07.04.1922
Neðri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (1508)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Frsm. (Ólafur Proppé):

Mótmæli þau, sem fram hafa komið frá tveimur háttv. þdm., komu mjer alls eigi á óvart, enda þótt jeg gangi að því vísu, að sitt gangi hvorum þeirra til.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) heldur að sjálfsögðu fram þeirri skoðun, sem hann hefir hamrað á í blaði sínu og reynt að koma inn í þjóðina nú um langan tíma. Það er sú skoðun, að aldrei beri að viðurkenna sjergengi íslenskrar krónu, miðað við danska. Andmælin frá hans hálfu eru því ekki nema mjög eðlileg.

Aftur á móti eru skoðanir háttv. þm. Ak. (M. K.) um viðskifti og frjálsa verslun svo alkunnar, að það var fyrirfram vitað, hvernig hann myndi snúast í máli þessu.

Að skiftar skoðanir muni vera um þetta atriði yfirleitt, dettur mjer ekki í hug að efast um, en hitt er þó álit mitt, að meðal þeirra manna, sem skyn bera á þessa hluti, muni meiri hlutinn vera frv. samþykkur.

Það kennir nokkurs misskilnings hjá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), þar sem hann heldur því fram, að hjer sje um að ræða skráning eða mat íslenskrar krónu. Um það getur alls ekki verið að ræða, heldur aðeins mat á íslenskum gjaldeyri. Orð háttv. þm. (Jak. M.) snerust aðallega um þá grein ástæðnanna fyrir frv., sem ræðir um skilyrði fyrir því, að byrja skuli skráninguna.

Í henni er einmitt sá varnagli sleginn, að fyrst verður að koma hinum lausu skuldum fyrir á viðunandi hátt. En í þessu atriði hefir háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) misskilið mig. Það var aldrei ætlun mín eða nefndarinnar að leita hjálpar danskra banka í þessu efni. Það verða bankarnir sjálfir að gera með tilstyrk stjórnarinnar, og það ætlast nefndin til að framkvæmt verði nú strax að afloknu þingi.

En hitt lá í orðum mínum, að hin erlenda hjálp væri í því fólgin að fá stórbankana dönsku til þess að tryggja okkur, að ef talsverðar fúlgur kæmust inn á markaðinn erlendis, þá hlypu þeir undir bagga og keyptu þær upp með samkomulagsverði.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) gerði mikið úr því, að danskar verslanir væru reknar hjer á landi og hirtu þann hagnað, sem hægt væri að hafa af gengismuninum. Jeg veit nú ekki betur en hjer sjeu að eins 2 eða 3 danskar stórverslanir, og hafa þær innflutning að aðalmarkmiði sínu. Útflutningur er sáralítill eða enginn í höndum þeirra. Mun því heldur orðum aukinn sá gróði, sem þeir eiga að sópa frá landsmönnum í sinn vasa.

Þá gat háttv. þm. (Jak. M.) þess, að stjórnin hefði í fyrra átt að taka í taumana í gengismálinu. Jeg er sammála hv. þm. (Jak. M.) í þessu, en það er nú um seinan að tala um það. Sú misbrúkun, sem það hefir leitt af sjer, að ekkert var gert í þessu, verður ekki aftur tekin. Það, sem nú liggur fyrir, er að gera skjótar ráðstafanir til að skrá gengið og fyrirbyggja þannig tækifæri til slíkrar misbrúkunar eftirleiðis.

Háttv. þm. (Jak. M.) kvað bankana samt geta farið sínu fram, þar sem þeir kæmu til að hafa fulltrúa í nefndinni. Ekki get jeg sjeð að nein ástæða sje til að óttast það. Eins og sjá má á frv., þá er þar eitt sæti skilið autt handa stjórninni að skipa mann í. Er ætlast til, að í það verði skipaður einn bankastjóranna. Þótti það rjettara en að hafa þá 2, því þá mætti óttast, að bankamir yrðu of einráðir innan nefndarinnar.

Hins vegar lítum vjer svo á, að það gæti stuðlað nokkuð til að koma á góðri samvinnu á milli bankanna, ef einn maður sæti í nefndinni, sem færi með áhugamál þeirra beggja innan nefndarinnar.

Hv. þm. (Jak. M.) hjelt því fram, að lánstraust vort væri aðallega hjá erlendum bönkum, en einstaklingar hefðu ekki lánstraust hjá verslunarhúsum erlendis. Um þetta geta sjálfsagt orðið nokkuð skiftar skoðanir. Jeg þekki menn hjer á landi, sem hafa mikla tiltrú hjá enskum bönkum, og ekki mun hægt að segja, að bankarnir hjer hafi ekkert traust í Englandi. Jeg geri ráð fyrir, að þegar Íslandsbanki er kominn í horfið aftur, þá geri hann sjer far um að koma sjer innundir hjá ensku bönkunum, ekki síður en hjá þeim dönsku, enda er það sjálfsagt. Oss ætti að vera það hugfast, hvernig dönsku bankarnir reyndust oss á þeim tíma, sem oss lá mest á hjálp þeirra, og reyna að koma oss svo fyrir í framtíðinni, að vjer þurfum ekki eingöngu að treysta þeim.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) kom með þá athugasemd, hvort ekki myndi felast í frv. þessu, að matsnefnd þessi gæti skipað bankanum að selja landsmönnum erlendan gjaldeyri með ákveðnu verði, og ráðið þannig yfir þeim í þessum efnum. Það tel jeg ekki geta komið til nokkurra mála, að þetta verði skoðað sem skyldumat.

Þá talaði hv. þm. (M. K.) um áhrif þau, sem þessar skuldir vorar, sem væru í höndum erlendra braskara, hefðu á gengið. Ekki get jeg litið svo á það sem hv. þm. (M. K.). í flestum tilfellum er það ekki fje, sem þar er boðið fram, heldur víxilskuldabrjef, sem færast þá bara yfir á aðrar hendur. Get jeg ekki sjeð, að það eigi að hafa svo mikil áhrif á gengið, þótt þau sjeu seld á hálfvirði eða minna. Þessar braskaraskuldir ganga út yfir lánardrotnana erlendis, sem jeg get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni að eigi naumast drottinsnafnið skilið.

Jeg er sammála hv. þm. Ak. (M. K.) í því, að nauðsyn sje að gæta hófs í innflutningi til landsins. Síðustu árin hefir verið til muna flutt meira út en inn, og fyrirsjáanlegt er, hvert stefnir á þessu ári. Tel jeg sjálfsagt, að þessar 5–10 miljónir króna, sem talið er að vanti til þess að á komist verslunarjöfnuður, náist í ár.

Þá sagði hv. þm. (M. K.), að nokkrir erlendir fiskikóngar gætu ráðið „valutunni“ hjer og hagnýtt sjer hana eftir vild.

Það er að vísu rjett, að erlendir kaupsýslumenn hafa umráð meginparts hins erlenda gjaldeyris, en þegar þess er gætt, að framleiðendur geta ávalt fengið þá erlendu mynt, sem þeir sjálfir æskja, — auðvitað þá með sama gengi og hægt er að fá hjá öðrum, — þá liggur það í augum uppi, að með því að hafa fastákveðið verð á erlendum gjaldeyri, er einmitt með frv. sett undir þann leka, að framleiðendum geti stafað hætta af þessu.