11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (1633)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Frsm. meiri hluta (Magnús Jónsson):

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) endaði ræðu sína með því, að hann myndi ekki frekar skifta sjer af máli þessu, og þykir mjer það undarlega mælt. (Atvrh. Kl. J.: Jeg sje, að útbýtt hefir verið núna á meðan jeg talaði, breytingartill., sem jeg mun að sjálfsögðu minnast á, þegar að þeim kemur). Jæja, við skulum láta það gott heita.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) vildi efast um, hvort rjett væri að álykta, að í þessum heimildarlögum fælist nokkur áskorun til stjórnarinnar um að setja á höft. Að vísu er þessi stjórn ung og óreynd, svo jeg veit ekki, hvernig hún lítur á þingviljann. En fái hún þessi lög samþykt með þeim forsendum, að þjóðinni sje að blæða til ólífis, alt sje að sökkva og drukna í óþarfa, og að iðjuleysingjarnir sjeu að gera út af við hinar fáu framleiðandi hendur, lúnar og beinaberar — þá kalla jeg hana bara góða og byrja vel, ef hún treystist að hundsa þann þingvilja, er að baki stendur. En fari þingið nú, þvert ofan í sjálft sig í fyrra, að setja slík heimildarlög, þá getur það ekki orðið með öðru móti en því, að þingið fallist á þessar röksemdir, er jeg nefndi, og haldið hefir verið mjög á lofti af talsmönnum viðskiftahafta.

Hitt er aukaatriði, að hafa lögin í bakhönd, ef hafís skyldi umkringja landið og önnur óáran af völdum náttúrunnar, enda hafði enginn minst á þetta atriði fyr en hæstv. atvrh. vakti máls á því.

Jeg man ekki, hvort jeg taldi óánægju fólksins með höftin sem ástæðu gegn þeim. En þó verður hæstv. atvrh. (Kl. J.) að viðurkenna, að erfiðara muni um framkvæmd þeirra laga, sem valda almennri óánægju.

Hann sagði líka, að kaupmenn biðu eftir úrslitum þessa máls með að birgja sig upp, svo mjer finst það ekki koma vel heim við þann flýti, sem hann vill hafa á þessari lagasetning. Því þingið og lögin gefa undir fótinn og segja: Kaupið á meðan tími er. Með þessu sýndi og sannaði hæstv. atvrh. (Kl. J.) einmitt mitt og meiri hl. mál, hve háskalegt er að vera að reiða haftasleggjuna á loft, því jafnvel áður en hún fellur, og áður en víst er, að hún muni falla, fer hún að gera skaða, með því að eggja menn á innkaup, meiri en annars mundi í ráðist.

Þá kem jeg að hv. þm. S.-Þ. (Ing. B.). Hann segir, að í nál. okkar meiri hl. manna sje gengið inn á það, að höft hafi verið nauðsynleg 1920. Það er þá prentvilla, ef svo er. Að vísu hefi jeg rekið mig á tvær prentvillur í nál., en ekki þessa, enda gefst jeg upp við að leita að henni. Þetta, sem hann segir, er hvergi viðurkent í nál., enda útrætt og afgert mál fyrir löngu. En það er sagt, að þær ástæður, sem þá voru, sjeu nú horfnar eða að hverfa, og á þessu hálmstrái byggir hann svo ályktanir sínar.

Hann hafði líka eftir mjer, að það væri rökrjett hugsun, að þeir, sem voru með höftunum í fyrra, væru nú á móti þeim. Þetta sagði jeg ekki, og er óviðkunnanlegt að vitna í orð manna og rangfæra, því það kostar altaf erfiði og tíma að rekast í því. Jeg sagðist vel geta skilið þá afstöðu manna, sem hefðu verið með höftunum í fyrra, en á móti nú. Og ein ástæðan er sú, að í fyrra var hægt að byggja á árs undirbúningsstarfi, en nú þarf að byrja á öllu frá rótum, og kemur öllum saman um, að undirbúningurinn einn kosti altaf minst eitt ár.

Hann sagði, að ef það væri rökrjett hugsun, að skakt hefði verið að afnema viðskiftahöft í fyrra, þá ætti að setja þau á nú aftur.

Það er nú svo. En það er þó sagt, að erfitt sje að iðrast eftir dauðann. Þó að maður sjái eftir að hafa skorið góðan grip, þá er ekki hægt með rökrjettri hugsun að lífga hann aftur. (L. H.: Þá reynir maður að afla sjer sem fyrst jafngóðs grips í staðinn.) En það verður aldrei sami gripurinn. Með afnámi haftanna í fyrra voru höftin slegin af, og ef nú á að grípa til bjargráða, þá verða þau að vera einhver önnur.

Þá taldi hv þm. S.-Þ. (Ing. B.) reikninga mína ranga, af því að jeg dreg frá 4 miljónir króna, sem voru í óseldum afurðum. En þetta er bara hreinn og beinn misskilningur hjá hv. þm. (Ing. B.), eða þá útúrsnúningur, því reikningsskilin nú eru miðuð við áramót, en í fyrra voru þau miðuð við marsmánuð. Til þess að miða við sama tíma varð að telja það selt, sem í marsmánuði var selt, svo rjettur samanburður fengist.

Þá skildist mjer, að hann vildi draga alt enska lánið frá. Að vísu getur það verið álitamál, hvað mikið skal draga frá, en það nær engri átt að draga það alt frá. Stjórnin tók víst 2 miljónir í sínar greiðslur, og var það viðskiftunum óviðkomandi. Þá mun Landsbankinn hafa fengið £ 100000 eða 2700000 kr., sem hann telur með skuldum á þessu ári engu síður en í fyrra, og er í þessum 23 miljónum.

Þá taldi sami hv. þm. (Ing. B.) óhugsandi, að borgað hefði verið af lánum, og bygði þau ummæli á því, að atvinnuvegirnir hefðu ekki borgað sig. En þetta er misskilningur. Sje mikið framleitt og það selt sæmilega, þá gerir það sitt gagn í viðskiftaveltu landsins út á við, jafnvel þótt einstaklingarnir sjálfir bíði halla. Það, sem borgast af, kemur ekki eingöngu frá eigendum atvinnufyrirtækjanna af hreinum arði. Það getur verið stórgróði fyrir landið, að t. d. togarafjelag afli ágætlega og selji vel, jafnvel þó að eigendur bíði talsvert tjón, vegna of hárra verkalauna, of hárra skatta o. s. frv. Þessu tvennu ólíku má því ekki rugla saman.

Það mun vera satt hjá hv. sama þm. (Ing. B.), að almenningur vill spara. Þetta vilja allir, og sjálfsagt er, að við, löggjafarnir hjálpum til þess. En viðskiftahöftin geta ekki orðið sú hjálp, sem þjóðin og einstaklingarnir þarfnast, með þeirri vaxandi dýrtíð, sem þeim fylgir. Hann hefir líklega miðað þetta við bændur, og að þeirra vegna væri óhætt að setja á höft, en gleymir hinu, að með því hækka allar vörur og vinnulaun líka.

Þá sagði sami hv. þm. (Ing. B.), að óhugsandi væri, að innflutningshöftin spiltu áliti landsins og lánstrausti út á við. Það getur verið, að þetta sje ekki fallegt til afspurnar, en satt er það samt, að fátæktarmerki spilla lánstrausti. Ef við skellum á innflutningshöftum nú, verðum við í augum erlendra þjóða stimplaðir sem fátækir menn, og spursmál, hvort þeim þykir mikið við okkur eigandi. Hitt er hverri þjóð nauðsynlegt, að halda áliti sínu út á við og láta á því bera í augum heimsins, að þær sjeu vel stæðar.

Enn sagði sami hv. þm. (Ing. B.), að ekki væri mikið byggjandi á því, að 2 miljónir sjeu tapaðar. Það er líklega satt; tapið, þegar öll kurl koma til grafar, er líklega meira, svo um það skal jeg ekki frekar deila.

Annars finst mjer, eftir því sem fram hefir komið í máli þessu, að þá sjeu nú flestir gamlir sótraftar á sjó dregnir, úr því hafís, eldgos og jarðskjálftar eru orðnir meðal þeirra hyrningarsteina, sem höftin eiga að byggjast á. Eftir þeirri kenningu gætum við aldrei haftalausir verið, því að þó að hjer sjeu margir spámannlega vaxnir, hefir þó enginn sagt fyrir enn, hvenær vænta megi, að öll þessi undur dynji yfir landið.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) er ekki viðstaddur, enda á jeg lítið vantalað við hann. Honum fanst mótsögn í nál. okkar að segja, að höftin væru kák, en þó tapi ríkissjóður miklu fje. Hjer má nú segja: „skýst, þó skýr sje“, því að í nál. stendur, „að ef höftin væru nokkuð annað en kák, mundi þurfa að hugsa ríkissjóði fyrir nýjum gjaldstofnum upp á hjer um bil 1 miljón króna.“.

Þá taldi hann upphæðina, 1 milj., of háa.

Jeg hefi tekið nokkrar þær vörutegundir, sem gera má ráð fyrir að höftin banni innflutning á, svo sem vindla og vindlinga, tóbak, súkkulaði, kakaó, vefnaðarvöru, konfekt og brjóstsykur, og gert meðaltalsskýrslu um innflutning og innborgaðan toll í ríkissjóð fyrir árin 1916–20.

Og sú skýrsla verður á þessa leið:

Vindlar og vindlingar kg. 26 þús. á 8 kr.= 208.000

Tóbak „ 92„ „ 4 „ =368.000

Súkkulaði „ 64„ „ 0/75 „ = 48.000

Kakaó „19„ „0/50 „ = 9.500

Vefnaðarvara „678„ „0/18„ =122.000

Konfekt og brjóstsykur „27„ „2„ = 54.000

Þetta nemur til samans kr. 809.500, og verður ekki annað sagt en það fari að nálgast miljónina. En svo mætti eflaust nefna fleiri vörur, og gæti þá ríkissjóður og þjóðin fundið, að hjer væri ekki um neitt kák að ræða, og einhversstaðar frá yrði þessi tekjumissir að bætast.

Hann sagði, hv. sami þm. (M. G.), eða mjer heyrðist það, að jeg hefði haldið því fram, að enginn árangur hefði orðið af starfi viðskiftamálanefndarinnar. Jeg man nú ekki, hvað jeg sagði um þetta efni, enda skiftir það litlu máli. Í nál. er sagt, að enginn verulegur ávöxtur af starfi hennar hafi komið í ljós. Jeg skal ekki frekar fara út í þetta atriði, enda mundi það draga gamalt deilumál fram, sem vel má liggja í þagnargildi mín vegna.

Annars ætla jeg ekki að fara að karpa við hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Við erum að mestu sammála um þetta frv., þó við hins vegar eigum ekki samleið um höft yfirleitt.

Eins er um hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), að honum þarf jeg ekki miklu að svara, enda er lítið, sem okkur skilur. Hann vill taka einhverja stóra vörutegund, eins og t. d. vefnaðarvöru, og banna innflutning á henni algerlega. En á þessu eru ýmsir gallar, eins og hv. þm. (J. A. J.) benti á, og myndi koma misjafnlega niður. Í fyrsta lagi myndi vera hægt að sulla út í fólkið ónýtri vöru, en með ránverði. Auk þess er vefnaðarvaran margháttuð, og sitt þarf hver, en öllu slíku hægt þó að slá á frest um stundarsakir og birgja sig betur upp, þegar losað er um aftur. En þó veldur mestu, að vefnaðarvöruinnkaup eru gerð til eins árs í senn að mestu, og að þessu sinni búið, svo sparnaðurinn myndi lítill verða á þessu ári, þó bannaður væri innflutningur.

Jeg varð mjög glaður, þegar hæstv. fjrh. (Magn. J.) reyndi að komast úr þokunni, sem hvílt hefir yfir gjaldeyrisráðstöfununum, því vitanlega hafa flm. haldið þessu fram án þess að vita, hvað þeir fluttu. Hv. frsm. (Sv. Ó.), er var að bregða mjer um „utangarnamálflutning“, hjó víst fullnærri sjálfum sjer hvað þetta atriði snertir.

En von mín brást. Hæstv. fjrh. (Magn. J.) útskýrði eiginlega ekkert, sló öllu á dreif, en vildi þó láta eins og skína í gegnum, að með þessum gjaldeyrisráðstöfunum væri raunar ekkert gert. Hann vildi gera mönnum skiljanlegt, að með „umsjón“ væri átt við að safna skýrslum sem fyrst, og þeim sem mestum og bestum, svo hafa mætti gjaldeyrisástandið á því hreina. En þetta er ekki rjett. Þetta á önnur nefnd að gera, gengisnefndin, eða skráningarnefndin. Umsjón þýðir alt annað og meira. Henni fylgir íhlutunarrjettur. Þegar lögreglan hefir umsjón með umferð á götunni, þá er ekki nóg, að hún horfi á árekstrana. Hún á að koma í veg fyrir þá og reyna að bæta úr þeim.

En svo kom ráðstöfunin hjá hæstv. fjrh. (Magn. J.), og hann hugsaði sjer aðeins eitt tilfelli: „spekulation með íslenska krónu in blanko“. Þetta er vitanlega „svindl“, og kemur ekki nema þegar óheilbrigt verslunarástand er og einstakir menn „spekulera“ í að selja einhverja vöru, sem þeir eiga ekki. T. d. þekkist slík verslun vestur í Ameríku, að menn selja hveiti, sem þeir eiga ekki, en kaupa það svo á eftir fyrir andvirðið, sem þeir fengu fyrir það.

Þetta eina tilfelli er því óhugsandi, því það er hindrað án okkar tilgerða. Nei, ráðstöfunin er auðvitað sú, að taka gjaldeyrinn og nota hann fyrir þarfa, en ekki óþarfa.

Þá er jeg nú kominn að hv. frsm. (Sv. Ó.). Skjöplaðist honum ærið málsvörnin, því að hann kom ekki nálægt málinu sjálfu, en hristi úr klaufunum á mig. Vonast hann víst til, að jeg reyni að dusta af mjer þetta ryk. Hafði jeg raunar ætlað að tala um þetta mál án nokkurrar áleitni, og gerði það í fyrri ræðu minni, en úr því svona er komið, verð jeg að svara honum í svipuðum tón, enda ekki hægt að svara honum öðruvísi, þar sem hann vjek ekki að málinu sjálfu.

Fyrst er það ýmislegt í fyrn ræðu hans, sem jeg hefði viljað svara, en get ekki tímans vegna. Honum þótti öll rök meiri hl. ljettvæg, án þess þó að hann loftaði nokkru þeirra, en aftur á móti bar hann fram þung og gullvæg rök máli sínu til stuðnings, svo sem mannfjöldann hjer á götunum, sem alt væru slæpingjar, sem hvíldu á lúnum höndum fáeinna framleiðenda. Hann sýnist hafa nokkuð þröngan og mjóafjarðarlegan sjóndeildarhring í þessu efni. Hann heldur sýnilega, að slátturinn í Firði sje helsta framleiðslan. Hvað skyldi hann t. d. halda að margir hjer í Reykjavík sjeu framleiðendur? Líklega svona 20–30 menn, sem aldrei sjást á götunum af því að þeir eru svo lúnir. Þetta vil jeg kalla utangarnarök hjá hv. frsm. (Sv. Ó.).

Framleiðslan er meira en bara að losa gras og draga fisk úr sjó. Allir þeir, sem starfa að vörunni, eru líka framleiðendur. Allir, sem starfa að því, að kenna framleiðsluna, sömuleiðis. Það má gaspra um milliliðaleysi, en öll vara gengur gegnum millilið eftir millilið og hefir í för með sjer aukastörf. Þetta tal hv. frsm. (Sv. Ó.) er marklaust baðstofuhjal. Þetta, um mannfjöldann á götunni, er eins og álfur úr hól hefði talað, en ekki margviðreistur, sigldur gáfnaberserkur, sem vafalaust hefir sjeð þennan vott um starfsemi í borgunum, en ekki iðjuleysi: mannfjöldann.

En hann er nokkuð utan garna, og honum er vorkunn, þótt hann æpi ekki alt eftir nótum, þegar honum er sveiflað í hengingaról síns eigin flokks, og flokkapólitíkinni er á hann sigað, svo að hann er ekki sjálfráður að orðum sínum.

Þetta eru hans rök. — Eða þá þegar hann telur þær tölur, sem í nál. eru teknar úr opinberum skýrslum, ágiskun, en færir svo á móti slúðursögur um eitthvert enskt firma, sem ekki þori að geyma peninga hjer í banka.

Vill hann ekki nefna firmað og bankann og kaupanda kröfunnar og kröfuna sjálfa og annað slíkt, því þá færi fyrst að verða á þetta lítandi. En þangað til skulum við skoða þetta eins og marklaust bull ráðþrota manns. Það er áreiðanlega heppilegast trausti voru, að slíkar sögur sem þessar sjeu ekki fóstraðar við barminn, og ábyrgðarleysi má það heita af þm. að bera slíkt fram í þingsalnum sem góð og gild rök.

Ræðu sína í gær byrjaði hann með því, að jeg hefði haldið 70 mínútna lestur. Skrökvaði hann nú ekki nema 10 mín., svo að eftir þeirri byrjun gerði jeg mjer góðar vonir um ræðu hans. En svo góð músik hefir hans eigin málrómur verið honum, að hann gætti þess ekki, að hann talaði sjálfur í 60 mínútur. Svo byrjaði nú ballið. Ekkert annað en reyna að spila á hatur til kaupmanna og það, að jeg væri þeirra útvalda verkfæri! Jeg gengi í hálfgert óþverrastarf fyrir þá háttvirtu. Borgaði of mikið fyrir pípuna. Hvaða pípu?

Ekki vantar illkvitnina, þó að rökin sjeu smá. „Berið þið mig í slarkið,“sagði karlinn. Hann var örvasa, en vildi í slarkið. Hv. þm. (Sv. Ó.) hefir langað til að narta, en sárt er, að ekki skuli vera nema ein gemlan eftir. Það er náttúrlega ekki til neins að biðja um nein rök fyrir þessu. Hann er hjer bara að vinna óþverraverk, sem honum er vorkunn að vera settur í, og ekki vert að angra hann með, gamlan manninn. Hann kallar hina frjálsu verslun evangelíum auraprangaranna. Það er nú svo, að þessi lausn á viðskiftum hefir sína ókosti, en samt er hún það, sem menn hafa næst komist því, sem er öllum heppilegast. Það er svo mikil firra, sem engu tali tekur, að það sjeu kaupmenn, sem á því græði. Samkepnin er einmitt það nauðsynlega band á sjálfræði þeirra, — en hún ríður þá á slig, sem vilja okra. — En hafta-evangelíið, það er leiguþjóna evangelíum, því það gengur út á verndun einstakra, sem ekki þola samkepnina.

Frsm. (Sv. Ó.) rak sjálfum sjer löðrung, þegar hann sagði, að jeg talaði illa um skjólstæðinga mína. Smygl og annað. Datt ekki í hug það, sem nær lá, að hjer væri ekki um neina skjólstæðinga að ræða, heldur þvert á móti. Haftamenn hafa sagt, að ýmsir kaupmenn sjeu með höftum. Og því get jeg trúað.

Þá sagði hv. frsm. (Sv. Ó.), að kaupmenn græddu í skjóli lággengisins og peningaskortsins, og væru jafnvel þeir einu, sem það gerðu. Maður gæti næstum því haldið, að mannauminginn hefði látið eitthvað ofan í sig, sem hefði svift hann ráði og rænu, því hvernig geta kaupmenn grætt á því að kaupa vörur dýrt inn, en svo eru engir, sem geta keypt af þeim.

Þá taldi hann, að tölurnar í nál. væri villandi. Skuldirnar væru í erlendum peningum, og væru því talsvert meiri vegna gengismismunarins, en hjer er það við að athuga, að langmest af skuldum Íslandsbanka er í íslenskum krónum. Þetta hefir hann alt getað gengið úr skugga um í nefndinni, svo að hann skrökvar þessu.

Þá koma plágurnar 7. Var hann ekki viss um, hvort það væri plágur eða kýr, horaðar kýr. En hvort sem það voru plágur eða kýr, þá rjeðst hann á þær af svo miklum móði, að maður hjelt, að hann ætlaði að leiða út úr sínu andlega fjósi 7 feitar kýr innflutningshaftanna. En hvernig fór?

Hann leggur í þá fyrstu, atvinnutjónið. Jeg tók það nú skýrt fram, að jeg taldi það ekki stærstu ókostina við höftin. En hann fjekk það út, að það væri „þjóðfjelagslegt happ“, að þessar þúsundir manna mistu atvinnu við höftin.

Þegar hann svo hafði teymt þessa einu atvinnuleysiskú fram, þá gafst hann upp og slepti hinum 6. — Það er ekki ljót landbúnaðarsýning þetta, sem innflutningshöftin leiða fram.

Þá fór hann að tala um gjaldeyrisráðstafanir, og fór um leið að tala um, að jeg væri utan garna, enda hefði annað starf. Það er kanske eitthvað annað en þessi hv. sessunautur minn (Sv. Ó.), sem lifir ekki í öðru en stjórnmálum og stjórnvisku. Skaði meðan honum er ekki gefinn stjórnarhattur, svo að hann líkist sem mest fyrirmyndinni. — En hvernig fór svo, þegar hann fór að rekja sínar pólitísku garnir í þessu efni.

Man nokkur háttv. þm., hvað hann sagði um gjaldeyrisráðstafanir? Nei, og ekki hann sjálfur. Þegar hann byrjaði að tala, vissi hann ekki, hvað hann ætlaði að segja; meðan hann var að tala, vissi hann ekki, hvað hann var að segja, og eftir á veit hann ekki, hvað hann hefir sagt. Ekkert nema eitt gaul í tómum görnum.

Hann talaði um alt, nema málið sjálft. Fyndinn vildi hann vera og brá sjer í þeim erindum vestur að Fróðá. Náttúrufræði ætlaði hann að fara að kenna, en ruglaði saman bola og sel og gafst svo upp.

Jeg nenni ekki að elta þetta lengur. Hann sagði, að jeg væri að vinna óþverrastarf. Já, það er satt, það er óþverrastarf að fást við mann, sem slettir aur á allar hliðar, og jeg geri það ekki af ánægju að deila með þessum hætti. Í fyrri ræðu minni hjelt jeg mjer að málinu og hafði enga áreitni við neinn. En þessi illkvitni háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) gerir það að verkum, að eftirleikurinn er óvandari. En mjer getur þótt vænt um þetta. Það gerir minst, þótt á mig slettist. Hitt er meira vert, að þetta frv., sem hjer er til umr., verði ekki látið gera óþarfa skaða.