27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Jónsson:

Jeg verð að fylgja úr hlaði með fáum orðum brtt., er jeg á á þskj. 153, IX. lið við 14. gr. A. a. 2, um skrifstofukostnað biskups.

Vona jeg reyndar, að þessi sjálfsagða tillaga verði samþykt af háttv. deild án þess mælt sje fyrir henni, einkum þar sem hæstv. forsrh. (S.E.) og háttv. frsm. (B.J.) hafa lagt því gott orð.

Jeg hygg það eigi rangt, þó jeg segi, að talsverð óánægja hafi ríkt hjer í deildinni við þá niðurfærslu, sem gerð var á skrifstofufje biskups, úr 3000 kr. niður í 1000, þó þeir tækju heldur þann kostinn að lækka upphæðina heldur en að láta hana standa óbreytta. En nú er hjer komin miðlunartillaga, og býst jeg við, að háttv. deild geti aðhylst hana.

Það er augljóst, að með 1000 kr. skrifstofufje er biskup bundinn við að afgreiða sjálfur að mestu leyti, og getur því eigi gefið sig að öðru. Afgreiðslur hafa verið um 11–14 hundruð á ári, skriflegar, og hefir biskup haft fastan mann við afgreiðslu frá 10–4 á degi hverjum, og er þó röskur sjálfur, eins og kunnugt er.

Skrifstofukostnaður biskups er sambærilegur við ýmsa aðra, t. d. landlækni, og ætti því að vera jafnhár. Þegar svo tekið er tillit til þess, að altaf koma margar afgreiðslur, sem ekki festast á pappír, auk vísitasíuferða, þá er auðsætt, að biskup fær eigi annað því einn öllu, enda getur naumast álitist heppilegt að binda starfskrafta hans við skrifstofuafgreiðslur. Vona jeg því, að háttv. deild samþykki brtt. mína.

Háttv. frsm. sparnaðarnefndar (S. St.) sagði, að það væri eins og komið væri við hjartað í Reykvíkingum, ef talað væri um að spara eitthvað í Reykjavík. Ætli það sje ekki svo alstaðar? Jeg býst við, að flestum verði á að kvarta, þegar á að fara að þröngva kosti þeirra, Reykvíkingar ekki fremur en aðrir. Annars finst mjer að þeir menn, sem lesa breytingartillögur þessarar hv. nefndar um það að einskorða námsstyrk í mentaskólanum við utanbæjarsveina, en leggja jafnframt á bæjarmenn eina skólagjald, geti ekki furðað sig á því, þótt mönnum komi þetta kynlega fyrir sjónir, þegar bæjarmenn eru útilokaðir frá þessum litla möguleika til að njóta námsstyrks, en jafnframt á þó að leggja á þá skólagjald. Það fær vart dulist, að þetta er heldur ósanngjarnt, að þrengja svo að þeim frá báðum hliðum.

Þá verð jeg að minnast lítið eitt á 8. brtt. undir lið X, sem lýtur að því að fella burt þennan 2000 króna styrk til kvennaskólans í Reykjavík. Í síðustu fjárlögum voru skóla þessum ætlaðar 25 þúsundir króna, en kvennaskólanum á Blönduósi 15000 krónur. Í stjórnarfrv. eru þeir báðir færðir niður, en í sama hlutfalli. Lyktaði því svo, að kvennaskólinn í Reykjavík var færður niður um 6000 krónur, en fjvn. færði kvennaskólann á Blönduósi upp aftur. Var það heldur ekki ofgert, því ekki veitti af þessu, ætti starfsemi skólans ekki að stöðvast. En hinu held jeg fram, að ekki sje rjett að gera þannig upp á milli skólanna. Eru þeir alls ekki sambærilegir, og er auðsætt, að kvennaskólinn í Reykjavík þarf miklu meira fje til rekstrar. Hann hefir alt að helmingi fleiri námsmeyjar og hvorki munu kenslukraftar vera ódýrari nje lakari en í hinum skólanum. Og svo ber eitt að athuga. Kostnaður við þennan skóla lækkar ekki að sama skapi og dýrtíðin rjenar í landinu, sökum þess, að meiri hluti kennaranna eru tímakennarar, sem ekki hafa neina dýrtíðaruppbót. Hafa laun þeirra jafnan hækkað seinna en annara kennara, og má því búast við, að þau lækki líka seinna en hinna. Er ekki hægt að ætlast til, að þetta verði öðruvísi. Starf tímakennara er bæði óþægilegt og stopult, og verða þeir því að fá tíma sinn sæmilega borgaðan. Hjer við bætist svo hinn gífurlegi húsnæðiskostnaður, sem nemur alt að 8000 krónum á ári, í stað þess, að Blönduósskólanum er lagt til ókeypis húsnæði. Býst jeg ekki við, að neitt verði haft á móti því, hvernig skóli þessi er rekinn, nje hvernig hann hefir haldið á fje sínu. Virðist mjer hvorttveggja vera í ákjósanlegu lagi. — Jeg hefi ekki komið fram með neinar brtt. í þessu efni — en hart þætti mjer það, ef þessi háttv. deild færi nú, ofan á skakkafall það, sem skólinn hefir þegar orðið fyrir, að samþykkja að fella niður þennan 2000 króna styrk. — Það er misskilningur hjá háttv. þm. N.-Ísf. (S.St.), að þessar 2000 krónur hafi verið miðaðar við sveitastúlkur þær, er skólann sækja. Svo er ekki, heldur er hjer miðað við fjölda nemendanna. Var upphaflega til ætlast, að styrkurinn færi eftir því, hversu margir nemendur væru í skólanum og skyldi ekki vera minni en 40 krónur fyrir hverja námsmey. Er styrkurinn samkvæmt þessu helmingi minni en hann ætti að vera, og ætti því í raun rjettri fremur að auka hann en minka. Jeg vona því fastlega, að brtt. þessi verði ekki samþykt, því ef svo væri, þá væri tæplega hægt annað að segja en beinlínis sje lagst á þennan skóla.

Hvað því viðvíkur, að best væri að skóli þessi hætti að starfa, þá tel jeg það síður en heppilegt. Þessi skóli hefir verið rekinn prýðilega vel. Hann er mjög vel hæfur til að ala upp húsmæður lands vors, bæði til munns og handa, og tel jeg því mjög illa farið, ef hann yrði þvingaður til að hætta að starfa. Auk þess tel jeg vafasamt, hvort mikið sparaðist við að svifta hann styrknum og leggja hann niður. Nemendur hans myndu bara leita til annara skóla, og þeir yrðu þá að færa út kvíarnar að sama skapi, því alstaðar er fult fyrir.