12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (1515)

83. mál, skipun matsnefndar á erlendum gjaldeyri

Jakob Möller:

Jeg hefði haldið, að þessi háttv. þm. (Ó. P.) væri ekki svo ókunnugur þingsíðum, að það hneykslaði hann, þó að stjórnarandstæðingur rjeði til að vísa til stjórnarinnar máli, sem hann vildi fyrirkoma. Í stjórnarskránni og þingsköpunum er nefnilega svo fyrir mælt, að þá er þd. sjer ekki ástæðu til að taka afstöðu til einhvers máls, þá megi vísa því til stjórnarinnar. Það er því hreinasti misskilningur, að í þessu þurfi að liggja nokkurt traust til stjórnarinnar. — Jeg hefi annars ekki í hyggju að fara nú að ræða um afstöðu mína til stjórnarinnar, en vil aðeins benda þessum hv. þm. (Ó. P.) á það, hvort það muni þá koma alls kostar heim við afstöðu hans til stjórnarinnar að bera fram frv. sem þetta. Því ekki mun það þó vera meining hans með því að ljá henni fylgi sitt eða votta henni traust.

Hv. þm. (Ó. P.) talaði um það, að allir, sem vit hefðu á, teldu gengisskráning óhjákvæmilega. Þar væri um eitthvert viðskiftalögmál að ræða, sem ekki yrði farið í kringum. — Í þessu sambandi minnist jeg þess, að jeg sá í blaði einu hjer á dögunum grein nokkra um seðla- og gengismálið. Taldi höfundur greinarinnar það meðal annars vísindalega sannað, að því meira, sem gefið væri út af seðlum, því minna giltu þeir, þannig, að ef helmingi meira væri í umferð af seðlum en vöruveltan krefði, þá giltu þeir nákvæmlega helmingi minna en nafnverð þeirra. Og þetta sagði greinarhöfundurinn að væri eins ábyggilega vísindalega sannað eins og t. d. það, að jörðin væri hnöttótt. Hann hafði lesið þetta í bók eftir norskan mann, Aschehoug að nafni, og það var honum nóg. Slíkar tilvitnanir í vitra menn geta vitanlega gerið góðar, en jeg segi fyrir mig, jeg met þó reynsluna meira en slíkar staðhæfingar, hvað viturra manna sem er. Og hvað sem annars öllum þessum spekingum líður, þá veit jeg ekki til þess, að nokkur þeirra hafi haldið því fram, að nokkur setning á sviði hagfræðinnar sje vísindalega sönnuð. Þar er yfirleitt um „teoriur“ einar að ræða, og þótt spakir menn hafi búið þær til, þá verð jeg samt að leggja meira upp úr reynslu þeirri, sem við höfum öðlast í þessu efni. Og reynslan er sú, að við höfum getað komist af án gengisskráningar alt fram að síðustu árum. Það hefir ekki komið til mála fyr en 2 eða 3 síðustu árin að skrá gengi íslensku krónunnar. Og orsökin er sú, að bankarnir hafa haft nægilegt lánstraust erlendis til þess að komast hjá sjerstakri gengisskráningu. Nú er spurningin: Getum við setið að þeim kjörum áfram eða ekki? Það hefir ekkert að þýða, hvað fjármálaspekingar segja um þetta. Við verðum einungis að halda okkur við horfurnar og reynsluna. Og eftir þeim að dæma held jeg, að þetta sje hægt. Verslunarjöfnuður vor er nú í því horfi, að ekki er meira flutt inn en út. Samkvæmt því eigum við að geta borgað það, sem við fáum á hverju ári frá útlöndum, en aðra tryggingu hafa viðskiftamenn vorir erlendis aldrei haft: á því einu hefir lánstraust íslensku bankanna bygst. Rökrjett ályktun af þessu er sú, að í þessu efni eigi að vera hægt að komast af, eins hjer eftir sem hingað til.

Mjer þykir vænt um að hafa fengið skýringu á því atriði í þessu máli, sem óljósast var fyrir mjer, en það er um skilyrðin fyrir því, hvenær gengisskráningin skuli framkvæmd. Í greinargerðinni fyrir frv. stendur, að áður skuli lausar skuldir erlendis, sem gengi íslensku krónunnar stafar veruleg hætta af, vera samningsbundnar eða greiddar. Sömuleiðis er það tekið fram, að bankarnir skuli áður hafa fengið viðunandi viðskiftasambönd og lánstraust erlendis. Mjer er nú orðið ljóst, að ekki er til þess ætlast, að neitt verði farið eftir þessu. Viðskiftalögmálið algilda spyr vitanlega ekki um það, hve mikið af lausum skuldum vorum tekst að samningsbinda, eða hvort bankarnir hafa fengið viðunandi viðskiftasambönd. Hafa þessi ákvæði sjálfsagt verið sett þarna einungis til þess að friða einhverja af nefndarmönnunum, sem ekki hefir meir en svo litist á opinbera skráningu gengisins, með miljónir króna veltandi í lausum skuldum.

Það er nú gert ráð fyrir, að lausar skuldir vorar, sem ekki eigi að samningsbinda, nemi um 4 milj. króna. Því hefir verið haldið fram, að þær hafi verið jafnmiklar fyrir stríðið; en það er ekki rjett. Þetta eru skuldir, sem safnast hafa fyrir; þar við bætast svo vitanlega venjulegar dægurskuldir. — Upphæðin, sem þá má gera ráð fyrir að verði veltandi í „lausum“ skuldum framvegis, verður því talsvert meiri. Af þessu hlýt jeg að styrkjast enn betur í þeim ásetningi að koma þessu frv. fyrir kattarnef. Og jeg vil mjög eindregið vekja athygli hv. þm. á því, að ekki er lengur um það að ræða, að gengisskráning verði látin bíða þess, að samningar náist um allar skuldir landsins erlendis.

Hv. samþm. minn (M. J.) sagði áðan, að gjaldeyrismatsnefndin ætti ekki að hafa nein áhrif á gengið. Ja, hvað á hún þá að gera? Hann sagði, að framboðið og eftirspurnin hlyti að ráða genginu. En hver á að ákveða það? Það á nefndin einmitt að gera. Hún á að meta það, hvernig stendur á um hlutfallið milli framboðs og eftirspurnar, og ákveða svo gengið eftir því. Og samkvæmt því, sem haldið hefir verið fram af hv. frsm. frv. (Ó. P.), á hún ekki einmitt að ákveða gengið eftir hlutfallinu milli framboðs og eftirspurnar þann og þann daginn, eða þann og þann mánuðinn. Enda hætt við því, að gengið yrði þá nokkuð óstöðugt og óhagstætt á sumum tímum árs. Nei, nefndin á einmitt að hafa alóbundnar hendur um að meta gengið eftir því sem hún telur heppilegast. Það er því mikið undir því komið, hvaða menn eiga sæti í nefndinni. Auk þess er það miklum erfiðleikum bundið að fara að skrá hjer gengi, þar sem gengi hefir aldrei verið skráð hjer áður, og það ekki sambærilegt við önnur lönd, sem hafa skráð það öldum saman. Það er og hvergi síður, að þeir sjeu látnir ákveða gengið, sem eiga hagsmuna sinna að gæta í því, hvort það stendur hátt eða lágt. Bönkunum er venjulega falið þetta starf, enda mun það hollast. Þeir versla aðeins með gjaldeyrinn og eru því hlutlausir í þessu efni.

Báðir háttv. nefndarmenn vefengja, að það geti ekki komið til mála, að íslenska krónan komist upp fyrir dönsku krónuna. Færðu þeir þau rök fyrir sínu máli, að viðskiftin væru alls ekki svo bundin við Danmörku sem menn alment álitu. Þetta kemur dálítið kynlega við, þegar hv. frsm. (Ó. P.) lýsir því jafnframt yfir, að 4 stórbankar danskir muni hlaupa undir bagga með oss, ef á þurfi að halda. Ekki bæri það neitt vitni um los á viðskiftunum við Danmörk, ef þetta yrði. Eða hyggur hv. frsm. (Ó. P.), að þessir 4 bankar myndu óðfúsir að hjálpa oss til að koma gengi krónu vorrar upp fyrir dönsku krónuna? Ja, „mikil er trú þín, kona“.

Háttv. frsm. (Ó. P.) reyndi svo að lýsa því, hvað nefndin ætti að gera. Kvað hann aðalstarf hennar að koma í veg fyrir, að íslenskir framleiðendur fengju afurðir sínar borgaðar í íslenskum gjaldeyri, og erlendir milliliðir hjeldu áfram að stinga hagnaðinum af gengismuninum í sinn vasa. Jeg veit nú ekki betur en að búið sje að semja um það að fá afurðirnar borgaðar í erlendum gjaldeyri í bankana hjer, svo að ekki getur þetta orðið aðalstarfið.

Þá vill háttv. frsm. (Ó. P.) segja, að nefndin hljóti að gæta hagsmuna landsmanna gagnvart bönkunum, þegar þeir skifa andvirði afurðanna í íslenskum gjaldeyri. En það er óvíst, að hún megni einu sinni það. Það er nefnilega engin trygging fyrir því, að bankarnir fari eftir mati nefndarinnar, ef þeim ber á milli um gengið. Nefndin yrði því einmitt áhrifalaus, þegar hennar þyrfti helst með, og bankarnir rjeðu genginu eftir sem áður.

Þá sagði hv. frsm. (Ó. P.), að með því að nefndin væri svo skipuð sem ráð er gert fyrir í frv., þá komi hún til að gæta jafnt hagsmuna allra hlutaðeigenda, jafnt þeirra, sem kaupa vörur til innflutnings, og hinna, sem selja afurðir landsins útlendingum. Ekki get jeg fallist á þetta. Það er að vísu trygt þar, að framleiðendur hafi sinn fulltrúa í nefndinni. En um innkaupendur er öðru máli að gegna. Um skipun þess manns, sem ætlast er til að gæti hagsmuna þeirra, er svo fyrir mælt, að landsstjórnin skipi hann eftir till. Verslunarráðs Íslands og Sambands íslenskra samvinnufjelaga. Nú stendur svo á, að þessi tvö fjelög eiga mismunandi „interessu“ að gæta, og yrði algerlega undir hælinn lagt, hvort ofan á yrði, að gæta hagsmuna neytenda eða framleiðenda. Gæti því vel svo farið, að sá maður, sem valinn yrði, yrði líka fulltrúi framleiðenda, og er þá auðsætt, í hvaða átt viðleitni nefndarinnar myndi stefna.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða þetta frekar. Jeg held fast við það, að þótt þessu frv. verði ekki hleypt í gegnum þingið, þá er svo fjarri því, að loku sje fyrir það skotið, að gengið rjettist við aftur. Og þó svo væri, að brýn nauðsyn þætti síðar til að skrá það, þá væri þetta altaf hægt fyrir stjórnina og bankana.

Viðvíkjandi því, sem háttv. frsm. (Ó. P.) sagði um illa meðferð bankanna á framleiðendum, þá vil jeg minna hann á það, að þeir einir sæta ekki ábyrgð í því efni, heldur og landsstjórnin, sem er yfir þeim og á að gæta hagsmuna landsmanna. Og hvað komandi tíma snertir, þá er það að segja að þótt bankarnir verði látnir ráða mestu í þessu efni, þá ætti að sjálfsögðu að slá því föstu, hvaða mismunur mætti vera á kaupverði og söluverði erlends gjaldeyris. Úr þeirri átt væri því ekkert að óttast framar.