27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S. E.):

Það er ekki margt, sem jeg þarf að segja að þessu sinni, enda heyrir þessi kafli fjárlaganna lítið undir verksvið mitt, en þó vil jeg minnast á einstaka till.

Meiri hluti sparnaðarnefndar hefir lagt það til að fella niður styrk til bókasafna í sveitum og kaupstöðum, en jeg vil mælast til þess, að þetta fái að standa óhaggað eins og það er í frv. stjórnarinnar. Jeg vil vekja athygli á því, að þessi bókasöfn eru mikill menningarauki, og kann almenningur fyllilega að nota sjer þau. Þegar jeg var sýslumaður í Skaftafellssýslu. voru t. d. stofnuð 2 slík bókasöfn og var almenn ánægja yfir þeim, og eins mun víðar ástatt. Þessi söfn völdu aðeins góðar bækur og voru mikið lesin. Vil jeg eindregið mæla með því, að slík söfn verði styrkt áfram.

Þá kem jeg að brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) viðvíkjandi orðabókinni. Jeg vil mæla með því, að upphæð frv. fái að standa óbreytt, enda munu ekki laun þess manns, sem í hlut á, vera svo há, að honum veiti af þessari upphæð, ef hann á að geta starfað að orðabókinni sem skyldi. Annars bíð jeg með að tala um þetta þangað til háttv. flm. hefir gert nánari grein fyrir ástæðum sínum.

Þá er till. frá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak.M.), um að auka styrk til íþróttasambandsins um 500 kr. Jeg vil mæla með þessari till. Jeg veit að áhuginn fyrir íþróttum er orðinn mikill, og þær eru þýðingarmeira menningaratriði en menn hafa yfirleitt gert sjer ljóst.