27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1923

Þorsteinn Jónsson:

Við 2. umr. fjárlaganna gerði jeg ráð fyrir því, að fyrir 3. umr. gæti samgöngumálanefnd komið fram með nál. og till. um samgöngur á sjó næsta ár. En því miður er starfi hennar ekki komið svo langt enn. Hafa því samgöngumálanefndir úr báðum deildum ákveðið að leggja fram í Ed. sameiginlegt nál. við 2. umr. fjárlaganna þar.

Jeg skal þó af hálfu þessara nefnda lýsa því yfir, að þær eru báðar eindregið mótfallnar því, að styrkurinn til strandferða verði lækkaður. Framkvæmdastjóri Eimskipafjelagsins er og á sama máli; telur hann ófært að lækka þennan styrk úr því, sem er ákveðið í fjárlagafrv. stjórnarinnar.

Ef halli verður á ferðum Sterlings, verður landið að borga hann. Tel jeg því varlegra að áætla hann nokkuð mikinn, því ef hann reynist minni en áætlað er, þá greiðir landið aðeins þann raunverulega halla.

Jeg vil þá með örfáum orðum minnast á brtt. á þskj. 157 frá háttv. 1. þm. Eyf. (St.St.). Hún fer fram á að taka 1000 kr. af styrk þeim, sem veittur er til bátaferða á fjörðum og flóum, handa Grímseyingum til mótorbátsferða. Hann hefir víst flutt þessa brtt. vegna þess, að eftir orðalagi stjórnarinnar að dæma, verður hann að álíta sem svo, að Grímsey sje hvorki „á fjörðum eða flóum“.

Nefndin er því meðmælt, að Grímseyingar njóti styrks af þessu fje, sem ætlað er til bátaferða, og mundi hafa komið með tillögu um það við 2. umr. fjárlaganna í Ed. Hins vegar er ekkert á móti því, að brtt. þessi nái fram að ganga. Eyjarskeggjar hafa verið mjög afskiftir um samgöngur, styrktar af ríkisfje; aldrei verið um ákveðnar póstferðir þangað að ræða, sem þeir virðast þó eiga heimtingu á eins og aðrir landsmenn; því að þó að þeir sjeu ekki fjölmennir, þá er eyjan samt sjerstakur hreppur.

Þess vegna fyndist mjer ekki nema rjett og sanngjarnt, að hæstv. stjórn sæi um, að póstbátur sá, er gengur um Eyjafjörð, færi nokkrar ferðir til Grímseyjar. Og mjer finst meira að segja að stjórnin geti það, án þess að hafa fyrirskipun þar um í fjárlögunum.

Um brtt., sem við þm. N.-M. flytjum saman, ætla jeg ekki að tala. Háttv. samþm. minn (B.H.) er því máli kunnugri en jeg, og mun hann á sínum tíma mæla fyrir því.