04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (1690)

42. mál, landhelgisgæsla

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get svarað hv. þm. Borgf. (P. O.), að eftir því, sem jeg veit best, mun ráðlegast að leita samninga við dönsku stjórnina um ekki skemri tíma en 3 ár. Þessi hv. þm. (P. O.) og aðrir hv. þm. hafa getað sjeð í gerðabók lögjafnaðarnefndarinnar, hvað þar hefir fram farið í þessu atriði og hvernig þetta mál nú liggur fyrir. Jeg held því, að það sje eins gott að samþykkja ekki neitt í þessu máli eins og að samþykkja það, að semja til eins árs. (P. O.: Till. mín fer ekki fram á samning aðeins til eins árs). Já, það má vera, en jeg held, að best sje að gera sjer þess ljósa grein, að vel getur verið að ræða um það, að semja þurfi um 3 ára tíma.

Ef menn vilja halda vakandi áhuga fyrir, að landið taki strandgæsluna í sínar hendur, þá er ekkert við því að segja. (P. O.: Hefir hæstv. stjórn undirbúið það mál? Það átti hún að gera). Stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært að leggja það til, að ráðist verði nú í, fjárhags landsins vegna, að gera út fullkomið landvarnarskip.