10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (1628)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Sessunautur minn, hv. frsm meiri hlutans (M. J.) þrumaði yfir mjer 70 mínútna langan lestur við fyrri hluta þessarar umr. Það má því ekki minna vera en jeg, að gömlum og góðum sveitasið, þakki honum lesturinn, En til þess að sýna honum, að jeg hafi ekki sofið um lestur, skal jeg minnast á nokkur atriði, er ræða hans gaf tilefni til.

Lesturinn var engin nýung, ekkert frumlegt, ekkert annað en bergmál af umr. síðasta þings um viðskiftamálin, umr. forsvarsmanna reykvískrar kaupsýslu og hagsmuna hennar. Efnið var þetta margendurtekna auragræðginnar evangelium ófyrirleitinna kaupsýsluprangara um frjálsa kaupsýslu, frjálsa, ótakmarkaða samkepni og frjálsræði fyrir þá til að hrúga í vetlinginn aurum skilamannanna skapþungu, án alls tillits til hagsmuna heildarinnar, eða vandkvæða þeirra, sem við þjóðinni blasa, og stjetta þeirra og einstaklinga, sem viðskiftaókjör og gengishrun íslenskra peninga er að örmagna.

Þessir fjölvitru kaupsýslugarpar og ágætu föðurlandsvinir þykjast hafa og vilja hafa ráð þjóðarinnar í hendi sjer, og þykjast rjettkjörnir til að hirða hvern eyri, sem afgangs verður brýnustu þörf landsmanna, eða þeirra, sem tískunnar vegna, glysgirni og ljettúðar glæpast á skrumi þeirra og glingri. Um efnalegt sjálfstæði þjóðarinnar eða einstaklinga hennar varðar þá ekki. Þeir verða fyrst og fremst að fylla vetlinginn og láta ekki vanta í neinn þumalinn.

Talsmaður þessara heiðursmanna, þessara föðurlandsvina og fjármálagæðinga, er hv. frsm. meiri hl. (M. J.), og er það hlutskifti, sem jeg öfunda hann ekki af. Auðvitað fordæmir hann, vegna skjólstæðinga sinna, öll viðskiftahöft og telur þau til tjóns, sem ekki verði tölum talið. Þetta er nú ekki meira en vænta mátti, en hitt er furðulegra, er hann lýsir innræti þeirra og borgaralegri skyldurækni svo sem hann gerði Hann taldi sjálfsagt, að ef innflutningsbann væri sett á vörur, mundu þeir flytja inn forboðinn varning og selja hann, en svíkjast undan vörutolli; en ef eftirlit yrði haft með útlendum gjaldeyri, mundu þeir á bak við það fara, ráðstafa fjenu utanlands og gæla þess, að það kæmi ekki hingað til lands. Þarna mun lambinu rjett lýst, og hv. frsm. meiri hlutans (M. J.) þekkir auðvitað, eins og góður hirðir, sína sauði, en hæpið er, að virðing þeirra vaxi við þessa tilgátu hans.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) kvað hina „mórölsku“ ástæðu viðskiftahaftanna horfna. Ekki veit jeg, hvernig hann ætlast til að þetta sje skilið. En mjer finst liggja beinast við að skilja orð hans svo, að þessir margnefndu skjólstæðingar hans hafi öðlast einhvern „móralskan“ rjett til að leika lausum hala og láta greipar sópa um þá litlu kaupgetu, sem eftir er, „spekúlera“ í lággenginu og spilla gjaldgetu þjóðarinnar með ginnandi sölu óþarfavarnings. Hann má eiga þennan „móral“ fyrir mjer og samgleðjast í honum skjólstæðingum sínum.

En reyndar finst mjer, að hann ætti að kjósa sjer sæmra föruneyti, og hálfgildings eftirsjá að honum í þá Jörfagleði. Annars mun hann hafa slegið þessu fram lítt hugsuðu, því móralska ástæðan fyrir höftum er jafngild nú, ef ekki gildari en hún hefir nokkru sinni verið, og hún byggist á því, að þjóðarheildinni er að blæða til ólífis, fjárhagslega skoðað, fyrir óáran og fljótandi skuldir út á við. Þessu veldur langvarandi dýrtíð, hrakleg sala á, afurðum landsmanna og loks lággengið, en í skjóli þess geta kaupmenn, jafnvel þeir, sem ráða yfir erlendri mynt, fært söluverð útlendrar vöru fram úr hófi.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) furðar sig á því, að heimtuð skuli höft nú, þar sem feld voru niður í fyrra, og telur ástandið hafa batnað svo mjög síðan, að ástæða til hafta sje horfin með öllu. Jeg veit ekki, hvort hann mælir þar sjer um hug, eða þetta er sprottið af hans alkunna verslunarviti. Hitt vita allir, að ástandið hefir breyst frá í fyrra, og mest þó til hins verra. Afnám viðskiftanefndar og hafta í fyrra var, illu heilli, fljótræðisverk, þvingað fram af hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) og öðrum talsmönnum kaupmannahagsmuna, og ýttu þá undir tyllivonir um viðskiftabót þá, sem erlenda ríkislánið til Íslandsbanka mundi veita, en þær vonir eru nú að engu orðnar, enda er nú fram komin í algleymingi sú ástæðan, sem í fyrra var öllum óljós, sem sje gengishrunið. Það kreppir afskaplega að ríkissjóði og þeim, sem greiða þurfa fje úr landi, öðrum en kaupmönnum, sem náð geta gengismuninum aftur af skiftavinum sínum, með því að færa fram verðið á því, sem inn er flutt og selt.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) veit vel, að hjer er brýnni ástæða til viðskiftaráðstafana en líklega nokkru sinni áður.

Og jeg hygg, að hann viti það líka, að skuldir vorar út á við, sem nál. á þskj. 206 telur, og tölur þær, sem hann nefndi í ræðu sinni, eru að nokkru ágiskaðar, yfirleitt of lágar og sumar villandi, eins og jeg mun sýna fram á.

Þegar ræða er um 1 milj. kr. skuld, sem vjer nú þegar þurfum að greiða erlendis, þá verður upphæðin nær 1400000 íslenskar krónur, eftir núverandi gengi. Með öðrum orðum, þær fljótandi skuldir landsmanna í dönskum krónum eru í reyndinni fullum þriðjungi hærri, þegar þeim er breytt í íslenskar krónur. Hv. þm. (M. J.) ætti einnig að vera kunnugt um það, að líkurnar, sem hann og meiri hl. telur fyrir því, að samningsbinda megi að meira eða minna leyti skuldir Íslandsbanka, eru mjög hæpnar, og að samningstilraunir um þetta hafa árangurslaust verið gerðar við nokkra af bönkunum í Kaupmannahöfn nú nýlega. En máske hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) tækist að koma þessu í lag, ef hann skryppi út yfir pollinn; þetta hefir samt enn ekki tekist, og má vera, að fjármálaþekkingu hv þm. (M. J.) hafi þar vantað til samninga.

Að neita því, að viðskiftaráðstafanir sjeu nauðsynlegar og geti hjer að liði orðið, er sama og að meta stundarhagnað nokkurra einstaklinga meira en hag heildarinnar, og hv. frsm. meiri hl. (M. J.) auglýsir mjög eftirminnilega sitt kaupmannlega hugarþel, þegar hann talar um kaupgetuleysi almennings eins og allsendis heilbrigt og eðlilegt ástand.

Við sama tóninn syngur og í nál., á bls. 4, þar sem hann telur þær 7 plágur, er hann hyggur að gangi yfir landið, ef viðskiftahöft verða tekin upp. Mig furðar reyndar ekki á því, þótt jafnbiblíufróður maður komi með þessa helgu tölu, enda mun hann hafa haft í huga Faraós-beljurnar mögru, og skulum við þá athuga fyrstu beljuna, eða fyrstu pláguna, sem hann telur atvinnuspjöll ekki svo fárra manna, er verslun hafa að atvinnu, og hann telur þarflaust að leggja stein í götu fyrir. En um þessa plágu er það að segja, svo fremi jeg sje, að hana mætti miklu fremur skoða sem þjóðfjelagslegt happ, ef hún leiddi til þess, að nokkrir þeirra, sem lifa af viðskiftaatvinnu með munaðar- og glingursvarning, hyrfu frá því að annari sæmilegri atvinnu, eða færu úr landi, því vissulega er hjer margfalt fleira af þessum mönnum en þörf þjóðarinnar krefur, og þess vegna er þeirra starf ekki aðeins gagnslaust þjóðfjelaginu, heldur má telja það böl og byrði fyrir heildina, þegar fjöldi manna legst á meltuna og lifir á þeim, sem björgina sækja úr skauti náttúrunnar og heiðarlegri störf stunda. Á þetta sjerstaklega heima um þennan bæ, sem að vísu sýgur næringu frá öllum landshlutum, og sagt er að hafi um 500 verslanir, og líklega elur á viðskiftahagnaði af þessum 500 stofnunum sem svarar 5–6 þús. manns, eða 1/3 allra íbúa bæjarins, í stað þess að geta líklega komist af með svo sem 5–6 hundruð vel æfðra og starfshæfra manna á þessu sviði.

Ef rjettur þessara manna, þessara þúsunda, til að lifa af starfi annara, og það jafnvel í dýrðlegum fagnaði, á að vera ríkari en nauðsyn þjóðfjelagsheildarinnar, þá er kenning hv. frsm. meiri hl. (M. J.) um atvinnuskerðinguna laukrjett; ella er hún háskaleg villukenning, og það tel jeg hana vera.

Líkt er nú farið hinum beljunum 6, eða plágunum, sem nál. telur; þeim sleppi jeg að mestu leyti, enda mintist hv. þm. S.-Þ. (Ing. B.) á þær.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) hefir hvervetna endaskifti á sannleikanum, er hann ræðir um plágur þessar; sýnir öfugar niðurstöður, nema í einu atriði, þar sem hann talar um tekjumissi ríkissjóðs, en um þann annmarka haftanna er það að segja, eins og hæstv. atvrh. (Kl. J.) benti á, að hjer er aðeins um skerðing á stundarhag ríkisins að ræða, sem fljótlega vinst upp aftur, með hækkuðu gengi og bættum þjóðarhag; en því vil jeg bæta við, að mestur yrði sá þjóðarhagnaður, ef höftin leiddu til þess að losa oss við nokkuð af þeirri óhollu kaupsýslu, sem er eldur í efnum þjóðarinnar, og nú á tímum hefir átt og á enn sorglega mikinn þátt í að skapa viðskiftaerfiðleikana, og ætíð er sami Þrándur í Götu fyrir lagfæringu þeirra. Það segir sig sjálft, að annmarkar fylgja viðskiftahöftum, og er eigi sannlegt að gera þar úlfalda úr mýflugu. Á óþægindin af slíkum ráðstöfunum verður að líta eins og stundarsársauka, sem óhjákvæmilegur er til að geta læknað alvarlega meinsemd.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) telur alóþarft ákvæði frv. um eftirlit með erlendum gjaldeyri, og rökin fyrir því eru, að það muni rýra framleiðsluviðleitnina og draga úr framleiðslulöngun manna. Það er eins og hann hugsi sjer, að sjómenn vilji ekki fiska og sláttumenn ekki slá, af því að eftirlitið kunni að aftra milliliðunum frá því að græða óhóflega á gengismun erlends og innlends gjaldeyris og halda með því niðri íslenskri krónu. Nei, hjer eru vissulega röksemdirnar hjá hv. frsm. meiri hl. (M. J.) farnar að nálgast öfugmæli, eða talar hann hjer í líkingum og mælir alt utan garna, eins og hann raunar tíðum gerir, og er jafnfráleit staðhæfing hans og þessi minna en einskis virði.

Hvötin til framleiðslu glæðist við horfur um batnandi kjör, en lamast við horfur um viðskiftaörðugleika. Kaupmenn greiða ekki ótilknúðir framleiðendum innlendu vöruna í erlendum gjaldeyri eða gengismuninn frá útlenda gjaldeyrinum, heldur yfirleitt í vörum, með verði, sem miðað er við lággengi íslensku krónunnar.

Það má nefna hliðstætt dæmi frá 1918. Útflutningsnefnd útbýtti eftir á til kaupmanna yfir 20% hagnaði, sem varð á fisksölunni, frá áætlunarverði því, sem sett var í upphafi, en uppbót þessa neituðu margir kaupmenn að greiða framleiðendum, þar sem skriflega samninga vantaði, og þó var hvervetna fyrirfram dreginn frá áætlunarverðinu umboðskostnaður kaupmanna. Þetta leiddi sumstaðar til málaferla milli þessara tveggja aðilja. Kaupmenn margir skoðuðu þetta eins og hvalreka eða verslunarhapp, sem þeir ættu að njóta.

Auðvitað voru nokkrir sanngjarnir kaupmenn, sem greiddu uppbótina refjalaust, en þeirra gætti minna.

Fráleit er sú kenning hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að viðskiftahöftin skapi dýrtíð á nauðsynjavöru, þótt seljendur kunni að hafa hneigð til að hækka hana í verði. Höft á henni verða vitanlega engin, og kaupfjelög og landsverslun, sem að rjettu lagi á að starfa framvegis á meðan þetta ólag stendur, eiga að geta haldið í horfinu og varið almenning fyrir áseilni kaupmanna.

Hv. frsm. meiri hl. (M. J.) taldi furðanlegt, ef hv. þm. hefðu breytt skoðun á höftunum frá í fyrra. Slíkt er þó reyndar mjög eðlilegt, að skoðun manna hafi breyst við nýja reynslu í viðskiftamálunum, enda er viðhorfið alt annað nú en þá, og hagurinn, einkum ríkisins lakari, en ekki betri en hann var í fyrra, hvað sem hv. meiri hl. segir um fljótandi skuldirnar. Síðan hefir og gengishrunið bæst við, sem fáir sáu þá fyrir, og enginn hugði vist að yrði svo mikið, sem raun ber nú vitni um.

Gengishækkun íslenskrar krónu af sjálfsdáðum, sem hv. frsm. meiri hl. (M. J.) gerði svo mikið úr, svaraði jeg í framsöguræðu minni. Nenni jeg ekki að endurtaka það svar.

Spádómar háttv. frsm. (M. J.) um illar afleiðingar viðskiftaráðstafana eru að engu hafandi. Hann hefir engin skilyrði til að sjá þar betur fram í tímann en aðrir, en lög, sem gera viðskiftaráðstafanir mögulegar, eru sjálfsögð til tryggingar. Köpur- og kringilyrðum hv. frsm. meiri hl. (M. J.) er eigi ástæða til að svara. Hann kemst jafnan, er þessi mál eru á dagskrá, út í einhvern líkingarmálsalgleyming eða „rethoriskan“ hávaða, sem erfitt er stundum að skilja; sjer ofsjónir og undraviðburði og hafnar sig venjulega í Fróðárundrum. Í fyrra lenti hann í þessu sama máli á Fróðárselnum illræmda og komst þar í mestu mannraunir eða jafnvel lífsháska. Nú lenti hann á urðarmánanum frá Fróðá, sem auðvitað gengur rangsælis við aðra mána, og eftir því, sem mjer skildist, gerði þessi sjón honum þann geig, að hann í ofboðinu greip granataki, sem hann nefnir bolatak, á selnum, sjer til bjargar. Öll þessi „symbolik“ hv. frsm. meiri hl. (M. J.) er harla eftirtektarverð í sambandi við hversdagsleg viðskiftamál, og virðist jafnvel oft, sem alt þetta sje utan garna hjá honum gert, til að þóknast þeim háttvirtu, en um það finst mjer mega segja, að of mikið gefi hann fyrir „pípuna“.

Þá þótti hv. frsm. meiri hl. (M. J.) jeg og aðrir, sem mælt hafa með frv., hafa fært lítil rök að nauðsyn þess. Um þetta hefði hann getað talað djarft, ef hann hefði haft sjálfur nokkuð að bjóða í því efni, en svo var ekki, og ekki heldur við því að búast. Mörg og innantóm slagorð hjá honum sanna ekkert. Frekari svör þykist jeg ekki þurfa að gefa hv. frsm. meiri hl. (M. J.) um það. Að fara að tína upp allar fullyrðingar hans um skaðsemi haftanna, spásagnir um framtíðina og útúrsnúninga úr frv., væri álíka tilgangslaust eins og að ætla sjer að tína upp lambaspörð af heilum afrjetti.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Játa jeg fúslega, að í þessu máli hefir hann verið rjettur maður á rjettum stað undanfarið. Árin 1920 og 1921 var hann sá einbeittasti og ákveðnasti í þessu máli, og bar það fram til sigurs á 2 undanförnum þingum. Hann var einnig eindreginn stuðningsmaður haftanna nú í þingbyrjun, svo að jeg verð að segja, að ummæli hans nú komu mjer ærið á óvart. Þau virtust jafnvel benda til þess, að hann mundi ekki greiða atkv. með frv., og ástæðan, sem hann færði fyrir þessu, var sú, að þær heimildir, sem frv. gæfi stjórninni, væru allar til í fyrri lögum. En þessi ástæða hans stendur á flugufótum, og er auk þess alls eigi rjett, því að þetta frv. er miklu víðtækara og skýrara en þær eldri heimildir, sem það líka felur í sjer, og hvað sakar það, þótt þessar heimildir sjeu allar sameinaðar í eitt frv., sem er ljósara og ákveðnara en eldri heimildirnar? Nei, þetta er engin ástæða til stefnubreytingar hjá hv. þm. (M. G.), og jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að hann hverfi frá fyrri stefnu sinni, enda þótt helst mætti ráða það af orðum hans, að hann hefði tekið sinnaskiftum. Hann telur lánsheimildina í frv. óþarfa af því, að hún væri áður til. Jeg hygg, að það muni nú nokkuð orka tvímælis, hvort svo sje, því að varla ætlast hv. þm. (M. G.) til, að stjórnin taki aftur miljónalán handa Íslandsbanka, en það eitt væri ef til vill heimilt, eftir eldri heimildunum.

Hins vegar getur verið full nauðsyn á því að gefa stjórninni heimild til þess að taka viðskiftalán vegna nauðsynlegra útgjalda ríkisins, og við það eitt miðar frv. heimildina.

Þá taldi hann ákvæðin. í frv. um eftirlit með útlendum gjaldeyri óþörf. Sagði hann, að gjaldeyririnn útlendi mundi fara sína rjettu boðleið hvort sem væri. Það hefir nú stundum kveðið við nokkuð annan tón um þetta hjer og verið sagt, að hann færi öfuga boðleið og ekki í gegnum bankana, þótt þeir ættu tilkall til hans. Hv. þm. (M. G.) beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvernig við hefðum hugsað okkur þessu eftirliti gjaldeyrisins hagað. Jeg sleppi að svara því, sökum þess, að hæst. fjrh. (Magn. J.) hefir gert það á sama veg og jeg hefði viljað gera.

Þá sagði hann, að jeg hefði farið óvarlega, að fara að tefla því fram í umr., að enskt firma hefði ekki þorað að trúa bönkunum hjer fyrir fje. Var að heyra, sem hann teldi þetta goðgá og að það mundi kasta skugga á bankana. En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, og jeg hefi fullar sannanir fyrir því, að þetta er satt. En auðvitað sannar þetta ekki annað en það, að firmað hefir ekki þekt nógu vel til bankanna. En það sýnir líka, hve skemmileg áhrif lággengið hefir fyrir okkur, bæði erlendis og hjer. Skal jeg svo ekki svara þessum hv. þm. (M. G.) meira að sinni nje átelja undirtektir hans. Síðar sjest betur, hverju hann spilar út.

Kem jeg þá að hv. þm. Ísaf. (J. A. J.). Hann virtist hafa nokkuð sjerstaka afstöðu. Sýndist helst vilja fara bil beggja, enda var hann fylgjandi höftum á síðasta þingi. Veit jeg varla, hvoru megin hann ætlar að vera, eða hvort hann ætlar að vera hálfur hvorumegin. (J. A. J.: Jeg greiði atkv. á móti frv.). Jæja, þá það; þá sýnir þetta fimi hans í því að fara í gegnum sjálfan sig, og læt jeg úttalað um það.