08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (1620)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Atvinnumálaráherra (Kl. J.):

Þótt það sje satt, sem hv. frsm. minni hluta nefndarinnar drap á, að einstökum mönnum væri það hagur að halda við hinu lága gengi íslensku krónunnar, þá er það víst, að það er skaði fyrir allan almenning, að gengi krónunnar hefir fallið og er fallandi. Ástæðurnar til þessa gengisfalls eru alkunnar og því óþarft að fjölyrða um það; en þar sem almenningsheill er í veði, er nauðsyn að laga það, og það er sjerstaklega skylda stjórnarinnar að gera það, sem í hennar valdi stendur, til að bæta úr því.

Um þetta mál hefir verið mikið ritað og rætt, og mörg ráð hafa verið gefin, bæði almenn og sjerstök. Um það ber flestum skynsömum mönnum saman, að tryggasta og almennasta ráðið sje að framleiða og spara. Það verður hvorttveggja að fylgjast að, því það dugir lítið að framleiða, ef það er jetið upp jafnóðum. Margir álíta þó, að alt batni bráðlega og gengið lagist af sjálfu sjer með aukinni viðskiftakreppu og yfirfærsluleysi peninga, því hvorki gegnum banka nje póst er nú hægt að yfirfæra neitt, er nokkru nemur. En þetta er hvorugt einhlítt. Margir kaupmenn hafa náð í útlendan gjaldmiðil til að kaupa vörur fyrir. Þessi gjaldmiðill hefir að vísu orðið þeim óhemjudýr, en hvað gerir það, þeir leggja það aðeins á vörurnar, og kaupendur þeirra verða svo að borga þennan dýra gjaldmiðil óafvitandi, og auk þess hefir þeim tekist að ná í stór lán erlendis.

Það mun nú vera talið nærri sanni, að skuldir við útlönd sjeu um 16–17 miljónir. Erlendir kaupsýslumenn, sem átt hafa kröfur á hendur íslenskum viðskiftamönnum sínum, hafa, er þeir voru úrkula vonar um að fá þær allar inn, boðið þær fyrir hálfvirði eða enn þá minna. Hefir af þeim sökum orðið óeðlilega mikið framboð á íslenskum peningum, og því stuðlað að því, að íslenska krónan fjell í verði. Þar af munu vera viðráðanlegar eða samningsbundnar um 10 miljónir kr. skuldir, en lausaskuldir, sem sje þær, er mest hafa áhrif á gengið, verða þá 6–7 miljónir. Hv. meiri hluti nefndarinnar hefir komið þessum skuldum niður í 4 milj. kr., samkvæmt útreikningi símun, en það er vafalaust rangt og alt of lágt áætlað. Geta þessar dægurskuldir alls ekki verið minni en um 6–7 milj. króna. Ef þessar skuldir yrðu borgaðar, er það álit manna, að gengið mundi jafna sig.

Eitthvert fyrsta ráðið, sem komið hefir fram, til að bæta úr þessu, er, að rjett sje að taka lán og borga með því þær skuldir, sem ekki verði samningsbundnar. Þetta væri affarasælla en bann, ríkiseinokun eða þvingunarráðstafanir.

Jeg er nú ekki á þessari skoðun. Jeg álít þegar nóg lán tekin, og mjer finst óviturlegt að taka lán eingöngu til að borga með skuldir einstakra manna, sem svo ef til vill strax reyndu að stofna ný lán. Jeg álít því ekki þessa leið færa til að komast úr ógöngunum.

Önnur leiðin, sem hægt er að fara til að laga gengið, er sú, að setja höft á verslunina og banna innflutning ýmissa vara. Nú eru til lög frá 8. mars 1921, sem heimila stjórninni að banna innflutning ónauðsynlegs varnings, og getur því verið álitamál, hvort þörf sje á nýjum lögum um þetta efni, því engum hefir dottið í hug að afnema þau, og samkvæmt þeim er nú bann gegn innflutningi ýmsra vörutegunda. — En jeg er nú þeirrar skoðunar, að þessi umgetnu lög sjeu alls ekki fullnægjandi og nái ekki tilgangi sínum; þau ná aðeins til óþarfa og ónauðsynlegra tegunda, en um það eru jafnan skiftarskoðanir, hvað sje nauðsynlegt og hvað ekki. Jeg man vel, að þegar jeg las reglugerðina, sem taldi upp ónauðsynlegar og bannaðar vörutegundir, sagði jeg við sjálfan mig: Þetta kalla jeg nauðsynlega vöru. En vafalaust hafa þó aðrir verið á annari skoðun. Það eru mjög skiftar skoðanir um það, hvort þessi eða þessi vara sje ónauðsynleg eða ekki, og bætir lítið úr skák, þó að ráðherranum sje gefið vald til að ákveða það. Að vísu er skylda að hlíta þeim úrskurði, en það er alls ekki víst, að varan sje í sjálfu sjer ónauðsynleg, þó að ráðherranum sýnist svo.

Ef bönn eða höft á annað borð þykja nauðsynleg, getur verið fylsta ástæða til að banna ekki einungis óþarfavöru, heldur og nauðsynjavöru, t. d. ef mikið er til af henni fyrir í landinu. Mjer er kunnugt um, að bankarnir hafa líka neitað um yfirfærslu á peningum, af því að kaupa átti inn vöru, sem nóg var til af áður, að þeirra dómi.

Yfirleitt ná þessi lög því alt of skamt. Ef litið er á verslunarskýrslurnar frá 1918, sjest, að þá hefir verið keypt inn í landið fyrir 1 milj. og 100 þús. kr. af þeim vörum, sem nú eru bannaðar. Síðan eru engar verslunarskýrslur til, en mjer er kunnugt um, að á fyrsta ársfjórðungi 1920 var flutt inn bannvara fyrir 150 þús. kr.

Nú er það að vísu svo, að innflutningur er venjulega minstur á fyrsta fjórðungi ársins, en eykst er á árið líður; má því búast við, að inn hafi verið flutt heldur meira en fyrir 4X150 þús. eða 600 þús. kr., en þó varla yfir 750 þús. kr. Nú er jafnmikið af þessari bannvöru vafalaust ekki meira virði en 4–500 þús. á að giska, svo mikið hefir dregið úr innkaupum manna vegna peningaleysis og bankakreppu. Það er því auðsætt, að eftir þessum lögum sparast aðeins tiltölulega mjög lítil upphæð, og getur bann í þessa átt því ekki haft nein áhrif til þess að efla gengi peninga vorra.

Jeg held, að það hafi verið háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), sem taldist svo til hjer um daginn, að innfluttar vörur á árinu 1921 hefðu samtals numið 30 milj. kr. Jeg tel þetta varlega áætlað, en af því sjest, að ½ milj. til eða frá hefir alls enga þýðingu. Þessi lög eru því gagnslítil eða gagnslaus; þau eru fremur til skaða, því mönnum gremst að þurfa að sækja um, ef til vill árangurslaust, að flytja inn vöru, sem þeir vita að getur ekkert gert til nje frá, og verða óánægðir með slíkt bann, sem þeir vita að engin áhrif hefir.

Nú kem jeg að aðalatriði þessa máls, en það er, hvort þörf sje á höftum og banni nú? Um þetta eru mjög skiftar skoðanir. Sumir vilja ganga mjög langt í því að banna innflutning, aðrir vilja banna hann með vissum skilyrðum, og loks vilja sumir engin höft hvernig sem á stendur. Að minni hyggju telja flestir öll verslunarhöft óeðlileg „principielt“. Jeg er og þeirrar skoðunar, þó ekki að öllu leyti. Jeg hefi látið þá skoðun mína í ljós fyrir um 10 árum, í nefnd, sem jeg átti sæti í, að jeg teldi rjett, að landið tæki einkasölu eða einokun, sem það nefndist þá, á ýmsum vörum, t. d. kolum, steinolíu og jafnvel tóbaki.

Nú sem stendur getur verið, að þessi höft sjeu ekki nauðsynleg. En hver sjer inn í framtíðina? Útlitið er fremur bjart nú, það játa jeg, og jeg er miklu bjartsýnni nú en fyrir nokkrum mánuðum síðan. En menn mega ekki láta blekkjast af því, þó vel liti út nú, því vel getur farið svo, að áður en þing kemur saman næst verði ástandið þannig, að æskilegt væri fyrir stjórnina að hafa heimild sem þessa, ef nauðsyn krefði þá, að höft yrðu sett á, en slík lög mundi stjórnin aðeins skoða sem „Sikkerhedsventil“, þannig, að hún mundi aðeins grípa til þeirra í fylstu nauðsyn.

Ef litið er á, hvernig koma mætti þessu í framkvæmd, eru 2 leiðir fyrir hendi. Önnur er sú, að þingið semji lög, sem kveði skýlaust á um það, hverjar vörur megi flytja, hverjar sjeu bannaðar með öllu og hverjar megi aðeins flytja með leyfi stjórnarinnar.

Þessi lög væru mjög þægileg fyrir stjórnina og tækju af henni alla ábyrgð og vanda í þessu efni. En það er spá mín, að erfitt mundi verða fyrir hv. þm. að koma sjer saman um það, hverjar vörur ætti að banna, og mundi þá koma fram aragrúi af brtt., sem erfitt yrði að fást við; af praktiskum ástæðum tel jeg þessa leið miður til fallna.

Hin leiðin er sú, að þingið setti heimildarlög fyrir stjórnina, eins og þau, sem hjer liggja fyrir, og hún aðeins ætti að nota og mundi nota, ef brýn þörf væri á og gengið jafnaðist ekki af sjálfu sjer.

Hvort stjórnin mundi nota þessa heimild, veltur samt sem áður ekki eingöngu á þessari brýnu þörf, heldur verður og að líta á þá hlið þessa máls, hvort ríkissjóður muni þola það tekjutap, sem af þessu mundi leiða. Fjárhagur ríkisins er vissulega ekki svo glæsilegur, að hann þoli mikinn frádrátt á tekjunum. Því verður að meta og vega nákvæmlega nauðsynina á þessum höftum annars vegar, en tekjumissi ríkissjóðs hins vegar. Jeg er nú þeirrar skoðunar, að hagur ríkissjóðs yrði þar næsta þungur á metunum, og jafnvel fult eins þungur og hitt, og yrði þá nauðsynin að vera svo brýn, að engum dyldist, að nú væri nauðsynlegt að taka í taumana.

Loks ber að líta á það, að væru upptalningarlög sett í stað heimildarlaga, þá giltu þau áfram, þó nauðsynin væri ef til vill fyrir löngu horfin. Heimildarleiðin er því einnig af þessum ástæðum aðgengilegri.

Þá skal jeg að lokum í fám orðum segja frá 3. leiðinni, sem einkum kaupmenn telja heppilega, bæði hjer í Reykjavík og úti um land. Hún er sú, að leggja mjög hátt innflutningsgjald á ýmsar vörur, og eina vöru hafa þeir tilnefnt sjerstaklega, sem þeir segja að jafnvel mætti banna með öllu. Það er tóbak.

Þetta vörugjald tel jeg aðeins vera grímuklætt bann, og að því er snertir tóbakið skal jeg geta þess, að jeg vildi ekki taka á mig þá ábyrgð að banna það, því að það er sannfæring mín, að það yrði ekki vinsælt af öllum almenningi. Jeg hefi heyrt gamla tóbaksmenn segja, að þeir vildu ganga alls á mis til þess að geta veitt sjer tóbak, þeir vildu heldur þola hungur og harðrjetti en að hafa ekki í nefið.

Jeg hefi þá í stuttu mál lýst afstöðu minni til þessa frv. Jeg tel, að svo gæti farið, að nauðsynlegt væri að hafa slík heimildarlög, sem stjórnin hefði til taks, ef á þyrfti að halda. Jeg get ekki fallist á þær röksemdir meiri hluta nefndarinnar, að ef þetta frv. væri samþ., væri það áskorun til stjórnarinnar um að beita þeim. Þvert á móti mundu þau hvetja stjórnina til þess að nota þau með mestu varúð.