24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (1445)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal ekki vera margorður, en jeg fæ ekki annað sjeð, en hið sama felist í till. hv. þm. Dala. (B. J.) og dagskrá minni, og skal jeg ekki gera það að kappsmáli, hvort hún er samþykt eða dagskráin.

Með því móti að samþykkja dagskrána eða vísa málinu til stjórnarinnar sparast frekari umr. um þetta mál. Í þessu sambandi má geta þess, að hv. sparnaðarnefnd hefir orðið þinginu æðidýr liður. Hún hefir nú eytt 4–5 dögum af tíma þingsins í umr. um hinar fánýtu till. sínar, og ef hver dagur er reiknaður á 4 þús. kr., þá eru það 16–20 þús. kr. Það eru líka peningar.

Það var ekki rjett hjá hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.), að jeg hafi farið háðulegum orðum um sparnað yfirleitt. Það gerði jeg ekki, en jeg dró í efa gagnsemi sparnaðartill. sparnaðarnefndarinnar. Jeg vil ekki, að sparnaðarhugmyndin verði að því flóði, sem drekki öllum sparnaði.

Hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) sagði það hjer um daginn, að hann vildi sinna öllum rjettmætum kröfum sinna kjósenda, og var það síst dregið í efa af mjer. En hvernig ætli honum yrði við, ef farið væri fram á að afnema lögreglustjóraembættið á Siglufirði? Það væri þó sönnu nær en þetta, að taka þar upp gamla fyrirkomulagið, að hafa aðeins lögreglustjóra að sumrinu. Og sparnaður væri það. En ætli það heyrðist ekki hljóð úr horni frá hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), ef gera ætti slíkt.

Mjer þótti leitt, að hann skyldi ekki skilja hugtakið „að falla í stafi“. Hann virtist skilja það svo, að jeg mundi detta í sundur! En jeg get nú fullvissað hann um það, að svo er ekki, og jeg mun ætíð verða ofjarl hans í þessu máli. Þá kom fram nýr ókunnugleiki hjá þessum hv. þm. (St. St.). Hann hjelt, að Holtavegurinn væri nýr vegur, en svo er ekki; hann er síðan um aldamót. Þá var hann mjög hrifinn af vegunum þar eystra og kvað allar ferðir sýslumannsins þar vera skemtiferðir, og virtist hann byggja það á því, að hann hefði einhvern tíma að sumri til komið í bifreið austur í Fljótshlíð. En það sannar ekki mikið. Jeg get sagt honum, að á síðustu þingmálafundaferðum mínum eystra reið jeg vatnsföll í lendar á milli skara. Vil jeg nú skora á hv. þm. (St. St.) að ferðast einhvern tíma að vetrarlagi austur, og vita, hvernig honum líst þá á. Skal jeg nú ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að hv. þm. sjái sóma sinn í því að láta þetta frv. ekki fara lengra.