02.03.1922
Neðri deild: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (1594)

41. mál, bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg get ekki hjá því komist að fara nokkrum orðum um þetta frv., því það felur í sjer talsverða efnisbreytingu.

Á undanförnum árum hefir orðið vart við allmikla óánægju yfir þessum lögum, og það jafnvel svo, að hún hefir komist hjer inn í þingið. Hafa hjer tvisvar komið fram till. um að fresta lögunum. Menn sáu fljótt, sem von var, að lög þessi komu ekki að tilætluðum notum; hjálpuðu þá fyrst, þegar alt var komið í dauðann.

Það má svo segja, að öll bjargráðastarfsemi er tvíþætt:

1. Hjálp, þegar í öngþveiti er komið.

2. Vörnun þess, að vandræði og harðindi beri að höndum.

Hingað til hafa menn einkum lagt áhersluna á fyrri lið bjarðráðastarfseminnar, nefnilega að hjálpa, þegar í nauðir var rekið fyrir bændum. En um slíka starfsemi er þess að gæta, að slíkri hjálp er ekki ávalt hægt að koma við. Ef t. d. hafís er fyrir öllu Norðurlandi og jarðbönn, þá mun fje alt horfalla um alt þetta svæði, hvort sem bjargráðasjóður á hjer miljónir í bönkum eða engan eyri. Peningar segja ekkert, þegar ómögulegt er að flytja fóður þangað, sem þörf er fyrir það. Þá má og benda á það, að veturinn 1920 reyndist afarerfitt, t. d. í uppsveitum Árnessýslu, að ná í þann fóðurbæti, sem bændum þar var nauðsynlegur. Það sýnist því vera full þörf á því að taka þetta mál nokkuð öðrum tökum.

Brtt. okkar þm. Borgf. (P. O.) hníga þá og að því að leggja meiri áherslu á þá leið bjarðráðaviðleitninnar, að afstýra hallæri. Með því er engan veginn tilgangurinn að eyða bjargráðasjóðnum, heldur miklu fremur að efla hann á allan hátt, því samkvæmt till. okkar á sjóðurinn einmitt að vaxa svo, að hann verði fær um að vinna það hlutverk að afstýra hallærum, en samkvæmt þeim lögum, sem nú gilda um þessi efni, fáum við ekki sjeð, að hann geti slíkt, eins og jeg hefi þegar bent á.

Breytingar okkar snúast yfirleitt um það, að í stað þess að safna í sjóðinn eingöngu, þá eigi einnig og ekki síður að vinna að því að afstýra hallæri og undirbúa menn undir að taka á móti harðindum. Þessu hyggjum vjer að megi ná með því að styðja samvinnu eða samtök milli bænda til sjávar og sveita í þessu efni, og hefi jeg þá einkum í huga fóðurbirgðafjelög. Slíkum fjelagsskap mætti einnig vel koma á við sjávarsíðuna, og ætti sá fjelagsskapur að sjálfsögðu að njóta fullkomins jafnrjettis við hliðstæðan sveitafjelagsskap.

Hugsun okkar er sú, að bjargráðasjóður láni þessum fjelögum fje með mjög góðum kjörum, t. d. að vextir og afborgun færi samtals ekki yfir 5% árlega og gegn ábyrgð sveitarfjelaganna. Með þeim stuðningi er jeg sannfærður um, að sá fjelagsskapur fengi byr undir báða vængi, því að það er einmitt fjeleysið, sem mest hefir staðið fjelögunum fyrir þrifum.

Jeg er þess alveg fullviss, að ef þetta frv. verður samþ., og með því ýtt undir bændur að stofna og efla þennan fjelagsskap, þá muni að þessu frv. verða margfalt meira gagn en að öllum horfellis- og forðagæsluákvæðum, sem hingað til hafa sett verið. Slík ákvæði hafa verið meira og minna kák, sem ekki hefir verið hlýtt, því bændur kunna því illa að láta aðra skipa sjer fyrir um þau mál, er þeir telja sig eiga eina yfir að ráða.

Þá vil jeg að lokum geta þess, að með þessum breytingum er ekki á nokkurn hátt haggað við þeim ákvæðum bjargráðasjóðslaganna, að hvert sýslufjelag hafi þar sína sjereign og njóti hennar.

Vænti jeg, að þetta mál fái góðar og greiðar undirtektir hjer í hv. deild, og legg til, að því verði vísað til landbn.