07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (1493)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Frsm. (Jón Þorláksson):

Það er ekki mitt að halda skildi fyrir milliþinganefndinni í launamálinu, hvorki þeim, sem enn eru á lífi, eða hinum, sem liðnir eru. En jeg vildi minna hv. þm. Dala. (B. J.) á, að af þeim mönnum, sem sömdu till. þá, sem hjer hefir verið getið um, var aðeins einn heimastjórnarmaður, og það er sá maðurinn, sem hefir reynst hv. þm. (B. J.) best allra heimastjórnarmanna, og betur en flestir menn aðrir; það situr því illa á hv. þm. Dala. (B. J.) að beina skeytum að þessum manni, þegar hann á ekki lengur sæti í þinginu. Auðvitað er nú ekki hægt að segja, að hv. þm. (B. J.) hafi gert lítið úr þessum manni, með því að gefa í skyn, að hann hafi ráðið einn atkv. allra nefndarmanna.

Hv. þm. V.-Sk. (L. H.) sagði, að enginn sparnaður væri í þessu frv., og jeg finn ástæðu til að segja nokkur orð út af því. Það er ekki í fyrsta sinni, sem eitthvað þesskonar er sagt. Það er orðin tíska, ef einhver sparnaðartill. kemur fram í þinginu, að segja, bæði í sjálfu þinginu og opinberum blöðum, að eini sparnaðurinn, sem af þeirri till. leiði, sje sá, að lengja þingtímann, eða með öðrum orðum enginn sparnaður, heldur þvert á móti eyðsla. Sama sagði og hv. þm. V.-Sk. (L. H.) um þetta frv. En það vita allir, að þetta er ekki rjett. Það vita allir, að þingtíminn fer ekki eftir því, hvort við sitjum lengur eða skemur á dag hjer í deildinni meðan við biðum eftir því, að fjárlögin sjeu afgreidd í Ed. Því að það eru þau, sem fremur öllu öðru ráða lengd þingtímans. Jeg sje ekki, að þeim tíma, sem þessi deild hefir frían, meðan fjárlögin eru til meðferðar í Ed., sje betur varið á annan hátt en þann, að leggja niður fyrir sjer, hvernig best sje hægt að spara fje landsins til frambúðar.

(M. P.: Kostnaðurinn við prentun þingtíðindanna?). Já, jafnvel þó að prentunarkostnaðurinn verði meiri.

Og það get jeg sagt hinum hv. nýkomna þm. (L. H.), að þó að hann þykist ekki sjá mikinn árangur af sparnaðarviðleitni þingsins, og fátt gangi fram af till., sem fara í þá átt, er mikill árangur af henni, og hann er sá, að engar till. hafa komið í gagnstæða átt. Undanfarið hefir verið í þinginu stanslaus straumur af eyðslutill, bæði styrkveitingum til einstakra manna eða fyrirtækja og um stofnun nýrra embætta og opinberra starfa. Á síðasta þingi voru þannig stofnuð milli 10 og 20 embætti, sem sumpart voru samþ. í fjárlögunum og sumpart á annan hátt. Það er því ekki lítill sparnaður, ef þessu þingi tekst að stöðva þennan straum, þannig, að því yrði svo lokið, að ekkert embætti hefði verið stofnað.

Hvað hv. deild þóknast að gera við þetta frv., er nokkuð fyrir sig, en ef það verður felt, hygg jeg, að hv. þm. fari heim með þann orðstír á baki, að þeir hafi felt allar sparnaðartill., sem fram hafa komið, því að þetta mun vera hið eina sparnaðarfrv., sem enn á sjer nokkra lífsvon.