27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1923

Jón Baldvinsson:

Jeg á hjer brtt. um styrk til Bjarna skipasmiðs Þorkelssonar til eftirlits með öryggi báta og skipa. Á síðasta þingi var hert á stjórninni að semja reglugerð um þetta efni, skv. lögum nr. 29 frá 1912. Nefnd, sem stjórnin hefir skipað fyrir nokkrum árum, hefir haft þessa reglugerðarsamningu til meðferðar og í fyrra barst sjávarútvegsnefnd þessarar deildar frv. frá þeirri nefnd, með víðtækum breytingum á nefndum lögum, en það mál var þá svo illa undirbúið, að sjávarútvegsnefndin vildi ekki flytja það. Nú er málið aftur komið til sjávarútvegsnefndar, mikið betur úr garði gert, en þó mun óvíst hvort það gengur fram að þessu sinni.

Menn vita að útbúnaði báta og skipa er víða mjög áfátt, þó að nokkuð hafi skánað í því efni. Það var siður hjer áður, að ef menn fengu ekki skipin skoðuð í einu umdæmi, fóru þeir í annað og gátu þannig komið skipunum á flot, þó að oft væri það aðeins til að sökkva fyrir utan landssteinana. Þetta hefir batnað síðari árin, en þó er víst, að enn er útbúnaði í mörgu áfátt. Má þar t. d. benda á mótorbátana, sem keyptir voru á stríðsárunum, en eru nú farnir að ganga úr sjer. Og af þeim stafar talsverð hætta.

Nú liggur fyrir umsókn frá Bjarna Þorkelssyni að taka að sjer þetta eftirlit. Sjávarútvegsnefnd hefir haft málið til umsagnar og hefir lagt það til við háttv. fjárveitinganefnd, að umsókn þessari yrði sint, að manni þessum yrði veittur styrkur til þess að ferðast um landið og athuga ástandið. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa kafla úr brjefi sjávarútvegsnefndar til fjárveitinganefndar:

„Sjávarútvegsnefndin vill mæla með því, að honum verði veitt fje til þess að ferðast í verstöðvarnar víðsvegar um landið í eitt skifti til þess að framkvæma rannsókn á útbúningi vjelbáta í þessu efni, sem hann um talar, veita mönnum leiðbeiningar um endurbætur og gefa loks stjórnarráðinu greinilega skýrslu um reynslu sína í þessu efni. Lítur sjávarútvegsnefndin svo á, að slík rannsókn muni vera þörf, til þess að fá vissu í því, hvernig útbúnaði báta sje háttað og hvort frekari ráðstafanir til öryggis sjeu nauðsynlegar, og þá hverjar“.

Þetta er í aðalatriðunum það, sem fyrir okkur vakir, sem flytjum till., en aðeins er spurning um, hvort 4 þús. kr. sje nægileg upphæð til þess að fara nógu víða og hvort nægilegt sje að fara aðeins einu sinni. En þó höfum við ekki viljað fara fram á meira.

Viðvíkjandi manninum er það að segja, að hann er eflaust einhver sá færasti maður til þess að inna starf þetta vel af hendi. Hann hefir verið skipasmiður í mörg ár og smíðað báta af öllum tegundum svo hundruðum skiftir. Hann hefir í umsókn sinni drepið á, hvernig verkinu verði best hagað, og sje jeg ekki ástæðu til að fara út í það.

Þá er að minnast á aðra brtt., sem jeg á einn, og er það síðasta brtt. á þskj. 153. Jeg hefi athugað fjárlögin í því skyni að leita þar að einhverju, sem sjerstaklega væri til stuðnings verkalýðnum, en jeg hefi ekkert fundið. En aðrar stjettir eru studdar með ýmsu móti, t. d. Búnaðarfjelagið, sem er stofnun bænda og vinnur að þeirra hag, og Fiskifjelagið, sem er aðallega stofnun útgerðarmanna. Báðum þessum stofnunum er ætlað ríflegt fje, og skal jeg ekki amast við því, en verkalýðnum er ekkert ætlað. Það, sem hann þarfnast helst er atvinna alt árið. En nú er það komið á daginn, að atvinnan getur orðið mjög stopul áður en varir, og verður svo altaf meðan öll aðalfyrirtæki þjóðarinnar eru í höndum einstakra manna. Það sýndi sig á síðasta vori um aðalbjargræðistímann, að lítið varð um vinnu og fjöldi manna hafði ekkert tækifæri til þess að vinna fyrir sjer og sínum. Útgerðarmennirnir lögðu upp togurunum yfir aðalbjargræðistímann, og hjer í Reykjavík voru margir, sem ekki gátu unnið handtak um hásláttinn. Það var einnig lítið um byggingar og aðra atvinnu, og þeir, sem fóru til verstöðvanna, komu margir með skuld að haustinu. Þegar atvinnurekendurnir bregðast — og þeir bregðast altaf, ef þeir hafa ekki vissu eða fullar líkur til þess að fá nægilegan gróða af því að láta vinna, — þá verða sveitarfjelögin að koma í þeirra stað og stofna til fyrirtækja, sem þurfa að vinnast hvort sem er. Það er ætlast til þess með brtt. þessari, að ríkissjóður geti gengið í ábyrgð fyrir sveitarfjelög fyrir alt að milj. kr. En fyrir því er þessi leið farin, að sveitarfjelögum mun vera örðugt að fá lán hjá bönkunum, nema ábyrgð og stuðningur ríkisstjórnar komi til. Jeg nærri því skammast mín fyrir, hve hjer er farið fram á lítið, en það ætti þá heldur að vera von til þess, að það gengi fram. Þetta er ekki eyðslufje, því að sveitarfjelögin mundi ekki taka þetta lán, nema ef þau þyrftu að láta vinna eitthvað nauðsynlegt, en mörg slík verk kalla að á þessu landi, og er þá dæmalaus óhagsýni að láta menn ganga iðjulausa, sjer og þjóðinni til niðurdreps.

Háttv. frsm. (B.J.) sagði, að ekki liti út fyrir atvinnuleysi nú. Það getur verið satt, en það leit ekki heldur út fyrir atvinnuleysi í fyrravetur, þó að önnur yrði raunin á. Atvinna getur altaf brugðist á þessum tímum, og er því betra að vera við því búinn.

Jeg hefi verið að bíða eftir því, að hæstv. stjórn ljeti til sín heyra um þetta mál, og vona jeg fastlega eftir góðum undirtektum. Undirtektir háttv. frsm. (B. J.) voru góðar, þar sem hann taldi sjálfsagt, að stjórnin hlypi undir bagga, ef á þyrfti að halda.

Þá vil jeg minnast á einn lið enn, það er 15. liður í 16. gr.: Til að leitast fyrir um markað á fiskiafurðum erlendis. Þessi liður mun vera kominn inn að tilhlutun stjórnarinnar, enda var á þetta minst í prógramræðu hennar, þeirri sem bannað var að tala um.

Um þetta hefi jeg eigi nema gott að segja, en þó virðist mjer, að landsstjórnin sje hjer heldur smátæk, virðist hún hafa ætlað að sameina tvo liði stefnuskrár sinnar, að fara sparlega með fje, en halda þó uppi framkvæmdum. En fyrir 10 þúsund kr. er ekki hægt að ferðast eða gera mikið. (S. E.: Það er von á meiru). Það er ágætt.

En jeg vil tala meira um þetta. Saltfisksmarkaðurinn er nú bundinn við eitt land og það er of þröngt. Og án þess að taka tillit til bannlaganna, þá getur verið afar hættulegt að binda markaðinn þannig við Spán. Spánverjar gætu komist í kreppu. Nú eru þeir í ófriði, sem getur lamað kaupþol þeirra svo, að þeir minki við sig kaup á fiski okkar. Sama er að segja um síldina. Þar eru það Svíar, sem skamta okkur verðið. Það er hart að þessi atvinnuvegur sem gæti gefið okkur miljónir króna á ári, skuli hafa svo takmarkaðan markað. En ekkert hefir verið gert til að afla nýs markaðs. Landsstjórnin ætti vissulega að athuga það hvort eigi sje hægt að fara að dæmi Norðmanna og leitast eftir því, hvort ekki sje hægt að komast að samningum við Rússa um sölu á síld og fiski. Fyrir stríðið keyptu Rússar ógrynni af síld. Og nýlega hafa Norðmenn gert samninga við Rússa um sölu á síld og fiski, og vænta þeir sjer mikils af þeim viðskiftum. Vona jeg, að stjórnin fari ekki eftir hleypidómum danskra kaupsýslumanna í þessu máli, því sagt er, að þeir hafi spilt því, að Danir gerðu samninga við Rússa. Jeg vildi minnast á þetta atriði, því enginn annar hefir gert það. Vænti jeg, að hæstv. stjórn geri alt, sem fært er að gera í þessu efni, enda ætti naumast að þurfa að hvetja hana til þess að framkvæma sína eigin stefnuskrá.