16.03.1922
Efri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (1574)

7. mál, einkaleyfi

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hæstv. atvrh. (Kl. J.) fyrir það, að hann hefir getað fallist á brtt. nefndarinnar. Vona jeg, að þær verði samþyktar og frv. nái fram að ganga.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) sagði, þar sem hann. kvaðst vera hræddur við að færa einkaleyfistímabilið úr 5 árum upp í 15 ár, skal jeg taka fram, að jeg skildi eigi þá hræðslu. Jeg get ekki sjeð, að það sje neitt hættulegra en að veita það þrem sinnum til 5 ára. Og því síður get jeg fallist á það eða sjeð það, þar sem þjóðfjelagið getur tekið það í sínar hendur, gegn hæfilegu endurgjaldi ef hagur þess heimtar það. En jeg álít tæpast, að til þess muni koma, að einkaleyfi verði misbeitt, því að það myndi koma þyngst niður á leyfishafa sjálfum. Jeg geri sem sagt ráð fyrir því, að einkaleyfishafi komi sjer svo fyrir með starfrækslu sína, að ágóði hans af henni verði sem best trygður, en þá er ekki „praktiskt“ fyrir hann að starfrækja það þannig, að almenningi sje lítt kleift að notfæra sjer það. Enda þá hægur hjá að láta ríkið taka það í sínar hendur.

Hjer, á voru fámenna landi, ætti þetta naumast að vera hættulegt, þar sem aðrar þjóðir, er telja tugi miljóna, veita slík leyfi til 15 ára.

Jeg fjölyrði svo eigi meira um þetta. Vona jeg, að hv. deild samþykki þessar brtt., og leyfi frv. fram að ganga, því jeg tel gott að hafa lög um þetta efni, sem fara má eftir, þegar um veitingu einkaleyfa er að ræða.