27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1923

Jakob Möller:

Jeg á brtt. á þskj. 153, sem að vísu hefir verið minst á, en ekki þó meira en vænta mátti eftir efni hennar að dæma.

Þessi brtt. er við tekjubálk fjárlaganna og fer fram á að fella niður útflutningsgjald af framleiðsluvörum okkar, bæði 1% gjaldið og síldartollinn.

Eins og kunnugt er liggur ekkert fyrir þinginu um síldartollinn, en um 1% útflutningsgjaldið er öðru máli að gegna. Um það efni er frv. á ferðinni, sem einmitt var til umr. og úrslita í fjhn. daginn, sem skila átti brtt. við 3. umr. fjárlaganna, og lenti jeg þar einn í minni hl. og var á móti frv.

Í raun og veru hefir þingið lofað að hverfa frá því að skatta framleiðslu landsmanna. Það var samþykt á síðustu stundu á síðasta þingi að framlengja 1% gjaldið aðeins um eitt ár, og það með svo sárlitlum atkvæðamun, að jeg er viss um, að hefðu þm. alment búist við að það yrði látið standa lengur, þá hefði það þegar verið drepið umsvifalaust.

Og um síldartollinn er líkt að segja, að þó að við hann mætti una á mestu stríðsgróðaárunum, þá er hann orðinn nú ósanngjarn og ekki á neinu viti bygður, enda óbeinlínis viðurkent, að hann sje of hár, í samanburði við verðmæti vörunnar, og heimilað að endurgreiða þriðjung hans innlendum framleiðendum ef þeir færa rök að því, að tap hafi orðið á útgerðinni. Þetta kemur líka heim við það, sem fyrv. fjrh., háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.), sagði hjer fyr á þingi, að síldartollurinn væri mjög óviss skattur.

Nú er frv. á ferðinni í háttv. Ed. um fiskiveiðar í landhelgi, sem breytir svo mörgu frá því, sem áður var, að ástæðulaust sýnist vera að burðast með þennan háa skatt, aðeins vegna útlendra síldveiðimanna. Hafa menn og helst helgað þetta háa gjald með því, að það væri eina gjaldið, sem hægt væri að ná af útlendingum. En þá væri nær að gera atvinnulöggjöf vora svo úr garði, að ekki þyrfti til slíkra ráða að taka.

Að svo stöddu er ekki ástæða til að orðlengja frekar um þetta, vegna þess að jeg hefi ákveðið að taka umrædda brtt. aftur að þessu sinni. En ef það yrði úr, að útflutningsgjaldafrv. yrði felt, þegar að því kemur, þá verður vitanlega síðar tækifæri til að breyta fjárlögunum í samræmi við það.

Um aðrar brtt. háttv. þdm. mætti sjálfsagt ýmislegt segja, þó jeg leiði það hjá mjer. Það væri þá helst um X. brtt. á þskj. 153, frá háttv. sparnaðarnefnd eða meiri hl. hennar. Að vísu hefir háttv. frsm. fjvn. (B.J.) andmælt þessu tiltæki sparnaðarnefndar alleinarðlega, og verð jeg aðeins að lýsa ánægju minni yfir því og þakka fjvn. að makleikum. Vænti jeg að háttv. þdm. sjái, hve afskaplega ósanngjarnt það er að fella niður námsstyrk innanbæjarmanna undantekningarlaust. Hitt er þó öllu verra, er ætlast er til þess, að innanbæjarnemendur allir greiði skólagjald, undantekningarlaust, hvað fátækir menn sem í hlut eiga. Er mjer og óskiljanlegt með öllu, hversvegna slíkar fjarstæður eru fram komnar, enda trúi jeg ekki öðru en að allir þessir liðir verði skornir niður við eitt og sama trog.

Þá vildi jeg að lokum minnast á 800 kr. styrkinn til lýðskólans í Bergstaðastræti 3. Jeg hjó eftir því, að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vildi ekki viðurkenna, að styrkurinn hefði fallið niður úr frv. stjórnarinnar af vangá, heldur hefði það verið gert með ásettu ráði.

Satt best að segja furðar mig á þessu, því svo langt sem jeg man, hefir skóli þessi verið í fjárlögum, og í fyrra var styrkurinn færður úr 600 krónum upp í 1000 kr.

Vona jeg því, að háttv. þdm. standi við atkvæði sitt frá í fyrra og samþykki nú þessar 800 kr. til skólans. Þessi 200 kr. lækkun er í samræmi við lækkun á mörgum öðrum liðum í fjárlögunum, og sá jeg mjer ekki fært að fara fram á, að undantekning væri gerð á þessum lið að því leyti.

Fleira er ekki í þessum kafla, sem beinlínis tekur til mín, og skal jeg því láta hjer staðar numið.