27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1923

Hákon Kristófersson:

Þá er nefndin flutti skilaboð sín viðvíkjandi símanum milli Búðardals og Króksfjarðarness, taldi jeg víst, að hæstv. stjórn mundi ekki skjóta sjer hjá að leggja þessu liðsyrði. En jeg gat því miður ekki skilið það á hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl.J.), að hann liti svo á. Við 2. umr. virtist hann bera hlýjan hug til málsins, en nú virðist mjer hann taka Hesteyrarsímann og loftskeytastöðina á Síðu fram yfir. Jeg get varla skilið, að hæstv. ráðherra hafi snúist hugur frá 2. umr., og vona þá að hann leiðrjetti mig, ef jeg hefi tekið skakt eftir ræðu hans.

Jeg á enga brtt. við þennan kafla, og ætla því ekki að tala hjer langt mál. Þó vildi jeg minnast á þá till. að fella niður styrk til fjallvega. Jeg verð að taka undir með hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl.J.), að mig furðar stórum, að slík till. skuli koma fram. Og því meiri er undrun mín, er jeg veit, að háttvirtir flutningsmenn eru úr þeim hjeruðum, sem verst eru stödd hvað vegi snertir. Sumar sýslur eru svo ólánssamar, að eiga enga þjóðvegi innan sinna takmarka, og einu tillögin sem þær fá úr ríkissjóði til vegagerða er lítilfjörlegur styrkur úr fjallvegasjóði eða af því fje, sem veitt er eða hefir verið veitt í fjárlögum til fjallvega. Og með tilliti til þeirra þúsunda króna, sem fara til þjóðveganna, væri næsta furðusamlegt, ef þessi styrkur væri feldur niður.

Hjer hafa komið fram ýmsar till. frá háttv. sparnaðarnefnd, og ætla jeg ekki að tala um þær. En jeg get ekki annað en undrast það, hve nefnd sú sætir hörðum dómum. Jeg hefi aldrei gert ráð fyrir öðru en að till. nefndarinnar væru sprotnar af því, sem hún álítur best, og dettur mjer ekki í hug að bregða henni um illar hvatir, þó að jeg og aðrir geti ekki aðhylst margar till. hennar. Þó er jeg ekki altaf á öndverðum meið við háttv. nefnd. Hún hefir t. d. lagt það til, að styrkur til utanferða lækna falli niður, og get jeg greitt þeirri till. atkvæði. Jeg játa það fúslega, að læknum geti verið mikill þekkingarauki að utanferðum þessum, en oftar munu þær farnar fyrir skemtana sakir og lítið hafast upp úr þeim. Það hefir verið sagt, að niðurfelling þessa styrks geti kostað mannslíf. Jeg vil ekki þræta um það, en margt getur kostað mannslíf, ef nógu langt er rakið. Jeg vil t. d. benda á það, að láta útkjálkahjeruð vera læknislaus svo vikum og mánuðum skiftir, og vil þar nefna Reykhólahjerað og Flatey. Jeg segi ekki, að þessi utanfararstyrkur sje ómaklegur eða illa til fallinn, en nú verður margt að falla niður, sem viðurkent er, að eigi ekki minni rjett á sjer en þetta.

Jeg verð að taka í sama strenginn og háttv. frsm. (B.J.) viðvíkjandi 4. brtt. á þskj. 153 við 12. gr. Þó æskilegt væri að geta orðið við slíkri beiðni, er þó hættulegt að leggja inn á þá braut; svo margir mundu sigla í kjölfarið. Jeg get því ekki greitt till. atkv., þó mjer þyki það leitt.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira að sinni, en jeg vænti þess, að jeg fái bráðlega að heyra frá hæstv. atvrh. (Kl.J.) og ummæli hans verði þá á þann hátt, að jeg hafi ánægju af að heyra hann lýsa yfir því, að hann muni telja sjer skylt að verða við og framkvæma skýlaus fyrirmæli háttv. fjvn. viðkomandi umtalaðri símalagningu.