25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (1556)

32. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jakob Möller.:

Mjer finst bera óþarflega mikið á hræðslu í þessu máli, og furðaði mig á því hjá þeim hv. þm. (B. J.), sem var að setjast.

Jeg er sammála hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) um það, að málinu væri ekki teflt í neinn voða, þótt frv. yrði felt. Ef hæstv. landsstjórn þætti það miklu varða, þá mundi hún rjúfa þing og láta fram fara kosningar um málið. Tel jeg óefað, að sú stjórn, sem sýndi þá rögg af sjer, gæti fengið framlengingu á samningum á meðan með sömu kjörum og nú er. Nú er uppsagnarfresturinn 3 mánuðir, og mætti jafnvel koma þessu í kring á þeim tíma. Hins vegar liggur í augum uppi, að ekki er hægt að vita, hvort Spánverjar falla frá kröfu sinni, nema með því að neita henni einarðlega, en það er einmitt gert með því að fella frv. Hjer er því um það að ræða, hvort þingið vill gefast upp að óreyndu, eða ekki fyr en fullreynt er. Og fullreynt er ekki nema látið sje skríða til skarar.

Þessu má nú ef til vill svara því, að þetta þurfi ekki að gera fyr en nefnd er búin að athuga málið, og er það að vísu rjett. Þó er þess að gæta, að tíminn líður, og ef Spánverjar segja upp á fyrsta fresti, þá er tíminn því naumari fyrir oss til þess að koma ár vorri fyrir borð. Þó mun jeg ekki gera þetta að kappsmáli.

Hv. þm. Dala. (B. J.) taldi þetta mál ekki vera neitt sjálfstæðisatriði, þar eð vjer værum sjálfráðir um að ganga að eða frá. Tók hann dæmi til þess að sýna þetta, en mjer virtist dæmið mjög óheppilega valið. Hann virtist sem sje halda, að útgerðin liði undir lok, ef vjer gengjum ekki að kröfu Spánverja. En ef útgerðin líður undir lok, þá ónýttist mikið af eignum þjóðarinnar, og fjárhagur hennar verður ófær. Og þá væri dæmið rjett tekið, ef jeg gengi til þm. Dala. (B. J.) og segði: „Ger þú svo, sem jeg skipa þjer, eða jeg ónýti eignir þínar,“ og býst jeg við, að honum þætti nokkuð nærri sjer gengið. Satt að segja finst mjer varla hægt að ganga nær sjálfstæði manns en á þennan hátt, þótt hann sje látinn lífi halda.

Málið er svo lagt fram af hæstv. stjórn, að eigi er hægt að átta sig á, hvað Spánverjar muni gera, ef vjer neitum. Rök hafa verið færð fyrir því, að Spánverjar geti ekki haldið málinu til streitu. Fisk verða þeir að fá, og ef þeir geta lítinn eða engan fisk fengið fyrir lægri toll, þá kemur tollurinn niður á þeim sjálfum. Nýfundnalandsfiskurinn getur ekki komið í stað hins íslenska, því að hann er alt önnur vara og verri. Þá hefir og verið bent á, að þeir hafa hopað fyrir Norðmönnum. Hafa Norðmenn selt sinn fisk sama verði og áður, þrátt fyrir tollhækkunina. En þetta er alt óupplýst og órannsakað hjá stjórninni. Eins er um nýja markaði, sem menn hafa talað um. Hæstv. stjórn var að hæla sjer af að hafa sent menn til Spánar. En heldur er nú lítil hjálp í því, eins og nú er komið málunum.

Eftir því, sem málið liggur fyrir, verð jeg hallast að því, að sæmilegra væri að fella það þegar við þessa umræðu. En á hinn bóginn sje jeg ekki, að það skifti miklu máli, þó að því verði vísað til nefndar og komi til úrslita-atkvæðagreiðslu við næstu umræðu, er sú nefnd hefir haft það til meðferðar.