07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (1503)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Jakob Möller:

Háttv. frsm. (Ó. P.) komst þannig að orði, eða eitthvað á þá leið, að okkur tjóaði ekki lengur að trássast við að hlýða alþjóðalögmáli viðskiftalífsins, og átti víst við með því, að við gætum ekki lengur spyrnt á móti því að láta fram fara opinbera skráning á verðmæti íslenskrar krónu. (Ó. P.: Við getum ekki sjálfir skráð hana.). Mjer skilst þó, að hlutverk nefndarinnar væri að miða verðmæti íslenskrar krónu við einhvern erlendan gjaldeyri, en það er sama sem gjaldeyrisskráning á íslenskri krónu. Og ef litið er á fyrirsögn frv., þá er ekki hjer um annað að ræða en opinbera skráning krónunnar erlendis. Sje um annað að ræða, þá gerir hv. frsm. (Ó. P.) væntanlega grein fyrir því.

En hvað sem hv. frsm. (Ó. P.) kallar þetta, þá bendir þó greinargerðin á, eða gerir ráð fyrir, að slá öllu á frest um stund og halda áfram að „trássast“, því í greinargerðinni stendur, „að nefndin hefir álitið það rjettara, að lög þessi afgreiðist sem heimildarlög, þannig, að ríkisstjórnin og nefnd sú, sem frv. ákveður, skuli skera úr því, nær skráning skuli upp tekin.“

En nú er einmitt það merkilegasta við þetta alt saman, að þau skilyrði, sem á að uppfylla áður en opinber skráning fer fram, eru þannig vaxin, að um leið og þau eru uppfylt, er líka upphafin orsökin til þess, að gengi á íslenskri krónu hefir fallið. Því að nefndin ætlast til, að fljótandi skuldirnar ytra verði samningsbundnar, eða þá greiddar áður en til kemur að skrá opinberlega gengi okkar. Og ef það er rjett, að flust hafi 10–12 miljónum króna meira út en síðastliðið ár, og líkar horfur um sama hlutfall þetta yfirstandandi ár, þá er þar með ástæðan fallin til að viðurkenna verðfall á íslenskri krónu.

Hv. frsm. (Ó. P.) vildi ekki fara inn á það, hverjar væru orsakir gengishrunsins, og jeg skal heldur ekki á þessu stigi málsins fara langt inn á það. Aðeins benda á það, að alment er álitið, að aðalorsökin sje sú, að meira sje flutt inn en út. Væri innflutningurinn t. d. 20% minni en útflutningurinn, svo sem rannsókn hv. viðskiftamálanefndar bendir til að verið hafi síðastliðið ár, þá staðhæfi jeg, að við gætum haldið okkar krónu í „pari“.

Hv. frsm. (Ó. P.) gat þess, að lausaskuldir myndu ekki meiri en oft hefði átt sjer stað áður, því að það er alkunna, að viðskiftalífi okkar hefir þannig verið varið, að bankarnir hafa orðið að skulda erlendum bönkum nokkum tíma ársins. Samkvæmt þessu þykist jeg mega skilja sem svo, enda sjest það líka á greinargerð frv., að til þess sje ætlast, að bankarnir fái nú svo góð sambönd, að þeir geti flotið yfir þennan dauða punkt viðskiftalífs okkar. Og fáist það, er öllu bjargað og öll opinber skráning á verðmæti okkar krónu því óþörf með öllu.

Mjer skilst, sem sagt, eftir öllu, sem fram er komið, að til opinberrar skráningar á íslenskri krónu eigi ekki að koma, fyr en alt sje komið í sama horf og áður en krónan fjell. Þess vegna skil jeg ekki þetta „almenna viðskiftalögmál“, er heimtar opinbera skráning.

Nú er þess og að gæta, að viðskiftum okkar út á við er öðruvísi farið en flestra annara þjóða. Peningaviðskifti vor eru bundin við eitt land, Danmörku. Af þessu leiðir, að okkar króna ætti að vera sama virði og dönsk króna. Og á meðan þetta er svo er báðum aðiljum fyrir bestu, að gengið sje hið sama.

Áður en lengra var farið átti því að „stöðva“ gengi íslenskrar krónu við sannvirði danskrar krónu. Þetta hefir tekist víða um heim, eins og sjest á frjettum þeim, er hingað berast, að stöðva gengi hinna ýmsu peninga, enda eru sveiflur viðskiftalífsins minni nú en áður.

Þá er að finna ástæðuna, eða hvers vegna horfið hefir verið frá því að halda okkar krónu í jafnvægi við danska krónu. Jeg heyri sagt, að þetta sje ekki til neins, það verði ekki komist hjá því, að hið raunverulega gildi íslenskrar kr., eða sannvirði hennar, komi í ljós.

En hvert er þá hið raunverulega sannvirði íslenskrar krónu? Jeg held því að minsta kosti fram á meðan engin rök eru á móti færð, að það sje danska krónan.

Jeg veit ekki til, að neitt hafi verið gert til að skipa málunum á þessum grundvelli. Annar bankinn hefir enn þá notið lánstrausts eftir þörfum, en hinum hefir, eins og kunnugt er, ekki tekist að halda uppi lánstrausti sínu. Úr þessu verður engan veginn bætt með þessari opinberu gengisskráningu. Geti bankarnir sjálfir ekki aflað sjer lánstrausts, eru fjármál okkar í sama öngþveitinu og áður, hvað mikið sem gengi er skráð hjer. En takist bönkunum að efla lánstraust sitt og verði innflutningurinn minni en það, sem út er flutt, þá lagast þetta alt af sjálfu sjer. Geti bankarnir yfirfært og fullnægt eftirspurninni, hvers vegna á þá að fara að fella íslensku krónuna í verði? Þá getur ekki verið um neina utanaðkomandi nauðsyn að ræða, er heimti opinbera skráning. Aftur á móti ef bankarnir geta ekki staðið straum af yfirfærslunni, safnast skuldir á erlendar hendur, og þá kemur nauðsynin utan að, eins og hefir verið, og því hefir krónan fallið.

Það er einmitt þetta, sem nefndin gerir ráð fyrir, að bankarnir fái lán og geti yfirfært, og að innflutningur minki til muna, en þar með er hin utanaðkomandi nauðsyn til skráningarinnar horfin.

Hins vegar skilst mjer og, að þetta hljóti svo að verða, enda er það svo skýrt tekið fram í greinargerð frv., eins og jeg hefi bent á, að stjórnin getur ekki framkvæmt þessa opinberu skráning nema undir þeim kringumstæðum, sem þar eru nefndar, og nefndin leggur sjerstaka áherslu á, að ekkert verði gert án þess að hinum ákveðnu skilyrðum sje fyrst fullnægt.

Hv. frsm. (Ó. P.) endaði ræðu sína eitthvað á þessa leið: „að opinber skráning veiti gjaldeyrinum aftur til bankanna.“ Þetta er vitanlega því skilyrði bundið, að bankarnir hafi lánstraust erlendis og geti staðið straum af yfirfærslu peninga til skuldalúkninga erlendis. Opinber skráning er engin trygging fyrir því, að gjaldeyririnn komi aftur í bankana. Opinber gengisskráning skapar hvorki peninga nje lánstraust. Sje þetta gjaldeyrisokur áfram, eins og nú hefir verið um hríð, bætir opinber skráning á okkar krónu ekki vitund úr því ástandi.

Hv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að frv. þetta væri meinlaust og gagnslaust. Jeg get tekið í sama strenginn, enda búinn að færa rök fyrir því, að þetta er ekki ráðið til þess að bæta úr ástandinu. Þetta er aðeins formsatriði, sem ekki kemur til greina fyr en búið er að bæta úr ástandinu og fullnægja öllum þeim skilyrðum, sem orsakað hafa gengishrunið.

Þess vegna átti það að vera fyrsta verk nefndarinnar að koma með ráðin, svo að skilyrðunum yrði sem fyrst fullnægt.

Og þá er opinber skráning íslenskrar krónu úr sögunni.