11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (1636)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) viðurkendi það í raun rjettri, að í lögunum frá 1920 lægi það, sem jeg sagði í fyrri ræðum mínum, en hins vegar kvað hann samvinnunefnd viðskiftamálanna í fyrra hafa skýrt þau svo, að það gengi í þveröfuga átt við skoðun mína. Jeg verð nú að halda því fram, að orð þeirrar nefndar eða skýringar geti ekki að neinu leyti breytt lögunum. Í þeim er stjórninni heimilað að hegða sjer á ákveðinn hátt, og því verður ekki breytt nema með nýjum þingvilja og nýjum lögum. Nú hefir þingviljinn í fyrra heft framkvæmd þessara laga, um höft á nauðsynjavörum, og stendur því óhaggað það, sem jeg hefi sagt, að ekkert þarf annað en upphefja þann þingvilja með öðrum nýjum, og þá hafa þessi lög aftur öðlast fullan kraft. Hæstv. ráðh. (Kl. J.) er því á villigötum í þessu máli. Lögin frá 1920 eru í fullu gildi, ef meiri hl. þingsins vill svo vera láta. Ný lög þarf því engin. Ef hann er ekki sannfærður um þetta, er það af því, að hann vill ekki láta sannfærast.

Það er eigi vegna ákvæðisins í fyrri hluta 1. gr., sem jeg er á móti frv., heldur vegna ákvæðisins í öðrum hluta sömu greinar.

Jeg skil ekki, hvað hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) meinar með að segja, að jeg sje nú að þokast nær. frv. Jeg hefi ekki látið nokkurt orð falla í þá átt; hefi aðeins tekið fram, að jeg sje ekki á móti fyrri hluta 1. gr. þess.

Þá þóttist hann ekki geta skilið, að skýring hæstv. atvrh. (Kl. J.) gat ekki sannfært mig. Jeg sje ekki neina ástæðu til að setja lög út af einhverri óþektri hættu, sem ef til vill gæti komið fyrir einhvern tíma í framtíðinni. Þá mætti halda áfram óendanlega.

Annars þykir mjer vænt um, að hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) heldur eigi lengur fram, að jeg sje horfinn frá stefnu minni.