07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (1504)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Sveinn Ólafsson:

Jeg var veikur og fjarverandi, er viðskiftamálanefndin lagði síðustu hönd á frv. þetta; er því ekki nema eðlilegt, að eitthvað kunni að vera í því, sem jeg get ekki felt mig við.

Jeg kannast við það, að jeg var nefndinni sammála um það, að þörf væri á að meta útlenda mynt, með það fyrir augum, að gengi íslenskrar krónu yrði hafið sem fyrst, til þess að fyrirbyggja óholt gróðabrall með gjaldeyri vorn. Vegna þessa var jeg með gengisskráningu, en jeg get tekið undir með hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um það, að óþarft sje að skrá gengið, ef ekki á að gera það fyr en alt er komið á rjettan kjöl aftur og viðskifti bankanna komin í gott horf.

En það er annað, sem liggur á millum línanna, og kom jafnvel óljóst fram í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), og það er að gengisskráningin ein muni ráða bót á lággenginu, en til þess nægir ekki gengisskráning. Til þess að laga gengið þarf aðrar ráðstafanir, að mínu viti, og þetta frv. kemur ekki nálægt þeim.

Hv. þm. Ak. (M. K.) tók það fram í sinni ræðu, að aðalatriðið í viðskiftamálunum væri það, að hefja gengið, en til þess dugir ekkert annað en öflug innflutningshöft, í sambandi við eftirlit með erlenda gjaldeyrinum. Án þeirra ráðstafana kemur þetta frv. að litlu sem engu liði, og það því síður, sem ákvæði þess eiga ekki að verða bindandi fyrir banka eða einstaka menn, heldur aðeins ráðgefandi, eftir því sem skilja mátti hv. frsm.

Af hagskýrslum frá sl. ári má ráða það, að útflutningur hafi á árinu verið mun meiri en innflutningur. Hefði þetta átt að laga gengið og viðskiftin við útlönd og minka þær skuldir, sem mest áhrif hafa á gengið. En þetta hefir ekki orðið nema að litlu leyti, og samtímis hefir gengishrunið komið. Virðist þetta liggja í því, að skuldaniðurfærslan er fengin með ríkisláninu að miklu leyti, og er að því leyti færsla fjárins milli lánardrottna. En þótt útflutningur hafi orðið mun meiri en innflutningur, þá virðist fjeð hafa lent að meira eða minna leyti á viðsjálum leiðum; sýnir þetta best, að þörf er á að taka hjer alvarlega í taumana og varna því, að útlendur gjaldeyrir fari á víð og dreif, því verði honum varið til að greiða með skuldirnar, mun gengið fljótt lagast.

Má segja, að þetta komi ekki við því frv., sem hjer liggur fyrir, en umr. hafa nú allar snúist að því, hver ráð mundu heppilegust til að hefja gengið, og því vjek jeg einnig máli mínu að því.