25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (1557)

32. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að stjórnin hefði ekki rannsakað neitt, hvort Spánverjar gætu verið án saltfisksins frá Íslandi. En jeg verð að játa, að jeg skil ekki, hvaða tök stjórnin hefir haft á að rannsaka það. — Hvað snertir markað annarsstaðar en á Spáni, skal jeg geta þess, að jeg álít, að það hefði ekki haft neina þýðingu fyrir þetta mál, eins og nú stendur það, þó sendir hefðu verið menn út um lönd, til að reyna að útvega nýja markaði.

Jeg skal ekki fara lengra út í þetta mál, en vil eingöngu taka fram, að jeg er sammála háttv. þm. Dala. (B. J.) um, að ekki verði á einu ári fundinn nýr markaður fyrir jafnmikla vöru. En auðvitað er nauðsynlegt að reyna að útvega nýja markaði, einkum ef framleiðslan eykst.

Með sama skipulagi og verið hefir held jeg, að heppilegast sje, að kaupmenn sjálfir og kaupfjelög leiti fyrir sjer með nýja markaði, eftir því sem við á, með tilstyrk stjórnarinnar. Öðru máli er að gegna, ef öll sala er lögð undir eina hönd og ríkið tekur hana að sjer.