04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (1691)

42. mál, landhelgisgæsla

Bjarni Jónsson:

Jeg hygg menn mega gæta sín, við að gleyma forsögu þessa máls. Eins og hv. þm. er kunnugt, varð út úr því allmikil hviða á síðasta þingi, en þær hafa málalyktir orðið, að stjórnin hefir ekkert gert af því, sem þingið þá óskaði.

En hví á nú að semja um strandgæsluna til langs tíma? Hverjir æskja þess? Eru það Íslendingar sjálfir eða Danir? Íslendingar vilja ekki langa samninga, en Danir vilja helst, að samið verði til margra ára, t. d. 5. Og hverra óskir á Alþingi Íslendinga að meta meira, Dana eða Íslendinga sjálfra? Því ættu hv. þm. ekki að eiga örðugt með að svara.

Sannleikurinn er, að Danir vilja ekki, að Íslendingar taki strandgæsluna í sínar hendur, því ef litið er á þörf Dana til þess að semja um langan tíma, þá er hún engin. Þeir hafa skip, sem þeir hafa ekkert við að gera, meðan ekki ber þeim beinan ófrið að höndum. Og þessi skip eru ekki notfær til annara hluta en hernaðar eða gæslu. Þeim má því standa á sama, hvort skipin eru hjer eða þar, nema bara að því, er kolaeyðslu snertir. Það er því ekki heldur fjármálanauðsyn af hálfu Dana, að gera við oss samninga til langs tíma, heldur stjórnmálanauðsyn. Það er eitthvað það í sálarlífi Dana, sem er þess valdandi, að þeir vilja annast hjer strandvarnir. En til slíks á Alþingi ekkert tillit að taka. það er líka sál í Íslendingum, að minsta kosti sumum þeirra, og sú hlið gæti einnig verið viðkvæm.

Það er sannfæring mín, að að minsta kosti 3/4 allra landsmanna muni vera á skoðun okkar hv. þm. Borgf. (P. O.), og þjóðin mun aldrei þakka þinginu það, ef það nú stofnar til langra samninga um þetta mál. Við ættum í raun og veru þegar að vera búnir að taka strandgæsluna í okkar hendur. Stjórninni hefir margboðist tilboð um reifarakaup á skipi til strandvarna, og það góðu skipi og nýju. En stjórnin hefir ekki sýnt hinn minsta lit á að svara slíku tilboði, hvað þá að rannsaka málið. Og þó að máttur stjórnarinnar sje ekki mikill nú, þá er hann þó svo, að henni hefði alls ekki verið ofvaxið að kaupa skipið, og því fremur, sem fá mátti það fyrir þá síld, sem eigendur síðar kostuðu ærnu fje til þess að láta moka í sjóinn í Eyrarsundi.

Annars hygg jeg, og hefi áður tekið það fram, að strandgæslumálið sje allmikið yfirdrifið og of mikil áhersla á það lögð.

Um hitt atriðið, að semja um gjald frá vorri hálfu, þá sýnist mjer slíkt ekki koma til neinna mála. Það skip, sem Danir mundu hingað senda, auk Fálkans, mundi verða honum stærra og dýrara í rekstri. Og ef Íslendingar eiga að bjóða fram sæmilega upphæð til rekstrar slíks skips, þá yrði það of fjár.

Það kemur því ekki til mála hjer, hvorki að semja til margra ára, nje heldur að leggja fram fje.