07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (1507)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi ásett mjer að varast að vekja deilur í þessu máli, því að mínu áliti er frv. þetta ekki svo veigamikið, að það taki því. Jeg get þó viðurkent góðan vilja nefndarinnar og lofsverða viðleitni, að gera eitthvað til bóta, en því miður eru litlar líkur til, að þetta frv. bæti nokkuð úr núverandi ástandi. Hv. frsm. (Ó. P.) þótti jeg fara lauslega yfir frv. áðan. Mjer fanst, satt að segja, ekki felast svo mikið í því, að það þyrfti að útlista það frekar. 1. gr. hljóðar um skipun nefndarinnar. 2. gr. kveður á um, að landsstjórnin skuli í samráði við nefndina ákveða, hvenær nefndin taki til starfa. 3. gr. er um það, eftir hverra tillögum stjórnin skuli skipa nefndina, og 4. gr. skyldar bankana til að gefa nefndinni nauðsynlegar upplýsingar, og kveður svo á um, að nánari fyrirmæli skuli ákveðin í reglugerð, sem landsstjórnin setji. Annað sje jeg ekki í frv., og finn jeg því ekki ástæðu til að fara neitt frekar inn á það. Hitt getur verið, að í umr. komi fram upplýsingar frá hv. flutningsm., sem kunna að hafa einhverja þýðingu.

Mjer er það ekki ljóst, hvort hjer liggur á bak við, að nefnd þessi eigi að ráða yfir bönkunum á þann hátt, að hún ákveði, hvað þeir megi taka mest af landsmönnum fyrir útlendan gjaldeyri. Það er þýðingarmikið atriði, hvort svo er eða ekki. Mín skoðun er sú, að fjarri sje því, að þetta verði lækningin á þessu meini. Það er engin aðalorsök til vandræðanna nú, að bankarnir hafi okrað svo mjög á erlendum gjaldeyri. Þeir hafa auðvitað selt hann of dýrt, einkum upp á síðkastið, og því væri aðhald í þessum efnum til bóta. En aðalorsökin er þó önnur. Hún er þessar skuldir við erlenda, — lánardrotna, vil jeg ekki segja, því það finst mjer of virðulegt nafn og óverðskuldað, — heldur ýmsa erlenda kaupsýslumenn, skuldir, sem eru ýmist óvissar eða alveg tapaðar. Með þessar skuldakröfur eru útlendir kaupsýslumenn eða braskarar að flagga og bjóða til kaups, þegar þeir eru orðnir sannfærðir um, að skuldirnar verði ekki greiddar að fullu, og bjóða þær svo fyrir hálfvirði eða minna á markaðinum erlendis. Þegar þessi orðrómur er svo einu sinni kominn á, þá er reynt til að sjá um það, að alt, sem Íslandi viðvíkur, sje mælt á sama mælikvarða. Í þessu liggur ólánið. Til þess að forðast, að þetta verði gert, verður að gæta hófs í aðflutningi og innkaupum til landsins. Og til þess að vörur þær, sem við seljum fyrir útlendan gjaldeyri, komi oss að fullum notum, verðum við að sjá um, að hagnaðurinn á gjaldeyrismismuninum lendi ekki í vösum erlendra milliliða, eins og helst til oft hefir átt sjer stað. Þeir hafa keypt íslenskan gjaldeyri lágu verði og borgað vörurnar með honum og selt þær svo aftur fyrir útlendan gjaldeyri, sem er miklu meira virði. Skal jeg t. d. benda á, að fiskverslun vor er mestöll í höndum nokkurra útlendra manna, sem græða á gengismuninum á þennan hátt. Meðan þessu heldur svo áfram verðum vjer að borga tvo peninga fyrir einn, og er þá ekki von, að vel fari um efnahaginn, þegar til lengdar lætur. Þinginu ætti nú að vera það ljóst, að það þarf að setja undir þennan leka, þannig, að andvirði afurða landsins verði einungis greitt í útlendum gjaldeyri, sem notaður yrði eftir þörfum til skuldajafnaðar. Ef þetta verður gert, þá er engin hætta á því, að landsmenn verði að kaupa erlendan gjaldeyri með óhæfilega háu verði. En þessu verður ekki komið í framkvæmd með slíkri nefndarskipun. Þetta verður ekki, nema þjóðin sjálf rumski og sjái, hvað til síns friðar heyrir í þessum efnum. Því þótt þessi nefnd starfaði vel, þá gæti hún samt ekki haft veruleg áhrif á það, hvernig útlendingar versla með kröfur þær, sem þeir kunna að eiga á menn hjer á landi. En ef bankarnir hjer gætu hjálpað landsmönnum til að ná heilbrigðum viðskiftum við útlönd og greiða skuldirnar, þá væri brask þetta þar með úr sögunni.

Jeg þarf svo ekki að útlista þetta nánar. Jeg hefi ekki sagt þetta í þeim tilgangi að lítilsvirða þessa viðleitni nefndarinnar, heldur vildi jeg aðeins vekja athygli háttv. deildar á því, að þetta er engin veruleg lækning út af fyrir sig. Það, sem á ríður, er að menn skilji, að það þarf að breyta um stefnu hvað innflutninginn snertir og sjá um, að afurðir landsins sjeu ekki í höndum þeirra manna, sem nota ástandið og aðstöðu sína til þess að hafa stórfje af landsmönnum og stinga í sinn vasa.