07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (1711)

42. mál, landhelgisgæsla

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg hjelt, að einhver mundi taka hjer til máls, en úr því að útlit er fyrir, að svo verði ekki, ætla jeg að taka það fram, að breyting sú, sem gerð var á till. í hv. Nd., er meira en orðabreyting, en þó ekki eins mikil efnisbreyting og ef til vill lítur út fyrir. Það var tilætlun þess manns, sem flutti till. eins og hún nú er orðuð, að reynt væri að hafa 2 skip sem lengst á ári hverju, og ef það kostaði fjárframlög, þá yrði fjeð tekið af sektum. Þetta hygg jeg að sje tilætlun mikils meiri hluta hv. Nd., því að þessu var ekki andmælt. Þetta fje ber ekki að leggja fram nema nauðsyn beri til, en ef til þess kemur, verður það tekið úr landhelgissjóði, en ekki úr ríkissjóði, og til þess þarf þá vitanlega sjerstaka heimild þingsins.