja, að það hefir verið heldur stutt í þeim metnaði. úr því að hann entist ekki lengur en til 3. umr. málsins á því sama þingi, sem frv. þetta kom fyrst fram á. Því eins og menn ef til vill muna, þá var það ekki komið lengra áleiðis, þegar hann snerist gegn því. Af þessu hefi jeg dregið þá ályktun, að ekki sje rjett, að hann hafi borið það fram af metnaði.

Þessi hv. þm. (S. St.) hefir látið orð falla í þá átt, að sjer væri það áhugamál, að gamla kenslukerfið yrði aftur tekið upp í mentaskólanum og gömlu málin leidd þar í öndvegið. Það lægi því nærri að halda, að hann hafi flutt frv. til þess að bæta upp það, sem á vantaði í mentaskólanum, og gefa stúdentum kost á að nema þessi mál einhversstaðar, — en hví snerist honum þá svo skjótt hugur? — Nei, það var hvorki metnaður hans nje ást hans á gömlu málunum, sem var driffjöður hans til þess að koma fram með þetta frv. Orsökin var sú, að það var ákveðinn maður, sem átti að hljóta embættið. En það var ekki þm. Dala. (B. J.), sem þá átti að fá það. Það var annar maður, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) kannast ofurvel við og jeg kæri mig ekki um að nefna hjer með nafni. En svo komst flm. (S. St.) að því, að þessi maður myndi ekki taka við embættinu, heldur þm. Dala. (B. J.), og þá var það, sem hann snerist gegn sínu eigin frv. Þetta afturhvarf hans gat þó ekki stafað af því, að sá maður væri betur til starfans fallinn, því það var hann ekki. Hann hafði tekið embættispróf í gömlu málunum, eins og þm. Dala. (B. J.). og var sá einn munur á, að hann hafði grískuna að aðalnámsgrein, en þm. Dala. (B. J.) latínuna. Nei, orsökin var bara sú, að sá maður var að mun geðfeldari stjórnmálaflokk flm. (S. St.). Nú geta hv. þdm. lagt það niður fyrir sjer, hvort þessu muni ekki eitthvað svipað farið og jeg hefi bent á. Jeg er fyrir löngu hættur að furða mig á þeim undarlegu hvötum, sem virðast oft liggja að baki gerða þessa hv. þm. (S. St.), en á hinu furðar mig sífelt, hve bíræfinn hann er stundum, þegar hann er að bjóða þingheimi rök sín. — Hann kveður frv. þetta, um afnám embættisins, fram knúið af sparnaðarorsökum og ber fyrir sig þjóðarviljann. Segist hann í engum efa um, að þjóðaratkv. myndi samþykkja gerðir sparnaðarnefndar í þessu máli. En jeg man ekki til þess, að þessi áhyggja út af þjóðarviljanum kæmi nokkurn tíma í ljós, er hann nú fyrir skemstu vildi koma á gamla fyrirkomulaginu í mentaskólanum. Hefði sú breyting þó haft ólíkt meiri kostnað í för með sjer heldur en kennaraembætti þetta. Enda býst jeg síst við, að hún hefði átt betri byr að fagna hjá þjóðinni en það.

Ástæðan fyrir því, að Alþingi stofnaði embætti þetta, var sú, að breytingar þær voru á orðnar í mentaskólanum, sem jeg hefi þegar minst á. Skyldi með þessu bæta þeim það upp, sem nema vildu hin gömlu mál, er þeir hefðu í mist við breytinguna. Var þetta og rjettmætt, samkvæmt skoðun þeirra manna, sem halda, að við nám þessara tungumála nái stúdentar fyrst þeim þroska, sem æskilegur er mentamönnum. Þótt kensla þessi hafi nú ekki verið eins vel notuð og æskilegt væri, þá er samt engin ástæða til að leggja hana niður. Væri rjettara að ganga eftir því við kennarann, að hann gerði meira að því að reyna að fá stúdenta til þess að stunda námið. Þykist jeg þess fullviss, þar sem jafngóðs kennara nýtur við, að tala nemenda muni brátt aukast, ef embættið verður látið standa. Að svo stöddu máli tel jeg því hreinasta glapræði að leggja þessa kenslu niður. — Öðru máli væri að gegna, ef gamla kenslukerfið yrði tekið upp í mentaskólanum. Þá mætti ef til vill segja, að ekki væri lengur þörf á þessu embætti. En það er nægur tími að tala um það þá.

Af þessum ástæðum hefi jeg greitt atkv. á móti þessu frv. hv. sparnaðarnefndar, og mun jeg halda uppteknum hætti.