18.02.1922
Neðri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (1530)

12. mál, vatnalög

Sveinn Ólafsson:

Mjer þykir rjett að láta nokkur orð fylgja frv. þessu, og það því fremur sem jeg hefi átt nokkurn þátt í meðferð þessa máls á fyrri þingum. Vil jeg fyrst láta þess getið, að mjer sýnist nægilegt, að skipuð sje 5 manna nefnd í málið. Það hefir hlotið mikinn og gagngerðan undirbúning, og ætti nefndinni ekki að vera ofvaxið að afgreiða það fljótlega, ef ekki verður hafinn nýr reipdráttur um hina fáránlegu kenningu meiri hl. frá 1919 um eignarrjettinn að vatni. — Önnur ástæða fyrir 5 manna nefndinni er sú, að hv. þm. hafa ærið nóg að starfa í nefndum, enda reynsla fyrir því fengin, að fjölmennar nefndir eru oftast seinvirkari en þær fámennu.

Út í sögu málsins ætla jeg ekki að fara að þessu sinni, en geta má þess, að þetta er í 4. sinni, sem málið er lagt fyrir Alþingi, og stafar þó þessi dráttur á afgreiðslu þess alls ekki af því, að málið hafi verið illa undirbúið, eða vafi um, hvernig ætti að afgreiða það, heldur af þeim mikla misskilningi, sem komst inn í það 1919, um eignarrjettinn að vatni.

Annars er jeg ósammála hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að litlu skifti, hvort málið komist fram á þessu þingi eða eigi. (M. G.: Jeg sagði það aldrei.). Vil jeg leyfa mjer að benda á eina hættu, sem af drætti málsins getur leitt, og hún er sú, að sjerleyfislöggjöfin verður að bíða þar til vatnsrjettindalöggjöf er fengin, en meðan sjerleyfislög vantar er leiðin opin fyrir útlenda fossabraskara, sem náð hafa tangarhaldi á vötnum hjerlendis, til að notfæra sjer þau. án þeirra kvaða, sem við viljum leggja á þá með sjerleyfislöggjöfinni.

Er það kunnugt frá Noregi, að útlend fossafjelög, er náð höfðu tökum á vatnsrjetti þar í landi, urðu fljótari til að hagnýta sjer rjettindin og virkja en stjórnin og Stórþingið að koma sjerleyfislögunum fram, og sitja þau fjelög þar og hafa setið að miklu vildari kjörum en aðrir. Þessarar hættu megum við ekki bíða.