04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (1483)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Frsm (Jón Þorláksson):

Jeg skal fyrst snúa mjer að ástæðum hv. þm. Dala. (B. J.), enda voru þær ekki svo veigamiklar, að langan tíma taki að svara þeim.

Fyrsta ástæða þessa hv. þm. (B. J.) var sú, að Strandasýsla mundi vaxa að mun á næstu árum, vegna síldveiða. Það má vel vera, að einhverjar síldarstöðvar rísi þar upp; jeg skal engu um það spá. En jeg get ekki skilið það, að sýslan verði á nokkurn hátt erfiðari yfirsóknar fyrir þá sök.

Þá vildi hann neita því, að bættar samgöngur á sjó gerðu ljettara að þjóna sýslunni, og reyndi þar að snúa út úr orðum mínum. En jeg held fast við það, að sýslumaðurinn geti haft hag af því að fara sjóveg t. d. til síldstöðvanna norðarlega í Strandasýslu, og það jafnt í hvorri sýslunni sem hann er búsettur.

Enn fremur taldi hv. þm. Dala. (B. J.) það tilgangslítið að koma með frv. um þessa sameiningu nú, þar sem það ekki kæmi til framkvæmda fyr en eftir tugi ára, vegna þess, að nú sætu þar í embættum ungir sýslumenn og hraustir. Það má vera, að hv. þm. (B. J.) sje kunnugri þessum mönnum en jeg og viti, að þeir sjeu ekki hæfir til annars en að vera alla sína æfi sýslumenn í fámennustu sýslum landsins. En jeg verð að draga þetta stórum í efa. Eftir því sem jeg þekki þessa menn, og jeg er þeim allmikið kunnugur, þá hygg jeg, að þeir muni, eigi síður en aðrir embættismenn landsins, geta síðar átt kost betra embættis, og það áður en langt um líður. Og þegar slíkt er fengið, er ekkert því til fyrirstöðu að koma sameiningunni á. Hrakspár háttv. þm Dala. (B. J.) um þessa menn eru því lítilsvirði í mínum augum, því jeg ber fullkomlega brigður á, að hann þekki þessa menn svo miklu betur en jeg, að þessi fullyrðing hans sje rjett. Og nú þykist jeg hafa skeiðriðið þar yfir, sem hann fór ofan í, svo jeg noti hans eigin samlíkingu.

Loks mintist þessi hv. þm. (B. J.) með stakri velvild á það, sem jeg sagði um sameining Dala- og Snæfellsn.sýslna. En þar kom hann einmitt fram með það atriði, sem slíkt strandar á. Hann hugsar sjer að skera hluta af Barðastrandarsýslu og bæta við Dalasýslu, og svo að leggja Snæfellsnessýslu þar við. En þá þyrfti að skera af Snæfellsnessýslu Hnappadalssýsluna og bæta henni við t d. Mýrasýslu; og þá þyrfti líklega að skera eitthvað af Mýrasýslu líka? Eða yfirleitt, hvað á lengi að halda áfram að skera af, hvort sem haldið er norður eða suður? Jeg hefi enga von um, að samþykki næðist til þess að höggva sundur sýslufjelög, þótt einhverjum kunni að detta í hug, að slíkt sje hagkvæmt. Hygg jeg, að Barðstrendingar mundu verða þungbrýnir, ef skera ætti sýslu þeirra sundur, og að Snæfellsnessýsla mundi una því illa, ef Hnappadalssýsla væri sniðin frá henni. Yfirleitt hygg jeg, að hv. þm. Dala. (B. J.) hafi fært svo skýr rök fyrir því, að þessi leið sje of torfær til þess, að út á hana sje leggjandi, að ekki þurfi að ræða um það frekar.

Það hefir hjer í þessu sambandi einnig verið minst á hitt frv., um sameining Árnes- og Rangárvallasýslna. En þar er ólíku saman að jafna. Sameining Dala- og Strandasýslna fellur alveg inn í það kerfi, sem nú er á skipulagi lögsagnarumdæmanna En það væri alveg sjerstætt í núverandi skipulagi, ef Árnes- og Rangárvallasýsla væru sameinaðar. Árnessýsla er fjölmennasta lögsagnarumdæmi utan Reykjavíkur, og Rangárvallasýsla er svo fjölmenn, að Dala- og Strandasýslur hafa ekki til samans jafnmarga íbúa og hún ein. Það er því alt annað að sameina Árnes- og Rangárvallasýslu eða þær tvær, sem nú eru til umr., og ekki samanberandi.

Það var nýtt atriði fyrir mjer, þar sem hv. þm. (B. J.) gat um, að hann hefði átt þessa till. um að skifta öllu landinu í 5 sýslur heima hjá sjer í borðskúffunni og að milliþinganefndin hafi fengið það hjá sjer. Þetta minnir mig á góðan vin okkar beggja, sem jafnan hefir þessi sömu ummæli um flest, sem stungið er upp á í landsmálum, nefnilega að hann hafi fyrstur brotið upp á þessu. Fyrst svona stendur á, er ekki að furða, þótt hv. þm. Dala. (B. J.) sje till. kær, og verður að virða það til vorkunnar honum, að hann hefir flutt hana hjer. En úr því hann hefir nú samt ekki haldið henni neitt fram og viðurkennir, að hún sje ekki til neinna bóta, þá skal jeg ekki ræða frekar um hana.

Hæstv. forsrh. (S. E.) endurtók loforð stjórnarinnar um að taka embættakerfið til yfirvegunar og gat þess um leið, að ekki væri neitt óeðlilegt að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Jeg skal játa, að það kann að vera þægilegt fyrir hæstv. stjórn að hafa þetta mál óafgreitt. Þá getur hún, ef illa horfist á með efndir þessa loforðs hennar, gripið til þess og lagt það fram, og verið viss um góðar undirtektir þingsins. En hitt veit jeg ekki, hvort að svo stöddu ber að álíta stjórnina svo nauðulega stadda um efndir á þessu stefnuskráratriði sínu, að ástæða sje til að vísa þessu til hennar. Að minsta kosti er allshn. á móti því og mun því greiða atkv. á móti till. hv. þm. Dala. (B. J.).