10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í C-deild Alþingistíðinda. (1625)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Það virðist svo, sem miklar breytingar hafi orðið á hugum manna á tveggja ára tímabili. Á þinginu 1920 bar hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fram frv. um innflutningsbann á óþörfum varningi. Þá urðu umr. um það litlar hjer í þessari hv. deild, og sama sem engar í hv. Ed. En nú er búið að eyða í þetta frv. meiri tíma, við þessa umr. hjer, en eytt var í allar umr. 1920. Og þeir, sem þá voru með höftunum, eru nú snúnir á móti þeim. Það kann nú að vera, að tímarnir sjeu breyttir. Það, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fann þessu frv. aðallega til foráttu, var það, að þetta frv. væri ekkert betra en lögin, sem fyrir eru, færu í engu lengra, m. ö. o. væru sömu lögin. En ef hann álítur, að það sjeu sömu lögin, sem hjer eru á ferðinni, þá hygg jeg, að það sje ekki erfitt fyrir hann að samþykkja þetta frv. En ef það er skýrara en hin eldri lög, þá er heldur ekki nein óvirðing fyrir hann að samþykkja það, því að það kemur þráfaldlega fyrir, að lögum, sem sett eru á einu þingi, er breytt á næsta eða næstu þingum, ef það kemur í ljós, að þau eru eigi nógu skýr. Jeg er ekki í nokkrum vafa um það, að í þessu frv. er skýrara orðað og lengra gengið með heimild til stjórnarinnar en í lögunum frá 8. mars 1920. Þar er miðað við óþarfan varning, en hjer er ekki eingöngu tekið til óþarfa, heldur og annarar vöru, sem nægar brigðir eru til af í landinu. Hv. 1. þm. Skagf. hefir að vísu skilið hin gildandi lög svo, að í þeim væri næg heimild fyrir stjórnina til þess að hefta innflutning á vöru, er nóg væri til af. Hann hefir sjálfur haldið því fram, og skal jeg með leyfi forseta lesa það hjer upp:

„Hins vegar verð jeg að geta þess, að það er álitamál, hvað er þörf vara og hvað óþörf. Jeg lít svo á, að þegar flutt er of mikið inn af vörunni, sje hún óþarfavara, og fellur hún þá hjer undir.“

En það er ekki nóg, þótt hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hafi skilið þetta á þennan veg. Jeg veit það að vísu, að þegar verið er að skýra lög, þá er oft athugað, hvað frsm. og aðrir þm. hafa sagt við undirbúning laganna á þingi, og er oft mikil stoð í því, en þau ummæli eru aðeins til leiðbeiningar um, hvernig eigi að skilja lögin. En bindandi er slíkt auðvitað ekki. Ef þeir menn, sem dæma eiga eftir lögunum, líta öðrum augum á það, þá binda þeir sig ekki við það.

Það þarf ekki annað en líta á, hvernig þessi lög hafa verið skilin í framkvæmdinni, til þess að komast að raun um, að þau hafa ekki verið skilin á þann veg, sem hv. 1. þm. Skagf. gerði. Stjórnarráðið gaf út reglugerð 31. mars 1921. Ef litið er á 1. gr. þeirrar reglugerðar, er fljótt hægt að ganga úr skugga um það, að þar er ekki um nauðsynjavörur að ræða, eða um þær vörur, sem í daglegu tali eru nefndar svo.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að þessi lög hefðu gefist vel og sparað landinu mikið fje. En þar eru bankarnir ekki á sama máli. Jeg fór ekkert út í það í fyrri ræðu minni, en vil nú skýra frá, hvaða álit bankarnir höfðu á þessum lögum. Það er þá fyrst, að stjórnir beggja bankanna skrifa stjórninni brjef, 24. sept. f. á., þar sem þær skora á hana að herða á innflutningshöftunum. Er þar meðal annars komist svo að orði:

„Vjer leyfum oss að skjóta því til stjórnarráðsins, hvort það telur sjer ekki fært að banna innflutning á ýmsum fleiri vörutegundum en þeim, sem innflutningur er nú bannaður á, og viljum vjer leyfa oss að mæla mjög með því, að farið verði svo langt í því efni, sem stjórnarráðið frekast sjer sjer fært.“

Stjórnarráðið brá þá við og sendi viðbótarlista, en þar er enn sem fyr, það eru eingöngu óþarfar vörur, sem teknar eru á listann. Þáverandi atvinnumálaráðherra hefir þá skilið heimildina þannig, að hún tæki aðeins til óþarfa varnings, er hann sendi þennan viðbótarlista. En bankarnir vildu ekki líta við þessu. Þeir töldu þetta ónógt, það næmi engu, en hins vegar ástandið orðið þannig, að Landsbankinn segir í brjefi 28. okt. f. á.: „Í sambandi við það, sem sagt er hjer að framan, leyfum vjer oss að vekja athygli stjórnarráðsins á því, að það er nú orðið öllum lýðum ljóst, að ástandið er þannig, að það er með öllu óhjákvæmilegt, að stjórnin taki í taumana.“

Í líka átt fer álit Íslandsbankastjórnarinnar. Hún segir, að viðbótin nemi ekki nema ½ miljón, og lítið muni um það.

Þannig líta nú bankarnir á þetta kák, en þeir eru öðrum hæfari til að dæma um það, enda kom viðbótarreglugerðin aldrei.

Ef það er rjett hjá 1. þm. Skagf. (M. G.), að heimild sje fyrir stjórnina í núgildandi lögum til þess að hefta innflutning á nauðsynjavörum, þá er þetta frv. auðvitað óþarft. En jeg lít svo á, að sú heimild sje ekki þar, og minni hluti viðskiftan. hefir einnig litið svo á. En ef hv. 1. þm. Skagf. getur fullvissað mig um það, að í lögunum frá 8. mars 1920 felist sama heimild og hjer er farið fram á, þá skal jeg vera ánægður. En jeg hygg, að honum takist það ekki.

Þá gat sami hv. þm. þess, að hvorki frsm. minni hl. eða jeg hefði minst á gjaldeyrisspursmálið. En hann veit vel, að það heyrir ekki undir minn verka hring, og það er ekki viðeigandi, að einn ráðherrann gangi inn á verksvið annars. En fjármálaráðherrann á eftir að tala, og mun hann þá minnast á það.

Þá skal jeg minnast stuttlega á ræðu frsm. meiri hl. (M. J.). Hún var löng og þræddi nál., en jeg skal nú ekki fara út í mörg atriði ræðu hans, þótt ástæða væri til þess. Hann gat þess, að það væri óánægja meðal almennings út af höftunum. Það er ekkert nýtt; menn vilja leika sjer og þola engar takmarkanir á sjálfum sjer. En til þess má ekki taka mikið tillit, þegar almenningsheill er annars vegar. Hann kvað höft vera óþörf, því að óþarfavörur gengju illa út hjá kaupmönnum. En það er öllum augljóst, að kaupm. hefir ekki gengið illa að koma út vörum sínum. Þeim mönnum, sem sáu í búðargluggana hjer um jólaleytið, gat ekki dulist, að mikið var þar af óþarfavörum, og kaupmenn láta af því, að jólasalan síðasta hafi gengið fremur vel.

Þá er eitt atriði, sem jeg vil leggja áherslu á. Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) sagði, að menn ættu að byggja líf sitt á horfum. Þetta er rjett, en þá verður að líta á horfurnar frá fleiru en einu sjónarmiði. Horfurnar eru góðar nú og mikil höft óþörf að svo stöddu, þó allir játi reyndar, að ástandið sje hvergi nærri eins og það ætti að vera og venjulega er. Jeg skal játa, að jeg er miklu bjartsýnni nú en jeg var fyrir nokkrum mánuðum, þar sem tíðarfar er svona gott, afli nægur og útlit fyrir gott fiskverð. En þetta getur breyst; það getur komið hafís fyrir Norður- eða Vesturlandi og haldist langt fram á sumar, svo sem komið hefir fyrir. Hvað þá? Þá er betra að vera við öllu búinn. Það ber ekki aðeins að líta á björtu hliðina, heldur verður og að gefa gaum hinni lakari. Það gera allir góðir búmenn.