04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (1481)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Úr því hv. frsm. allshn. (J. Þ.) fanst svo nauðsynlegt að sýna hv. þdm., hvað hann væri mjer miklu fremri og vitrari, þá hefði honum eflaust verið ráðlegra að bíða eftir því, sem jeg hefi fram að færa í máli þessu, og dæma svo eftir því. En þetta hefir hann ekki viljað, og hann um það. Um fyndni hans viðvíkjandi prentvillunni hefi jeg ekki mikið að segja. En hafi prentvillupúkinn aldrei leikið á hann, þá ann jeg honum þess, þó jeg hins vegar efist um, að öll hans rit og öll hans skrif, sem út hafa komið, sjeu prentvillulaus.

Því, sem hann hafði fram að færa til stuðnings sýslumannssetri á Borðeyri, furðar mig á, þar sem hann hlýtur að vera slíku kunnugur frá þeim árum, er hann fór með vegamál landsins. Það er kunnugt, að þessi sameining hefði aldrei komið á dagskrá, ef ekki væri óánægja meðal Strandamanna um það, að sýslumaður þeirra sæti úti á sýsluenda.

Það er miklu nær að flytja sýslumann Strandamanna norður í Hólmavík. Þar í kring er von um, að síldarútvegur verði rekinn, og það í stórum stíl, nú á næstu árum, Það eru óhöpp í byrjun stríðsáranna, sem valdið hafa því, að þetta hefir ekki komist á fyr. Þetta vita allir, sem nokkuð eru kunnugir um Strandasýslu og eins er það, að útvegur þessi mun fjölga sýslubúum til muna og því ástæðulaust að hlaupa til og sameina Strandir annari sýslu.

Þó að Strandasýsla gangi á biðilsbuxum, vegna óánægju um núverandi sýslumannssetur, þá er engin ástæða fyrir Dalasýslu að taka við henni.

Sú sparnaðaraðferð, sem hv. þm. nú hafa tekið upp, er annars harla undarleg. Hún minnir á aðferð arnarins, sem steypir sjer úr háa lofti, hremmir eitt lamb og flýgur burt með það. Menn ráðast að einum og einum embættismanni, en forðast eins og heitan eld að spara stórar upphæðir og gera stórfenglegar kerfabreytingar.

Í brtt. minni fer jeg fram á það að aðskilja umboðsvald og dómsvald. Var það allmikill óþarfi hjá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) að slá því fram, að jeg vissi ekki, hvað jeg hefði átt við með brtt.; hefði hann gjarna mátt spara sjer þau orð, þangað til hann hafði heyrt ræðu mína, Þá var það og rangt, sem þessi hv. þm. (J. Þ.) sagði um fyrirmyndina að till. minni, því milliþinganefndin hafði einmitt þessa hugmynd frá mjer. Hún gekk inn á þessa hugmynd eftir tillögum mínum hjer á þingi og eftir viðtali við mig. Þessu verður hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) að renna niður, og jeg vona, að honum verði bitinn að góðu. Jeg hefi aldrei gengið þess dulinn, að til þess að koma ákvæðum till. minnar í framkvæmd þurfi að breyta dómaskipun landsins, og að slíkt verður ekki gert á þessu þingi. En fyrir því er till. engin fjarstæða. En hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir aðeins ekki dreymt um, að jeg ætlaði að vísa þessu til stjórnarinnar, til þess að hún athugaði málið og undirbyggi til næsta þings.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gat þess, að sjer hefði sýnst rjettara að sameina Stranda- og Húnavatnssýslu eða Dala- og Snæfellsnessýslu, en sýndist þó að falla frá rjettu máli. Ástæðan virðist helst hafa verið sú, að ómögulega hafi mátt spara nema einn sýslumann! Sameining Stranda- og Húnavatnssýslu sýnist að mörgu leyti vera auðveld, vegna samgangna á sjó, sem auðveldir mjög yfirsókn í þeim sýslum. En hitt fæ jeg ekki skilið, hvernig samgöngur á sjó eiga að gera sýslumanni hægari yfirsókn um Stranda- og Dalasýslu, nema hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) ætli honum að sigla umhverfis alla Vestfirði? Þó vegir hafi að nokkru verið bættir í þessum sýslum, þá er það algerlega aukaatriði.

Jeg vil geta þess, að þó jeg hafi sett hjer fram þessa till., um að hafa 5 fjórðungsdómara, þá er jeg ekki sannfærður um, að slíkt sje hin eina rjetta leið, eða horfir til verulegs sparnaðar. Jeg veit satt að segja ekki ódýrari innheimtumenn en sýslumennina. En jeg kom fram með þetta til þess, að stjórnin rannsakaði þetta, því nefndinni hefir ekki dottið í hug að rannsaka neitt; hún ræðst aðeins á einstaka embættismenn út í bláinn. Eins og öllum er kunnugt, þá lýsti stjórnin yfir því, að hún vildi draga úr embættabákni þessa lands. Er ekki ósennilegt, að hún beri fyrst niður þar sem eru sýslumennirnir. Til mála gæti og komið, að hún legði til að aðskilja ríki og kirkju. Það mundi að vísu spara ríkissjóði útgjöld, en ekki landsfólki, því prestar mundu verða hjer eftir sem áður. Hinu býst jeg ekki við, að stjórnin í till. sínum ráðist á háskólann, því hann er algerlega sjerstæð stofnun; hann er universitas. Jeg hygg því, að stjórnin muni aðallega leggja til að fækka sýslumönnum, og því þótti mjer rjett að benda henni á þessa leið. Jeg ætlast til þess, að hv. þm. sjái, að sameiningar sýslumannaembættanna nú upp úr þurru eru ekki sæmilegar, allra síst þar sem enginn eyrir sparast við það fyrst um sinn, heldur á að vísa málinu til stjórnarinnar til rannsóknar. Yrði það og hvatning til stjórnarinnar og mundi ýta undir hana að gera gangskör að því að lagfæra embættaskipunina í landinu. En ef nú á annað borð hv. þm. vilja taka fram fyrir hendur stjórnarinnar í þessu efni og fara nú þegar að káka við að sameina eina og eina sýslu, þá liggur margt miklu nær en sú sameining, sem hjer er farið fram á. Má þar nefna sameining Stranda- og Húnavatnssýslu og enn fremur sameining Dala- og Snæfellsnessýslu. Mundi tiltölulega auðvelt fyrir sýslumann að ferðast um þær sýslur báðar, hvort heldur hann væri búsettur á Staðarfelli eða í Stykkishólmi. Þá mætti og skera sundur Barðastrandarsýslu og láta nyrðri helminginn fylgja V.-Ísafjarðarsýslu, en hinn hlutann Snæfellsnessýslu. Þetta alt og miklu fleira má gera, ef menn á annað borð vilja saxa sundur gamla hjeraðaskipun í óþökk allra landsmanna. Að ganga að kjósendum eins og ræningi og slá þá þar sem sárast svíður, það er mátinn á þessu þingi. Þeir eru sviftir rjetti, án þess að svo lítið sje látið að spyrja um álit þeirra. Jeg mótmæli því algerlega, að kjósendur í Dala- og Strandasýslu verði teknir einir út úr og beittir sjerstökum rangindum, og legg því til, að þessu máli, ásamt öllum fylgjandi till., verði vísað til stjórnarinnar. Þá mun sjást, hvað rannsókn leiðir í ljós um þessi mál. Og þá kvarta jeg ekki.

Lýk jeg svo máli mínu að sinni, en geri það að tillögu minni, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.