10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (1624)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Jón Auðunn Jónsson:

Þótt jeg hafi skrifað undir nál. meiri hl. fyrirvaralaust, þá er jeg þó ekki sammála meiri hl. í ýmsum atriðum nefndarálitsins, og af fyrri framkomu minni í þessu máli vona jeg, að hv. þm. viti, við hver atriði jeg á. Hins vegar er jeg sammála í höfuðatriðinu, sem sje að fella frv.

Hv. þm. er kunnugt, að jeg var mjög fylgjandi innflutningshöftunum 1920. Við flutningsm. sáum, að landsmenn brúkuðu þá miljónir króna í óþarfa, eða miður þarfa vöru, enda höfðu menn þá enn yfir allmiklum peningum að ráða, og kom ekki til hugar, að nú væru veltiárin þegar um garð gengin. Fyrri part ársins 1920 voru hús, jarðir, skip og lifandi peningur í allra hæsta stríðsverði, og menn áttuðu sig ekki á því, að verðfallið vofði yfir, og þegar menn svo höfðu peninga í höndum, þá var freistingin mikil að kaupa, jafnvel óþarfa. Þar við bættist, að vörur voru sífelt hækkandi í verði, svo fólk keypti meira og minna fyrirfram, til að forðast verðhækkun. Afleiðingin varð sú, að innflutningur jókst á ónauðsynlegum vörum. En þetta breyttist nokkuð í byrjun síðastliðins árs; kaupgeta manna fór minkandi, og því náðist samkomulag hjer á þinginu um að láta innflutningsnefndina hætta að starfa. Jeg get nú ekki viðurkent það, að innflutningsnefndin hafi ekkert gagn gert. En slíkar nefndir geta aldrei náð tilgangi sínum á stuttum tíma. Kaupsýslumenn gera samninga um vörukaup oft löngu fyrirfram. Þar, sem slíkt hafði átt sjer stað, vildi innflutningsnefndin ógjarnan rifta þeim samningum, og þess vegna var flutt inn á árinu 1920 meira en í raun og veru var ætlast til; með öðrum orðum, nefndin gat ekki starfað með fullum krafti, meðal annars af því, að hún hafði tekið þá stefnu, að ónýta ekki gerða verslunarsamninga.

Aðalástæðan fyrir því, að innflutningsnefndin var látin hætta störfum, var verðlækkun á erlendum markaði. Hv. þm. vildu ekki standa á móti því, að nauðsynjavörur flyttust inn í landið með lægra verði en áður. Jeg var því fremur andstæður, að innflutningsnefndin yrði lögð niður í fyrra, þótt jeg ekki beint snerist á móti því. Jeg vissi, að ef tímarnir versnuðu, þá væri hennar full þörf. En úr því nú einu sinni er búið að afnema nefndina, og úr því að kaupgeta almennings er nú mjög takmörkuð, svo lítil hætta er á, að landsmenn eyði miklu fje í óþarfa, þá sje jeg ekki ástæðu til að skipa þessa nefnd aftur nú, og það því fremur, sem nú hlýtur að líða langur tími áður en gagnsemi hennar kemur í ljós. En í bráðina verður afleiðingin sú, að ýmsar vörur hækka í verði. Og því minni ástæða er til að skipa þessa nefnd nú, þar sem alt útlit er fyrir, að úr muni rakna fjárhag vorum með hagstæðum verslunarjöfnuði á þessu ári. Ef oss sýnist þörf á að setja viðskiftanefnd og innflutningshöft að nýju, til viðrjettingar genginu, þá þarf áreiðanlega aðrar ráðstafanir og fljótvirkari en þær, sem frv. fer fram á. Hefir mjer komið til hugar, að ef til einhverra ráða þyrfti að grípa í þessu efni, þá yrði best að banna algerlega einhverja eina vörutegund í 1½ ár, t. d. vefnaðarvöru alla. Hefi jeg talað um þetta við nokkra kjósendur mína, og þeir verið mjer sammála. Slíkt bann mundi að vísu koma illa niður, en svo yrði um alla nauðsynjavöru, sem bönnuð yrði. Efnamennirnir mundu birgja sig upp, en hinir fátæku yrðu á hakanum, og kæmi slíkt því harðast niður á þeim, sem síst mættu við því. Jeg slæ þessu hjer aðeins fram, en hygst ekki að bera fram neitt frv. um þetta efni.

Hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) sagði, að vjer mundum geta verið án ¼ alls innflutnings án þess að baka oss með því mikil óþægindi. Jeg hefi nú farið í gegnum verslunarskýrslurnar og athugað þetta, og sje enga leið til þess að takmarka innflutninginn nærri svo mikið enda rökstuddi hann ekki þessa fullyrðingu.

Þessi sami hv. þm. (Sv. Ó.) sagði, áð ýmsir ljetu sjer í ljettu rúmi liggja, hvort gengi íslensku krónunnar hækkaði eða ekki. Þetta eru þung orð, og jeg vona, að hann hafi þar ekki átt við okkur meiri hl. nefndarinnar, enda skal því svarað, ef beint verður til okkar.

Þá sagði hann, að útvegsmenn hefðu hag af lágu gengi íslenskrar krónu. Það er að því leyti rjett, að þeir verða fyrir tapi, ef gengið hækkar mjög áður en sala fiskjarins fer fram, af því að þeir hafa keypt allar vörur til útgerðarinnar með lággengisgjaldmiðli. Hitt er jafnvíst, að útgerðarmenn sem aðrir tapa á lágu gengi ísl. krónu í framtíðinni, því lággengi skapar dýrtíð, og þá að sjálfsögðu há vinnulaun.

Þá benti hæstv. atvrh. (Kl. J.) á það, að til mála gæti komið að hækka innflutningstolla að miklum mun. En það vað held jeg að sje tæplega fært, sjerstaklega vegna þess, að þjóðin er svo sköttum hlaðin, að hún þolir ekki meira. Það hlýtur að vera, að slíkur tollur lendi að mestu leyti á nauðsynjavörum, því að jeg hygg, að á þessu ári muni lítið verða keypt af óþarfavörum.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) rjeðst allhvast á innflutningshöftin og kvað reynsluna hafa rekið þeim rokna löðrung, með því að enginn árangur hafi orðið af skipun viðskiftanefndarinnar. Við erum nú ekki sammála um það, en um hitt erum við sammála, að eigi beri að auka innflutningshöft nú, heldur rýmka þau. Hann gat þess og, að það væri ógerningur að hefta verslunina, vegna þess, að svo margir hefðu atvinnu af henni. Það er að vísu svo, að það er ilt að spilla atvinnu manna, en það mætti þó ekki standa í vegi, ef um þjóðarnauðsyn væri að ræða.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hefir svarað hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) um traustleysi bankanna erlendis, er hann gat um, að Landsbankinn hefði nýlega fengið hagfeldan viðskiftasamning erlendis. Þetta ætti að nægja til að benda á, að hann er ekki traustslaus. Jeg vil í sambandi við þetta geta þess, að jeg er sannfærður um, að ef Íslandsbanki gæti fengið nauðsynlegt lán erlendis, þá mundi gengið lagast á stuttum tíma. Það, sem stendur fyrir hækkun íslensku krónunnar, er það, að Íslandsbanki hefir ekki getað yfirfært, en ef hægt væri að bæta úr því, þótt ekki væri nema til hausts, þá mundi gengið lagast mikið nú strax, en það er mín sannfæring, að gengi ísl. krónu verði ekki mikið lægra en danskrar um næstu áramót.