27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

1. mál, fjárlög 1923

Gunnar Sigurðsson:

Mjer kemur undarlega fyrir, að brtt. mín skuli ekki hafa fundið náð fyrir augum háttv. fjárveitinganefndar. Jeg vil þó ekki áfellast hana, því hún hefir sýnt hlýjan hug til málsins og skilið það, að sandgræðsla er ein af allraviturlegustu jarðabótum. Málið er hjer borið fram eftir till. sandgræðslustjóra og stjórn Búnaðarfjelags Íslands, og eru þær ástæður til þess, að erfitt er að fá einstaka menn til að leggja fram fje til þessa bráðnauðsynlega fyrirtækis og vernda með því frjósemi landsins. Þeir, sem hafa ferðast um Land og Rangárvelli, þeim hlýtur að renna til rifja að horfa á þessar fögru og frjósömu sveitir næstum því komnar í sandauðn. Aðeins standa þar eftir smágróðrarreitir eins og bautasteinar til að bera vitni um fegurð og frjósemi þessara fornfrægu sveita.

Háttv. Alþingi verður að skiljast það, að ríkið verður að taka í taumana, ef sýnilegt er, að land er í uppblæstri; getur verið að einstaklingar sjeu svo settir, að þeir geti ekkert fje lagt fram, og það þýðir lítið að vísa til hreppanna. Menn vita yfirleitt, hvernig þeir eru vanir að taka í slík mál.

Annars þyrfti — og enda hefi jeg í hyggju að bera seinna fram frumvarp í þá átt — að koma á sjerstakri löggjöf um sandgræðslu, og má í því sambandi benda á heiðarækt Dana og löggjöf þá, sem um hana er sett. Það þyrfti að skylda menn til að tilkynna þegar í stað, ef þeir yrðu varir við nýja gára, og gera ráðstafanir til að hefta útbreiðsluna. Það er einkennilegt, að mönnum skuli vera kastað í fangelsi fyrir að stela einu lambi, en segja ekkert við því, að heilar sveitir blási upp og frjósemi landsins leggist í auðn fyrir vanrækt. Í Árnessýslu var fyrir nokkrum árum hlaðinn varnargarður, sem hefir varnað því, að öll Skeiðin legðust í sand, en það var gert með styrk þingsins, því að einstakir menn hvorki gátu nje vildu sinna því, nema með góðum styrk ríkisins.

Jeg vil svo ekki fjölyrða meira um þetta mál; jeg get tekið brtt. aftur til næsta þings, vegna þess að jeg veit hlýjan hug nefndarinnar til þess, og mönnum er yfirleitt farin að skiljast nauðsyn þess.

En úr því jeg stóð upp, ætla jeg að minnast á einn lið enn, styrk til Þórarins Guðmundssonar. Þeir bræður, sem báðir munu eiga að njóta styrksins, eru ágætlega mentaðir í list sinni, og eru auk þess vel gefnir af náttúrunnar hendi. Og þó að háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi ekki að þeir þyrftu að eyða hæfileikum sínum á kaffihúsi, þá get jeg þó ekki annað en þakkað þeim leik þeirra þar. Það veitir ekki af því í andleysinu hjer í Reykjavík að heyra góðan hljóðfæraslátt, þó á kaffihúsi sje, því að þau eru helsti samkomustaður manna. Hjer væri engin vanþörf á að auka smekk manna fyrir góðri „musik“. Ástandið er í því efni alt annað en glæsilegt, og má þar benda á danskt fífl, sem farið hefir hjer með danskar klámvísur undanfarið, án þess þó að ná einni nótu ófalskri, og hefir hann dregið bæjarbúa meira til sín en leikur þeirra bræðra. Jeg sæi ekki eftir 2000 kr. til þeirra, ef þeir gætu kent bæjarbúum að hlusta á góðan hljóðfæraslátt.