11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (1637)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Jakob Möller:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls við þessa umr., og get jeg ímyndað mjer, að háttv. þm. þætti rjett, að jeg hefði staðið við þann ásetning minn, en eftir því, sem umræður hafa fallið, get jeg ekki látið hjá líða að segja nokkur orð.

Jeg verð að játa, að mig furðar á því, hversu ýmsir háttv. þm., sem voru á þingi í fyrra, geta nú feimnislaust, eða feimnislítið, algerlega snúið við blaðinu og talað þvert á móti því, sem þeir greiddu atkv. með í fyrra. Við nánari athugun verður þetta samt ekki svo undarlegt, því að í þessu máli hafa hv. þm. altaf verið að snúast síðan það fyrst kom fram, og það er því varla von, að þeir geti hætt að snúast fyrst um sinn.

Mál þetta kom fyrst til þingsins kasta 1920. Það hefir áður verið bent á það af háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), hvað snertir innflutningshöftin, og jeg get bætt við því, að gjaldeyrishöftin voru þá líka á döfinni, en frv. um þau var felt með rökstuddri dagskrá.

Hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) var þá á móti þessum frv. Hann neitaði því að vísu í gær, en honum þýðir ekkert að neita því, því jeg man, að hann var það, og man líka orðin, sem hann viðhafði. Sagðist hann verða að vera á móti frv., ef skipa ætti nefnd; en nú er hann ekki einungis með frv., heldur einnig með því að skipa nefnd. Hefir alveg snúið við blaðinu.

Jeg skal benda háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) á, að það, sein hann sagði í gær, að hæstv. stjórn hefði eftir lögunum frá 1920 sömu heimild og farið er fram á í þessu frv., er æði hæpið. Man jeg ekki betur en að fvrverandi stjórn vildi mjög eindregið fá frekari heimildir í fyrra, en það var felt. En nú er ætlast til, að þingið jeti ofan í sig þá ákvörðun.

Annað, sem mig furðar á, er það, hve ástúðlega háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) getur komið saman við hæstv. atvrh. (Kl. J.) um þetta mál, er litið er á, hvernig orð hæstv. atvrh. (Kl. J.) hafa fallið. Frv., og fylgi háttv. frsm. minni hl. við það, er bygt á því, að nú þegar sje knýjandi nauðsyn á að grípa til öflugra innflutningshafta. Hæstv. atvrh. (Kl. J.) er á móti því og segir, að nú sje ekki nokkur nauðsyn á innflutningshöftum, og ekki komi til mála, að stjórnin noti heimildina að svo stöddu, þó að hún fái hana, en jeg hefi samt ekki orðið var við, að háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) hafi neitt við framkomu hans að athuga. En þar með er þó öllum grundvelli kipt undan frv. Það er ekki einungis orðið ástæðulaust, heldur og beinlínis stórhættulegt, svo sem bent hefir verið á.

Jeg held, að það sje rjettast að geyma til síðasta stigs málsins hugleiðingar um, hvað úr þessu muni verða. — Jeg sje ekki betur en að frá þessu frv. sje þannig gengið, að ómögulegt sje að sjá, hver meiningin er með því. Eftir orðum frv. eiga hömlurnar að ná til alls varnings, nauðsynlegs sem ónauðsynlegs, en eftir ræðu aðalflutningsmanns (Sv. Ó.) aðeins til ónauðsynlegs varnings. Mjer sýnist því, að niðurstaðan muni verða sú, að frv. verði ekki samþ. óbreytt, og sje jeg líka, að fram er komin breytingtillaga við það, til skýringar, þó að ekki sje hún frá flm., og mun þá sennilega koma í ljós, að það dregur sig saman, sem saman á hjer á þinginu, þegar sú till. kemur til umr.

Aðaltilefnið til þess, að jeg stóð upp í þetta sinn, var, að mjer þótti ekki úr vegi að athuga afstöðu hæstv. stjórnar til þessa máls. Jeg er í vandræðum með að fá nokkurn botn í hana.

Jeg hjó eftir því hjá hæstv. atvrh. (Kl. J.), að hann neitaði fyrst, að umtalið um höftin hefði haft nokkur áhrif á vöruinnflutning til landsins, en hann játaði, að það væri beðið með óþreyju eftir úrslitum málsins. Það er því augljóst, að hann gerir sjer þess fulla grein, að ef frv. yrði samþ., mundu menn flýta sjer að flytja sem mestan varning inn í landið. — Hæstv. atvrh. (Kl. J.) hefir þannig játað, að lögin, þegar á fyrsta stigi, mundu ganga í þveröfuga átt við tilgang sinn.

Þá sagði hæstv. atvrh. (Kl. J.), að stjórnin ætlaði sjer alls ekki að nota þessa heimild strax, heldur vildi hún aðeins fá lögin samþykt, og svo ætlar hún með jafnaðargeði að taka því, þótt kaupmenn rjúki til og kaupi upp kynstrin öll af allskonar varningi, þörfum og óþörfum.

Ef hæstv. stjórn gerði sjer ljóst, hver afleiðingin mundi verða af þessum heimildarlögum, og ekki ætlaði sjer að nota heimildina strax, þá ætti hún með hnúum og hnefum að berjast á móti lögunum, í stað þess að hún nú leggur alt kapp á að fá þau samþykkt.

Vegna þessa get jeg ekki varist að draga þá ályktun, að hæstv. stjórn sje sjer ekki vel meðvitandi, hver ábyrgð fylgir till. hennar, í hvaða máli sem er, og ekki síst í slíkum málum sem þessu.

Hæstv. forsrh. (S. E.) sagði í stefnuskrárræðu sinni, að stjórnin mundi í samráði við þingnefndir rannsaka, hvort ekki bæri að takmarka vöruinnflutning til landsins, til að hækka gengi ísl. kr. Mjer skilst, að slík rannsókn hafi nú farið fram, og að meiri hl. hv. nefndar hafi komist að þeirri niðurstöðu, að þetta bæri ekki að gera. Mjer skilst sömuleiðs, að hæstv. stjórn sje háttv. meiri hl. nefndarinnar sammála; að minsta kosti verða orð hæstv. atvrh. (Kl. J.) ekki skilin á annan veg.

Með öðrum orðum, stjórnin hefir í samráði við þingið rannsakað málið, en komist að þeirri einkennilegu niðurstöðu, að hún eigi að hegða sjer þveröfugt við árangurinn af rannsókninni.

Eins og jeg tók fram áðan, get jeg ekki sjeð, að þetta beri vott um þá ábyrgðartilfinningu, sem gera má kröfu til að hæstv. stjórn hafi.

Ef ætti að gera grein fyrir afstöðu hennar, er ekki hægt að álykta annað en að hún sje að reyna að synda á milli skers og báru í þinginu. Hún veit, að hún situr að völdum fyrir tilstilli tveggja ólíkra flokka. Það er auðvitað mjög óheppilegt fyrir hana, en mjer skilst, að undir þeim kringumstæðum sje ekki til nema ein leið, að hún myndi sjer sjálfstæða skoðun og hagi sjer þar eftir. — En til að ljetta áhyggjunum af henni skal jeg lýsa því yfir — af því að jeg kann að einhverju leyti að hafa verið talinn stuðningsmaður þessarar hæstv. stjórnar, — að mín vegna þarf hún ekki að haga seglum eftir vindi, því jeg sje nú, að jeg get ekki átt samleið við hana.

Það er ekki nema gleðilegt, að maður komi í manns stað, og sje jeg, að svo muni verða. Fagna jeg því, og óska hæstv. stjórn til hamingju með þá fylgismenn, sem henni hafa áskotnast.