03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í C-deild Alþingistíðinda. (1456)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg hefi verið að reyna að punkta niður hjá mjer meginatriðin í ræðu hv. síðasta ræðumanns, en hefi ekkert fundið, sem rjettlæti brtt. hans, nje gefi nokkra ástæðu fyrir rjettmæti hennar. Háttv. þm. játaði, að hann væri principielt á móti sameiningu kjördæma. (Gunn. S.: Það var mismæli, sem jeg leiðrjetti strax.) Jeg skildi ekki heldur, hvað þessi hv. þm. gæti átt við með því. — Þá varð honum tíðrætt um fólksfjöldann í þessum sýslum. Ef til vill man háttv. þm., að við 1. umr. taldi jeg einmitt fólksfjöldann sem einu ástæðuna móti samsteypunni. En það er, eins og jeg hefi áður tekið fram, ekki einvörðungu undir fólkstölunni komið, hve marga sýslumenn þarf, heldur undir hinu, hve mikið og margbreytt starf er þar að vinna, og finst mjer, að löglærður þm. ætti að skilja þetta. Háttv. þm. (Gunn. S.) sagði, að nú væri óðum að fækka á Siglufirði. og mundi því fara í eyði, en telur þó fleira fólk þar en jeg, og þangað streymir fólk árlega, til að leita sjer atvinnu, jafnvel úr Árnes- og Rangárvallasýslum. Af þessu geta allir sjeð, hve ályktunin er skynsamleg, um að fólkinu fækki á Siglufirði og að þar liggi við auðn. Við síðasta manntal var íbúatalan þar 1128, en samkvæmt því, sem þessi háttv. þm. (Gunn. S.) sagði áðan, eru þar nú 1153. Það hefir því nú á síðustu tímum enn fjölgað um 25 manns. í Árnes- og Rangárvallasýslum hefir aftur á móti fólkinu fækkað um 441 mann tíu síðustu árin. Þetta er að segja um fjölgunina þar, en um hinn líkamlega og andlega „þroska“ fólksins er óefað snjallast fyrir okkur báða að fara sem minst út í allan samanburð hvað það snertir. Það er ekki rjett eftir haft hjá háttv. þm., að jeg hafi lagt svo mikla áherslu á það, að sjávarútvegur væri sama sem enginn í þessum sýslum. Jeg taldi hann tiltölulega fremur lítinn, eftir fólksfjölda. En um hitt gat jeg, að skipakomur væru þar mjög fáar, en eins og háttv. þm. hlýtur að vita, þá hafa þær mikil áhrif á starf sýslumannsins. Þá sagði háttv. þm. (Gunn. S.), að geysimikil kartöflurækt og þarauppgrip væru bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Jú, mjer er nú að nokkru kunnugt um kartöfluuppskeru þar, en að þær eða þarinn verði sýslumanninum til sjerstaks verkaauka, skil jeg ekki. Jeg bjóst satt að segja ekki við, að sýslumenn eystra þar fengist svo mjög við þesskonar störf. Þá sagði háttv. þm. (Gunn. S.), að austurhjeruðin hlytu bráðlega að stækka. Það kann að vera, að þm. sjái fyrir Heklugos á næstunni, sem fylli upp flóa og haf eitthvað suður á bóginn, og auki þannig við landið, en þá þætti mjer trúlegt, að það kynni að fækka mannfólkinu um leið. En svo jeg víki aftur að því, sem hv. þm. (Gunn. S.) sagði, að Siglufjörður hafi oft skilað fólkinu, er þangað leitar, voluðu, bæði efnalega, líkamlega og andlega, þá vil jeg spyrja, hvers vegna skyldi fólkið þá leita þangað í stórhópum? Það kemur þó ekki af því, sem hv. þm. (Gunn. S.) gat um, að það leiti eftir volæðinu, heldur af hinu, að á Siglufirði er betri atvinnu að fá yfir aðalatvinnutímann en á nokkrum öðrum stað á landinu, og er jeg sannfærður um, að hver, sem vill nota sjer þá atvinnu, sem þar býðst venjulega að sumrinu, og fer vel með fje sitt, hann fer miklum mun efnaðri þaðan en hann kom. Þá bar hv. þm. (Gunn. S.) fram þá fáránlegu ástæðu, að Siglufjörður væri svo ungur enn og óreyndur. Jeg veit ekki, við hvaða staði ætti heldur að leggja rækt en þá, sem eru í örum uppgangi. Enda voru Siglufirði nýlega veitt bæjarrjettindi af þessum sökum, að brýn nauðsyn þótti til, vegna vaxandi fólksfjölda, mjög mikillar skipakomu eða siglinga, fisk- og síldveiða í stórum stíl, og þar af leiðandi ýmiskonar framkvæmda. Þótt aftur á móti sú gamla skipun haldist enn í austurhjeruðunum, þá er það engin sönnun þess að brýn þörf sje á, að 2 sjeu sýslumenn í Árnes- og Rangárvallasýslum, eða að svo þurfi að vera, og enginn skaði í, þótt það gamla úrelta fyrirkomulag yrði lagt niður. Jeg býst við, að bæjarfógetinn á Siglufirði hafi eins mikið að gera eins og sýslumenn í 5–6 smærri sýslum landsins að því, er lögreglustörfin snertir, og jeg veit, að það er hans álit. Enn fremur vil jeg nefna, að árið 1920 dæmdi bann 27 lögreglumál og 15 einkamál, og árið 1921 voru þar 8 lögreglumál og 7 einkamál dæmd. Þó lögð sjeu saman nokkur ár í þessum sýslum, þá nær málafjöldi þeirra samt ekki þessu. Sannar þetta, hve mikið bæjarfógetinn á Siglufirði hefir að starfa og hve áríðandi sje að hafa þar á staðnum bæði lögreglu- og dómsvald. Þá vita allir, að austanhjeruðin hafa sáralítið til jafnaðar við Siglufjörð, hvað skipakomur snertir, því á Siglufirði liggja stundum mikið á þriðja hundrað skipa inni á firðinum í einu, enda alveg ólíkt, hvað hann leggur meira af mörkum í ríkis sjóðinn en þessi hjeruð. T. d. árið 1920. Á því ári galt hann ríkissjóði í sköttum og tollum 446372 krónur, og er það engin smáupphæð. Býst jeg við, að fáum, sem athuga þetta, geti blandast hugur um, að sjálfsagt sje, að ríkið hafi þarna góðan starfsmann árið í kring til að gæta hagsmuna sinna, og það með fullkomnu dómsvaldi.

Þá skal jeg loksins minna á það, að á síðasta vetri var lögreglustjóranum á Sigluf. það að þakka, að náðist í ekki neitt smáræði af vini úr togaranum Baldri. Var það eingöngu dugnaði lögreglustjóra og manna hans að þakka, að þetta tókst, og mundi alls ekki hafa náðst, ef hann ekki hefði verið þar á staðnum. Þau vínföng námu 24 tonnum, eða alt að ¼ miljón króna virði. Gefur peningafúlga sú, sem hjer græddist ríkissjóðnum, talsvert meiri vexti af sjer árlega, en nemur launum lögreglustjórans. Geta menn af þessu sjeð, hvort það muni ekki borga sig fyrir ríkið að hafa þarna mann, sem gæti í fylsta máta laga og rjettar.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á brtt. sjálfa.

Mjer finst það nokkuð undarleg nýbreytni, og það frá allri venju, að ætla að skipa kaupstað að kjósa sjer sjálfum bæjarstjóra eins og í þessari brtt. er ráð fyrir gert. Bæði hjer í Reykjavík og á Akureyri hafa þau embætti verið stofnuð eftir óskum borgaranna eða bæjarbúa sjálfra, en hvers á svo þessi kaupstaður að gjalda, að hann sje neyddur til þess að löggjafarvaldinu? Í greinargerðinni er gert ráð fyrir, að hreppstjóri taki við störfum bæjarstjóra þótt kaupstaðurinn haldi rjettindum sínum. Vitanlega er þar enginn hreppstjóri; hann getur því ekki tekið við neinum störfum, enda væri sú embættisstaða dálítið brosleg, þar sem um kaupstað er að ræða. Annars er þetta svo fráleitt, að jeg vona, að háttv deild treystist eigi til að samþykkja það. Um till. ætla jeg því ekki að eyða fleiri orðum