25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (1552)

32. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er aðeins eitt atriði, sem jeg vildi drepa lítið eitt á. Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) kvað það ekki hafa verið heppilegt af stjórninni að láta erindreka sinn á Ítalíu fara til Madrid til að semja þar við Spánverja, og drap á mjög einkennilegar ástæður fyrir því, að menn tortrygðu hann í þessu máli, af því að hann hafði verið á móti áfengisbanninu. Jeg hefi að vísu heyrt menn minnast fyr á þessa ástæðu, en jeg hefi aldrei getað skilið hana. Til þess að hægt yrði að bera slíka ástæðu fram með nokkrum rjetti, yrði fyrst að sanna það, að þessi maður sje ekki persónulega heiðarlegur, en jeg hefi aldrei heyrt annað um Gunnar Egilson en að hann sje hinn vandaðasti í hvívetna. Og jeg hygg, að það verði ekki eftir hinn minsti efi um það, að hann hafi komið fram bæði með alúð og dugnaði í þessu máli, er þm. hafa kynt sjer skjölin um Spánarsamningana.

Jeg er á sama máli og háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) um það, að þetta frv. snerti ekki þá deilu um bannmálið, sem verið hefir á döfinni nú síðustu árin. Hjer er um það eitt að ræða, hvort það sje nauðsynlegt að breyta áfengisbannlögunum vegna útgerðarinnar, vegna fiskmarkaðarins á Spáni, eða ekki.