27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Kristjánsson:

Jeg á sjálfur enga brtt. í þessum kafla og er yfirleitt ekkert gefinn fyrir að koma fram með þær. Jeg stend því ekki upp þess vegna, heldur voru það ummæli tveggja háttv þm., sem komu mjer til að segja nokkur orð. — Hv. þm. Borgf. (P.O.) fór hörðum orðum um alla þá, er ekki vildu aðhyllast allar till. sparnaðarnefndarinnar. Jeg á vafalaust einhverja hlutdeild í þessu, því að jeg játa það fúslega, að jeg hefi ekki verið nefndinni samþykkur í öllum greinum.

Frá mínu sjónarmiði hefir nefnd þessi misskilið hlutverk sitt. Mjer skildist, að starf hennar ætti fyrst og fremst að vera það að undirbúa málin fyrir seinni tímann, en ekki að koma með till. um að klípa af ýmsum nauðsynlegum fjárveitingum og vilja fá það samþykt nú á þinginu. Mjer finst ekki undarlegt, þótt þm. geti ekki fylgt nefndinni að málum út í ystu æsar. Jeg viðurkenni, að háttv. fráfarin stjórn hefir gert sjer far um að viðhafa sparnað á flestum sviðum, er hún samdi frv. til fjárlaga fyrir næsta ár, og jeg viðurkenni einnig að háttv. fjvn. hefir starfað á sama grundvelli, en þá verður lítið eftir handa sparnaðarnefndinni að gera, ef hún eingöngu vill starfa að því að draga enn meir úr þeim fjárveitingum, sem bæði stjórn og fjvn. eru búnar að færa niður eins langt og virðist unt. Það þarf því ekki að koma nefndinni mjög á óvart, þótt eitthvað detti úr sögunni af tillögum hennar. Að minni hyggju var aldrei til þess ætlast, að sparnaðarnefndin væri einskonar yfirfjárveitinganefnd, heldur eins og jeg hefi áður getið um, var hlutverk hennar að leggja fyrir stjórnina til athugunar fjársparnaðartillögur sínar, sem svo yrði reynt að koma til framkvæmda síðar, eftir því sem við ætti. Ekki er óhugsandi, að nefndin hafi með þessum till. sínum viljað skifta háttv. þm. í tvo flokka. Annar teldist sparnaðarflokkur, sem óhætt væri að trúa fyrir fjármálunum, en hinn eyðsluflokkur, sem helst ætti ekki að koma nærri þeim. Eftir því, sem fram hefir komið, virðist tilgátan ekki ólíkleg. En þetta væri mjög óheppilegt. Það væri þá hægt að ganga nokkuð langt eftir þessari braut, sem er æðivarasöm. Þá mætti koma með ýmsar tillögur, sem vitanlegt væri, að ekki næðu fram að ganga, aðeins í þeim tilgangi að brennimerkja einstaka menn sem eyðsluseggi á fje ríkisins. Allir vita, að hægt er að koma mörgu inn hjá mönnum, ekki hvað síst ef feld verður nú niður prentun á umræðuparti þingtíðindanna og fólk á ekki kost á að sjá þar sjálft svart á hvítu, hvað þm. hafa lagt til málanna.

Annars finst mjer þessar sparnaðartilraunir nefndarinnar flestar smávægilegar og mest á pappírnum, en munar í rauninni lítið eða ekkert. Þær tilraunir nefndarinnar að klípa utan úr þeim fjárveitingum, sem hæstv. landsstjórn hefir fært niður sem unt er, geta orðið til þess, að ekkert gagn verði að þeim.

Jeg vil minnast hjer á eitt atriði, þótt raunar sjeu mörg, sem þyrfti að athuga. Það er till. um að fella niður styrk til iðnfræðslu. Það hefir að vísu verið tekið fram hjer áður, að till. væri afaróheppileg, en jeg vildi bæta við, að jeg er þeirrar skoðunar, og vona að öllum háttv. þm. sje það ljóst, að engin fjárveiting, sem er jafnsmá, gerir eins mikið gagn. Margir taka þegar eftir fermingu að nema einhverja handiðn, og geta því ekki gengið á neinn skóla eftir það, aðra en kvöldskóla eða iðnfræðslunámsskeið, en langar þó að menta sig eftir föngum í tómstundunum. Styrkur þessi, sem nú hefir komið tillaga um að afnema, hefir hjálpað þessum unglingum að verða að nýtari og dálítið fróðari mönnum en ella. Hann hefir gert tvent, bæði hjálpað piltum að nema iðn sína og læra jafnframt ýmislegt, sem hverjum manni er nauðsynlegt að vita, í hvaða stöðu sem er. Sýndist því nær sanni að hækka hann lítið eitt en klípa af honum eða fella hann alveg.

Því hefir verið haldið fram, að ekkert geri til, þótt styrkurinn sje feldur niður í bili. Það megi hvenær sem er aftur taka hann upp. Auðvitað er það rjett, að styrkinn má taka upp aftur, en það er engu að síður afarbagalegt fyrir þá, sem halda uppi slíkum stofnunum. Ef þeir eiga það á hættu, að styrkurinn verði feldur niður, þá geta þeir ekki útvegað sjer húsnæði nje kennara eða annað, er til kenslunnar þarf. Þeir verða því að vera nokkurnveginn vissir um að fá sinn vanalega styrk til að geta haldið stofnuninni við. Að öðrum kosti verða þeir að hætta.

Það er ekki tími til að minnast á öll þau atriði, sem hjer gætu komið til greina. Jeg ætla því að hverfa frá þessu og minnast á annað atriði, sem mjer þykir miklu skifta.

Annar háttv. þm. mintist á strandferðirnar og mælti með því að lækka styrkinn til þeirra um helming, úr 200000 í 100000 kr. Furðaði mig satt að segja á því, að svo skynsamur og velviljaður maður gæti fylgt því máli fram að minka fjárstyrk til strandferðanna, eins og nú stendur. Ef til vill hugsa ýmsir þdm., að lítið gerði til, þótt strandferðirnar leggist með öllu niður, en þar er jeg á annari skoðun. Slíkt mætti alls ekki koma fyrir.

Háttv. þm. Ísaf. (J.A.J.) tók fram till. til stuðnings, að eitt strandferðaskip væri svo að segja gagnslaust. Er nokkurt gagn ætti að vera af strandferðunum, þá yrðu skipin að vera tvö Þetta er að sumu leyti rjett; auðvitað er miklu meir í gagn að tveim skipum en einu. En sú leið að minka styrkinn stefnir ekki í þá átt, heldur þvert á móti. Mjer finst gersamlega misráðið að minka styrkinn eða fækka ferðunum, því að allir vita, að það eru strandferðir „Sterlings“, sem gera mönnum kleift að sækja atvinnu í aðra landshluta, eins og svo margir verða að gera, eftir því, hvar atvinnan býðst best.

„Sterling“ hefir naumast undanfarið getað fullnægt fólksflutningaþörfinni. Aftur á móti hefir öðru máli verið að gegna um vöruflutningaþörfina. Hún hefir ekki verið jafnmikil. Jeg vona því, að allir háttv. þdm. sjái það og skilji, að það yrði mörgum til stórtjóns, ef styrkurinn yrði lækkaður, og ferðum þar af leiðandi fækkað.

Því hefir verið haldið fram till. til stuðnings, að hv. stjórn hefði þótt heppil. að fella niður fyrstu ferð „Sterlings“ á þessu ári. En það er lítill stuðningur að svo óverjandi ráðstöfun, því bæði er það, að fjöldi manna stórskaðaðist við hana, og svo var heldur ekki hægt að framfylgja henni til hlítar. Eins og allir háttv. þm. vita, varð skipið að fara fyr en ákveðið hafði verið. Að þessu öllu athuguðu ætti mönnum að vera það ljóst, að síst er ástæða til að draga úr samgöngunum kringum land; bæri Alþingi frekar að reyna til að efla þær og auka þær en minka.

Mönnum hefir vaxið mjög í augum, hve hallinn á strandferðarekstrinum hefir orðið mikill. En jeg bið menn að athuga það, að undanfarin 30–40 ár hefir stöðugt verið mikill halli; og er það furða, að þá þótti mönnum það ekki eins tilfinnanlegt, þótt það fje rynni til útlendinga. Þessi halli hefir vitanlega orðið meiri að krónutali nú á síðustu árum, en ef miðað er við dýrtíðina, þá er hann ekki hár. Alt, sem til þess þarf, hefir fjór- til tífaldast í verði, og er þá ekki undarlegt, þótt tölurnar á pappírnum hækki. Jeg skal fúslega játa, að þau mistök hafa orðið á, að þingið hefir ekki veitt fje í fjárlögum til strandferðanna. Undireins og strandferðaskipið varð eign ríkisins, er eins og menn hafi álitið, að öllum kostnaði við þær væri lokið. Og þess vegna hefir ágóði frá hinum skipunum runnið til þess að jafna hallann.

Það mætti virðast svo sem þetta skifti ekki máli, það væri að taka úr einum vasanum og láta í hinn. En það er fleira, sem kemur til greina. Hefði hvert skip fengið að njóta sín og bókfært verð þeirra fært hæfilega niður, hefði með því mátt spara mikið vexti og vátryggingargjöld.

Borg og Willemoes hafa verið látin bera hallann af rekstri Sterlings og eigi færð niður að verði, eins og hefði átt að vera. Jeg vona, að stjórnin lagfæri þetta sem fyrst; að því er beinlínis sparnaður. Jeg hefi bent á þetta, því ekki er víst, að öllum háttv. þm. sje það kunnugt.