04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (1482)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Forsætisráðherra (S. E.):

Þegar samsteypa Árnes- og Rangárvallasýslu var hjer til umr. í hv. deild, þá tók jeg ekki til máls, en nú þykir mjer rjett að segja örfá orð. Jeg hefi ekki litið svo á, að nokkuð verulegt væri til fyrirstöðu þessum samsteypum, en mjer hefir ekki þótt ástæða til að tala mikið um þessi efni nú, vegna þess að stjórnin er þegar búin að boða það, að hún ætli að taka alla embættaskipun landsins til rækilegrar íhugunar. Þess vegna er það æskilegra fyrir stjórnina, að hún bindi sig ekki nú við ákveðnar till. um þessi mál. Ef hún gerir það nú, hlýtur hún að hafa erfiðari aðstöðu til þess að líta óhlutdrægt á það mál og ráða því til heppilegra lykta. Því er það, að jeg vil ekki að svo stöddu taka ákveðna afstöðu til þessara samsteypumála.

Að því er snertir till. hv. þm. Dala. (B. J.), þá gleður það mig, að hann skuli ekki ætlast til, að ákvörðun verði tekin um hana á þessu þingi; til þess er líka málið alt of umfangsmikið.

En þó nú þessar samsteypur sýslumannaembætta eigi að verða að lögum, þá sje jeg ekkert á móti því, að endanleg ákvörðun um það dragist til næsta þings, úr því þessir sýslumenn sitja í embættum áfram hvort sem er.