07.04.1922
Efri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í C-deild Alþingistíðinda. (1659)

79. mál, sameign ríkissjóðs og bæjarsjóðs Vestmannaeyja á Vestmannaeyjajörðum o. fl.

Flm. (Karl Einarsson):

Jeg ætla mjer ekki að tala langt mál að þessu sinni, aðeins skýra frá tilgangi frv., svo sem þingsköp mæla fyrir.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, er Vestmannaeyjakaupstaður eign ríkissjóðs og hefir verið um langan aldur. Aðeins ein jarðeign er þar í eign einstaks manns. Þegar sú sala fór fram, munaði minstu, að ríkissjóður misti allar eyjarnar í hendur útlendingum. Eyjarnar voru þá til sölu fyrir 30 þús. ríkisdali. Hefði það verið hið mesta óhappaverk, ef ríkið hefði þá mist yfirráð sín yfir Vestmannaeyjum. En svo sem jeg tók fram, hafa þær haldist í eign ríkisins fram á þennan dag, og hefir ríkið haft þar sjerstakan umboðsmann. Jarðir hafa þar verið leigðar með svipuðu fyrirkomulagi og aðrar þjóðjarðir, og lóðir flestar á erfðatestu, og hefir gjaldið að nokkru farið eftir því, hve hentugar þær hafa verið fyrir framkvæmdir í verklegum efnum.

Fram að aldamótum voru lóðirnar mest notaðar til ræktunar, og lítil eftirspurn eftir þeim. En eftir aldamót breytist þetta hraðfara. Leiga var upphaflega lág og er það enn í dag, og mun haldast, meðan ríkið eigi gerir breytingu á því með lögum. Það er hverjum manni auðsætt, að óheppilegt var að leigja lóðir þannig, en í því efni er engan hægt að áfella, þar sem slíkt var lagaskylda, sem bæði ríkið og einstaklingar urðu að beygja sig undir.

Með frv. verður þessu kipt í lag, því þar er gert ráð fyrir, að bæjarstjórn og stjórnarráð ákveði afgjald jarða og lóða, hverrar tegundar fyrir sig. Eins vil jeg benda á það, að þegar bæði ríkið og bærinn eru orðnir eigendur, verður alt eftirlit nákvæmara. Og þá er eitt eftir enn, sem jeg tel aðalatriðið: Öll sanngirni mælir með því, að verðhækkun, sem verða kann í framtíðinni, falli í hlutaðeigandi bæjarsjóð, því það eru íbúar Eyjanna, einstaklingarnir, sem auka verðgildi jarðeignanna og lóðanna með fjárframlögum og alorku sinni, en ekki aðgerðalaust ríkið. Það er því mjög eðlilegt, að Vestmannaeyingar vilji, að bæjarsjóður þeirra fái hlutdeild í þessari verðhækkun Eyjanna, enda hefir bærinn lagt mikið fje fram til þess að gera Eyjarnar byggilegri. Sem dæmi má nefna höfnina, sem allir kunnugir vissu hve mikil nauðsyn var á, þar sem Eyjarnar liggja fyrir opnu hafi. Með hliðsjón af því er farið fram á það í frv., að landið á vissu svæði kringum höfnina falli endurgjaldslaust til hennar. En til þess að ná þessum rjetti þarf að breyta ákvæðum í hafnarlögum fyrir Vestmannaeyjar frá 1913. Eins er athugandi, að lóðir allar út frá þessu svæði, sem fellur til hafnarinnar, hækka í verði, og að ræktun og ýms afnot af þeim verður meiri en áður, og verður það gróði landsins og bæjarsjóðs.

Jeg álít, að þetta mál sje svo þýðingarmikið, að eigi megi flana að því á neinn hátt, og væri mjer kærkomið. ef því yrði vísað til allsherjarnefndar, því jeg álít hana vel bæra að dæma um þetta með sanngirni, og því vildi jeg vísa málinu frekar þangað en til fjárhagsnefndar, að í allshn. á einn lögfræðingur sæti.