07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (1490)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Frsm. (Jón Þorláksson):

Nefndin hefir að vísu ekki haft þessa rökstuddu dagskrá til athugunar, en jeg hygg þó, að mjer sje óhætt að segja fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, sem ekki hefir skift skoðun frá því nál. var samið og til síðustu stundar, að hann telur ekki rjett að afgreiða mál þetta á þennan hátt. Ástæður fyrir þessu voru færðar við 2. umr. þessa máls, og jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka þær nú. Meira þarf jeg því ekki að segja við þessu, fyrir hönd allshn. En mjer láðist að svara einu atriði, er kom fram síðast í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.) við 2. umr. þessa máls. Hann sagði þá, að þetta frv. væri heimastjórnarhefnd á Dalasýslu fyrir það, að hún hefði kosið hann á þing. En þetta er með öllu staðlaust. Í fyrsta skifti var frv. um þetta borið fram af þm. Dala. skömmu eftir að Alþingi fekk löggjafarvald, og því löngu áður en heimastjórnin kom til sögunnar. Í annað skifti var frv. þetta borið fram af milliþinganefnd, sem í áttu sæti menn af fleiri landsmálaflokkum en heimastjórnarflokknum. Sú nefnd var ekki svo skipuð, að hún gæfi ástæðu til ummæla hv. þm. Dala. (B. J.). Í þriðja sinn er svo frv. um þetta efni borið fram hjer á þingi af hv. þm. Str. (M. P.). Það er nú margt vel um þann mann, en í augum heimastjórnarmanna hefir þó verið sá ljóður á ráði hans, að hann hefir aldrei verið heimastjórnarmaður. Hvað allshn. snertir, sem jeg tala hjer fyrir, þá er hún skipuð fleiri mönnum en heimastjórnarmönnum.

Jeg vænti, að þetta muni nægja til þess að sýna, að það eru staðlausar getsakir, að þetta frv. eigi rót sína að rekja til þeirrar ástæðu, er hv. þm. Dala. (B. J.) vildi vera láta.