11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (1641)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Jón Auðunn Jónsson:

Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að jeg ætti sjö börn í sjó og sjö á landi. Það er satt, að jeg á sjö börn á landi, en hann mun eiga sjö börn í sjó. Á jeg hjer við afstöðu hans til stjórnarinnar. Hann sagðist hafa orðið á móti fyrv. stjórn sökum þess, að hún hefði ekki framfylgt viðskiftahöftunum, en þó fór hann fyrst til þess mannsins, hæstv. forsrh. (S. E.), sem var andvígur höftunum, og bað hann að mynda stjórnina, manninn, sem mest hefir barist gegn innflutningshöftunum.

Þá sagði hann, að jeg óttaðist það, að ef innflutningshöftin kæmu, myndu kaupmenn fá selt vörur sínar, sem þeir lægju með. En þetta er rangt haft eftir. En sjálfur kvaðst hann vilja, að þeir gætu selt þær með sem hæstu verði. Jeg vil, að kaupmenn geti selt nauðsynlegar vörur með skaplegu verði, en jeg vil ekki, að þeir geti selt ruslið, nje selt með óhæfilega háu verði, eins og háttv. þm. Ak. (M. K.) virðist vilja.

En annars var þetta engin aðalástæða fyrir mjer til að vera á móti innflutningshöftum þeim, sem hjer er farið fram á, heldur er hún sú, að þau mundu altof seinvirk til viðreisnar genginu og gera minna gagn nú en 1920, sökum þess, að hætt var við að framkvæma þau í bili.

Jeg skal nú ekki fara að verja fráfarandi stjórn, en það verð jeg að segja, að jeg gat ekki vænst þess, að hún gerði mikið að því að beita höftunum, og mjer þykir undarlegt, ef hv. þm. Ak. (M. K.) gat vænst þess, því jeg man ekki betur en að hann væri einn í þeirri nefnd á síðasta þingi, sem komst að samkomulagi um það að leggja niður viðskiftanefndina, og þá var kipt fótunum undan því, að innflutningshöftin gætu framvegis verkað nokkuð í þá átt að laga gengið.

Hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) sagði, að jeg hefði farið í gegnum sjálfan mig í þessu máli. Hann sjálfur heldur því þó fram í öðru orðinu, að innflutningshöftin mundu engin veruleg áhrif hafa á gengið, en í hinu, að verslunarjöfnuðurinn muni lagast með innflutnings- höftum, Hann fer hjer því sjálfur svo greinilega í gegnum sjálfan sig, að það sjest ekki einu sinni í iljar honum. En það er ekki að fara í gegnum sjálfan sig, þó jeg hafi breytt skoðun sökum þess, að aðstaðan hefir stórbreyst frá í fyrra. Jeg hefi ekkert talað um það, að jeg vildi, að bankarnir tækju stórlán erlendis, og skal ekki að þessu sinni láta álit mitt í ljós um það, en hitt er ekkert undarlegt, þó að sumum sýnist dálítið einkennilegt, ef þessari „umsjón“, sem talað er um í frv., er einungis ætlað að ná til þess að vita hvernig hagur okkar stendur gagnvart útlöndum hverju sinni. En þetta er það eina, sem á að gera, eftir því sem hæstv. fjrh. (Magn. J.) hefir skýrt frá.

Annars mun sannleikurinn sá, að aðstandendur frv. eru sinn á hvorum stað og vilja sitt hvað, en stjórnin vill ekkert.

Hefði gjarnan mátt spara að koma með málið, svona undirbúið, inn í þingið. En annars fýsir mig að heyra það af vörum stjórnarinnar, hvort það sje tilgangurinn að taka allan gjaldeyrinn til ráðstöfunar, eins og mátti skilja að væri meiningin, eftir orðum hv. þm. Ak. (M. K.). Ef þetta væri meiningin, færi þokunni dálítið að ljetta, en jeg ætla að bíða að lýsa afstöðu minni til þess, þangað til jeg fæ yfirlýsinguna frá hæstv. stjórn.