24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (1446)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Eiríkur Einarsson:

Aðeins örfá orð. Hv. frsm. (St. St.) gat þess, að sýslumaðurinn í Árnessýslu hefði ekki meira að gera en svo, að hann gæti tekið að sjer önnur störf. Býst jeg við, að hann hafi átt við það, að hann sje bankastjóri, meðan jeg er á þingi. Það er nú svo að vísu, að sýslumaðurinn er formelt bankastjóri, meðan jeg er á þingi, og er það eðlilegt, þar sem hann býr á bankastaðnum. Hins vegar gegnir hann ekki daglegum störfum, heldur er starf hans fólgið í umsjón, svipað gæslustjórastarfi. Veit jeg, að slíkt hefir tíðkast fyr, að menn, sem í embættum sátu, gegndu gæslustjórastörfum, t. d. voru Kristján Jónsson og Eiríkur Briem gæslustjórar við Landsbankann.

Háttv. frsm. (St. St.) sagði, að það stæði næst að sameina þessar sýslur, en jeg verð að segja það, að mjer fyndist standa nær, eins og jeg gat fyr um, t. d. sameining Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, og Austur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu, og þá því fremur Eyjafjarðarsýslu og Siglufjarðar; því að aðalstarf sýslumannsins er ekki fólgið í því, að vera á þönum í allar áttir um hjeraðið, heldur í ýmsu öðru, svo sem umboðs- og innheimtustörfum fyrir ríkissjóð, gegna erindum heima fyrir og inna af hendi ýms reikningsskil. Þetta hjelt jeg, að hreppstjórinn mundi vita. En það fer eftir íbúatölu sýslnanna, hve umsvifamikil þessi störf verða. En í Árnes- og Rangárvallasýslu eru miklu fleiri íbúar en í sýslum þeim, sem jeg nefndi. Hv. frsm. (St. St.) virtist ekki gefa þessu mikinn gaum, en leggja aðaláhersluna á stærð hjeraðanna. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta. Enda þýðir ekkert að deila eða rökræða við þessa hv. sparnaðarnefnd.