07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (1494)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi aðeins leyfa mjer að gera stutta athugasemd út af þeim ummælum, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hafði um mann, sem hann sagði að jeg þekti, en nefndi þó ekki með nafni.

Hv. þm. (J. Þ.) hefir nú ekki sýnt enn, að hann sje meira trygðatröll en jeg, og jeg mun ekki þurfa hjálpar hans til þess að semja um milli mín og þessa manns. Hann gaf það í skyn, að jeg væri að baktala þennan mann hjer í deildinni, en jeg vil aðeins minna hv. þm. (J. Þ.) á, að það, sem jeg segi og hefi sagt um þetta mál, má lesa í Alþt. það ár, sem málið var fyrst borið fram, og er því alls ekki rjett, að hjer sje nokkuð sagt á bak. Og jeg ímynda mjer, að jeg yrði fyrri til að verja hann en hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), ef þess þyrfti við.

Það, sem hv. þm. (J. Þ.) sagði um sparnaðinn við þetta frv., held jeg að hafi komið úr verra horninu á heilanum í honum, því að jeg tel hann of gáfaðan mann til að meina það, nema hann ætlist þá til, að annarhvor sýslumannanna í þessum sýslum sje drepinn, en það hefir ekki enn komið fram hjá þessum hv. þm. (J. Þ.). Það var og ekki rjett, að þetta væri eina sparnaðartill., sem lífvænleg væri, en hitt má vel vera, að hv. þm. (J. Þ.) vilji helst, að hún lifi. En jeg minnist þess nú, að háttv. þm. (J. Þ.) lagðist á móti einni sparnaðartill., þar sem um mikinn sparnað var að ræða, af því að hann vildi ekki, að Reykvíkingar skyldu einir greiða skólagjöld sín. Þá var það hann og hans kjördæmi, sem átti að verða fyrir barðinu á sparnaðinum, enda var hann frv. mótfallinn.

Annars sýnir það, hve óviturlegar þessar sparnaðartill. eru, að menn eru hættir að þora að tala í alvöru um sparnað í þinginu. Hið sama sýnir enn fremur það, að hin eina sparnaðartill., sem vit var í, var drepin. Jeg á hjer við till, fjvn. Þó var þar að ræða um jafnmörg 100,000 eins og hjer um 1000.

Annars get jeg geymt að tala um þennan sparnað þangað til þingi er lokið, því að þá verður auðvelt að reikna hann út. En að síðustu skal jeg geta þess, að íslenska þjóðin er ekki svo heimsk, að það þurfi að búast við, að hún muni gína yfir sparnaðarflugum þessara atkvæðaveiðimanna.