24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (1440)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Eiríkur Einarsson:

Þegar jeg kvaddi mjer hljóðs, vissi jeg ekki, að hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) mundi tala, en þar sem hann hefir tekið margt það fram, sem jeg vildi sagt hafa, um þetta mál, mun jeg verða stuttorðari en ella, enda er eigi ástæða að ræða lengi jafnfeigfætt frv. og þetta er. (S. St: Það er andvana fætt.). Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem er flutningsmaður frv., segir, að það sje andvana fætt. Vil jeg biðja hv. þm. að leiðrjetta það, sem jeg sagði fyrst.

Í ástæðunum fyrir þessu frv. taka flutningsmennirnir það fram, að sama sje um það að segja og sameining Dala- og Strandasýslna. Þetta er höfuðfirra. Ástæðurnar eru að vísu svipaðar, ef þannig er litið á, að strandlengjan ein skuli ráða stærð lögsagnarumdæma, en það er dálítið nýstárleg kenning. Ef miðað væri við þetta, skal jeg játa, að Árnes- og Rangárvallasýsla eru til samans minni en Dala- og Strandasýsla, en þess þarf naumlega að geta, að þessi ástæða er óframbærileg og hefir lítil áhrif á það, hvort embætti sýslumannsins er erfitt og umsvifamikið. Í sýslum, sem eru strandhægar, geta mikil ferðalög gert embætti sýslumanna erfitt, og hv. þm. hljóta ennfremur að játa, að í hinni lögboðnu yfirreið sýslumanna, manntalsþingahaldi, fer ekki lengd eða erfiði ferðalagsins eingöngu eftir vegalengd milli endimarka sýslunnar, heldur einnig eftir því, hve víða þessi manntalsþing skuli heyja, eða með öðrum orðum eftir því, hve sýslan hefir marga hreppa. Nú vildi jeg minna hv. deild á það, að Árnessýsla er 2. hreppaflesta sýsla á landinu. Hreppaflest er Mýra- og Borgarfjarðarsýsla, sem hefir 18 hreppa; þó má geta þess, að þessi sýsla er steypt upp úr tveimur. Næst er Árnessýsla, með 16 hreppa, og Þingeyjarsýslur, með jafnmarga. Manntalsþingaferðir í Árnessýslu eru því venjulega taldar 3 vikna ferðalag.

Rangárvallasýsla hefir 10 hreppa. Ef sýslurnar væru sameinaðar, mundi hið nýja lögsagnarumdæmi hafa 26 hreppa, eða miklu fleiri en nokkur önnur sýsla á landinu. Nú má og líta á það í þessu sambandi, að margir af hreppum þessum eru mjög búandmargir, víða 60–90 býli, eða með öðrum orðum með býlaflestu hreppum á landinu.

Hv. frsm. (St. St.) heldur því fram, að fólksfjöldinn sje ekkert höfuðatriði í þessu máli, heldur fjölbreytni atvinnuveganna. Jeg skal játa, að hvorugt um sig ræður algerlega, heldur ræður fólksfjöldinn í hlutfalli við fjölbreytni atvinnuveganna.

Nú eru venjulegir atvinnuvegir hjer á landi sveitabúskapur og kaupstaðaatvinna. Í Árnessýslu er þetta hvorttveggja. Eins og háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) gat um, eru þar 2 kauptún og hið 3. að vaxa upp. Jeg vil biðja hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) að líta á það, að 2 þessara kauptúna eru til samans stærri en sumir kaupstaðir, eða hafa hartnær 2000 íbúa. Bið jeg hann þá að renna huganum til Siglufjarðar.

Eitt var það enn, sem einkum átti að vera mælikvarði á það, hvort sýslumannsembætti sje erfitt eða ekki, í ræðu hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), og það var það, hve mörg mál væru dæmd árlega í lögsagnarumdæminu; en jeg vil leyfa mjer að spyrja hann, hvort embættisgæslan gæti ekki verið erfið án þess að mörg mál sjeu dæmd.

Árið 1916 var jeg settur sýslumaður í Árnessýslu, og er mjer kunnugt um, að þá var mikið að gera þar, en jeg man ekki, hvort nokkurt mál var dæmt þar þá. En lögreglumál voru þá svo mikil í Árnessýslu, að jeg efast um, að þau hafi verið meiri nokkursstaðar annarsstaðar.

Jeg er viss um það, að ef hv. sparnaðarnefnd hefði látið svo lítið að leita upplýsinga um þetta í stjórnarráðinu, þá hefði það staðfest mitt mál.

Nú vil jeg snúa mjer að mannfjöldanum í þessum sýslum. Eftir manntalsskýrslum voru í árslok 1920 5696 manns í Árnessýslu, en Rangárvallasýslu 3865. Þá voru í Strandasýslu 1761 og í Dalasýslu 1909 manns. í Dala- og Strandasýslum eru til samans nokkuð færri íbúar en í Rangárvallasýslu einni.

Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla þykir lögsagnarumdæmi meira en í meðallagi; skal þess getið, til samanburðar, að þar eru 3919 manns við áminst manntal.

Suður-Múlasýsla þykir stærsta og einna erfiðasta lögsagnarumdæmi á landinu, en þar eru 5169 íbúar, eða talsvert færri en í Árnessýslu.

Ef sparnaðarnefndin hefði hugsað þetta mál, mundi hún þó fremur hafa lagt til að sameina Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu; hefði hún þá getað sameinað Austur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu. Er jeg þó ekki að mæla með þeim sameiningum.

Þetta sýnir, hve mikið fálm og flaustur þetta frv. nefndarinnar er.

Hjer hefir ekki verið minst á það, að landsstjórn og löggjafarvald hafa ákveðið, að laun sýslum í erfiðum sýslum skuli vera meiri en í hægum, og sje það af því, að skrifstofukostnaður sje meiri. Mjer er kunnugt um, að Árnessýsla er þar í hæsta flokki, og skrifstofukostnaður í Rangárvallasýslu er talsverður. Er verið að launa þar fyrir ekki neitt? Einnig þetta ætti að vera háttv. flm. íhugunarefni. Það var tekið fram af háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að rangt væri að líta á það, að íbúatalan hefði lækkað á síðasta áratug. Jeg hefi þá von og vissu, að fólkinu fjölgi í þessum bestu landbúnaðarsveitum Íslands; vona jeg, að hv. sparnaðarnefnd stuðli að því með löggjafarstarfi sínu.

Margir hafa talað um að leggja járnbraut þarna austur, og vonandi rætist það. Ef svo yrði, mundi fjölga fólki þar meira en hv. sparnaðarnefnd grunar. En henni er annað lagnara en að líta fram undan sjer.

Jeg mun svo ljúka máli mínu. En jeg tel mikil brjóstheilindi þurfa til þess að bera fram slíkt frv. sem þetta, einkum er þess er gætt, að hv. fyrri flm. (St. St.) hefir nýlega hampað frv. um það að fá nýjan þm. fyrir smákaupstað.