04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (1695)

42. mál, landhelgisgæsla

Bjarni Jónsson:

Nú hafa um stund tveir garpar veist að mjer, en það eru þeir hv. frsm. (M. K.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Jeg ætla þá að byrja á hæstv. forsætisráðherra, sem síðar talaði. Hann ljet sem hann vissi ekki, hvaðan mjer kæmi sú viska, að Danir vildu ekki, að Íslendingar hefðu hönd í bagga með strandvörnunum, en sagði þó, að jeg mundi geta sannað það, en auðheyrt var á málrómi hans, að það átti að skiljast svo, sem jeg gæti það ekki. En jeg get fullvissað hann um það, að jeg get sannað þessi ummæli mín, og það sem meira er, hann veit vel, að jeg get það. Hann fyrirgefur því, þótt jeg geri það ekki nú; það er altaf tækifæri til þess seinna. Hann undraðist, að jeg talaði um ódýrt tilboð á skipi til kaups. En 1919 kom fyrir þingið tilboð um kaup á ágætu skipi fyrir 150 þús. krónur. Og það fylgdi tilboðinu, að borga mætti í síld, og loforð um að kaupa meiri síld. Hjer er því ekki að ræða um neinar 3–400 þús., heldur 150 þús. Þá kallaði hann þetta lausatilboð, en svo var ekki um þetta. Þetta tilboð kom frá Þýskalandi, beint frá stjórninni, fyrir milligöngu sendiherrasveitarinnar í Kaupmannahöfn. Jeg kalla það fullkomlega trygt tilboð, sem stjórnin og fulltrúar hennar semja um. (M. G.: Hve nær kom tilboðið?). Það kom 1919. (M. G.: Því var því ekki tekið?). Það er betra fyrir hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) að spyrja meðstjórnanda sinn að því, ekki var jeg í stjórninni. Þetta tilboð liggur fyrir enn. (M. G.: Ósatt!). Það er satt. Á þinginu í fyrra kom það fyrir sjávarútvegsnefnd, og jeg hefi það heima hjá mjer.

Hv. frsm. (M. K.) sagði, að það væri misskilningur, að Íslendingar væru útilokaðir frá strandgæslunni með samningi þessum. En þá veit hann ekkert, hvað hann er að fara með. Það er víst, að Danir gera því aðeins nokkurn samning, að við sjeum útilokaðir. Vilji hann hafa heimildarmann fyrir orðum mínum, þá er það sá danski ráðherra, sem situr í sömu nefndinni og jeg.

Sama hv. ræðumanni (M. K.) þótti undarlegt, að jeg skyldi minnast á síld í sambandi við þetta mál. Honum er líklega eins farið og skólapiltinum, sem aldrei skrifaði síld.

Þessu næst kom kafli hjá hv. frsm. (M. K.) um þm. Dala., svo fagurlega saminn og vel hugsaður, og fluttur af svo mikilli andagift og mælsku, að sjálfur Cicero mundi hafa miklast af, ef hann væri hjer kominn og hefði tekist svo upp. Hann sagði, að jeg mundi lítt hirða um landhelgisgæsluna vegna þess, að Dalasýslu væri svo í sveit komið, að kjósendur mínir hefðu engan hag af henni. Fyrst og fremst er það misskilningur, að mínir kjósendur njóti ekki góðs af landhelgisgæslunni, því að þeir stunda veiðiskap utarlega við Breiðafjörð, og auk þess sækja þeir sjó hjer syðra. En þótt svo væri ekki, þá gætir hv. frsm. (M. K.) þess ekki, að Dalamenn myndu verða mjer reiðir, ef jeg aðhefðist nokkuð óviturlegt í máli þessu, því að engum mönnum er annara um sóma landsins en þeim, og hafa þeir sýnt það í mörgu. Hjer er um sóma landsins að ræða, og jeg álít, að hann sje í veði, ef íslenskur fáni fær ekki að blakta við hún á skipum þeim, sem gæta stranda landsins.