25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (1555)

32. mál, aðflutningsbann á áfengi

Bjarni Jónsson:

Þegar jeg átti fund með kjósendum mínum, áður en þing kæmi saman, samþyktu þeir svofeldar ályktanir, sem lagðar hafa verið fram í lestrarsal þingsins. Þeir vildu láta gera gangskör að því að ná sem bestum tollsamningum við Spán, svo að íslenskur fiskur sætti þar bestu tollkjörum, án þess að breyta þyrfti lögum. En ef það tækist ekki, og aðeins væri að velja á milli útgerðarinnar og breytingar á bannlögunum. Þá vildu þeir heldur bjarga útgerðinni, og fólu mjer að greiða atkv. með breytingu á banninu.

Stjórnin hefir nú gefið skýrslu um það, sem gert hefir verið. Sumir vilja bera brigður á, að alt hafi verið gert, sem auðið var. Jeg vil ekki leggja úrskurð á það, en það er hlutverk nefndarinnar að athuga, hver gangskör hefir verið gerð að málinu, og hafi ekki alt verið gert, þá með hverjum hætti helst væru líkur til, að úr yrði bætt. En ef frv. er drepið, þá dregst málið úr hömlu, því að ekki verður borið upp á sama þingi það mál, er felt hefir verið í annarihvorri deildinni; er það jafnt, þó að breytt sje orðalagi, ef innihald er óbreytt. Og væri þá enginn annar vegur, ef nauðsyn kallaði brátt að, en að flýta sjer brott af þingi og biðja stjórnina að ráðstafa þessu með bráðabirgðalögum. Mjer sýnist því, líkt og hæstv. forsrh. (J. M.), að það hljóti að vera spaug, er talað er um að fella frv.

Annars er þetta mál ekki annað en reikningsdæmi. Það dæmi á nefndin að reikna, og afla sjer til þess allra þeirra upplýsinga, sem henni er þörf. Þá getur hún gert upp, hvort það borgi sig að fella frv. og fá hæsta toll á Spáni. Sumir hafa í þessu sambandi talað um að flytja markaðinn frá Spáni, en jeg hefi nú ekki mikla trú á, að það takist í fljótu bragði. En hitti nokkur óbrigðult ráð til þess, þá mun jeg fagna því, eigi síður en aðrir menn. En hvernig sem niðurstaða nefndarinnar verður, þá verður hún að leggja hana fyrir háttv. deild með skýrum og órækum tölum. Það eru rökin, sem eiga að ráða, en ekki það, sem mönnum flýgur fyrst í hug.

Mjer þótti miður að heyra hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sveigja að sendimanni landsins á Spáni, Gunnari Egilson. Slíkt má ekki heyrast í þingsal, því að vitanlega er það skylda sendimanns að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar og gera eftir fyrirlagi stjórnar þeirrar, er sendir hann. Þess er og gætandi, að höfuðástundun sendimanna er að reka vel erindi sín og auka álit sitt hjá stjórn sinni, til þess að geta hækkað í tigninni. Aðrar þjóðir gera sjer það að skyldu að blanda ekki sendimönnum ríkisins inn í innbyrðis deilur, og í þingsal má slíkt alls ekki heyrast. Hitt hefi jeg sagt við stjórnina, að betra væri að senda fleiri og þá einmitt þá menn, sem bindindismenn hefðu bent á, eða að minsta kosti getað treyst. Þá hefði það sjest ljósar, hvort oss er nokkurt undanfæri.

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg geta þess, að þetta er ekki árás á sjálfstæði landsins, svo sem menn hafa viljað halda fram. Setjum svo, að jeg bjóði manni að reisa hús fyrir hann og setji honum þá kosti, sem mjer sýnist. Hann er þá sjálfráður um, hvort hann gengur að boði mínu eða ekki. Þótt jeg geri manninum harða kosti, þá er það engin árás á sjálfstæði hans. Eins er um þetta mál. Það er eingöngu samningsmál. Og ef nú svo reynist, að útgerðin þoli ekki hæsta toll, þá býst jeg við, að það verði fleiri en kjósendur mínir, sem vilja heldur taka þennan kost, þótt harður sje, en sjá útgerð vora fara í kaldakol. En hlutverk nefndarinnar er einmitt að athuga þetta. Fyrir því mun jeg greiða frv. atkv. til nefndar.