07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (1714)

42. mál, landhelgisgæsla

Karl Einarsson:

Við nefndarmennirnir í sjávarútvegsnefnd höfum komið okkur saman um það að koma ekki með neitt nefndarálit, og við höfum allir óbundin atkvæði. Það, sem jeg segi, er því aðeins frá mínu eigin brjósti.

Það fyrsta, sem jeg tók eftir í þessu máli, er það, að jeg sá, að till. er algerlega óþörf. Það eru til lög, sem heimila stjórninni að leigja eða kaupa skip til strandgæslu, og getur hún því samið við Dani eins og aðra.

Því hefir verið haldið fram, að gæslan í fyrra hafi verið betri en áður, þar sem tvö skip hafi verið höfð við gæsluna. En þar eð aldrei var nema eitt skip í senn til eftirlitsins, þá var það auðvitað ekki betra en svo oft áður, er dugandi foringi hefir verið með skipið, sem jeg veit ekki annað en ætíð hafi verið.

Þó að þessi till. næði fram að ganga, og Danir legðu til annað skip, þá tel jeg þær varnir engan veginn fullnægjandi nje viðunandi. Þær varnir, sem nú eru, eru ekki til að verja fiskimið skemdum, heldur aðeins til að ná í fje handa ríkissjóði. Með öðrum orðum: Strandvarnirnar eru kák og ekkert annað. Til þess að þær hafi þýðingu þarf skipið að vera á þeim svæðum, þar sem veiðar eru, og hefir þetta verið svo oft tekið fram, að það ætti öllum að vera ljóst. Jeg hygg það ekki frekar Dönum en stjórninni að kenna, hvernig varnirnar hafa verið frá því fyrsta. Skipin koma aðeins snöggvast og hitta stundum eitt, stundum tugi skipa við veiði, og taka þá auðvitað það, sem þau geta, en svo koma þau ekki aftur næsta hálfan mánuðinn eða lengur. Þetta vita sjómennirnir og haga sjer auðvitað eftir því. Þetta er margra ára óhrekjandi reynsla. Sje þessi till. samþ., þá er það aðeins áskorun til stjórnarinnar að hegða sjer eins og lög mæla fyrir, og því sama, hvort till. stendur eða fellur. En í því get jeg ekki verið sammála hæstv. fjármálaráðherra (M. G.), að nokkur heimild sje fyrir því að veita hjer fje úr ríkissjóði. Jeg verð að taka það fram, viðvíkjandi ræðu hv. frummælanda (H. St.), að jeg tel það órjett, sem hann ljet sjer um munn fara, að strandgæslan hefði verið betri í fyrra heldur en nokkurn tíma áður. Jeg verð að segja það, að hún er bæði nú og áður alveg eins góð. í fyrra vetur var engin strandgæsla fyrir sunnan land frá hálfu varðskipsins, og hefir það máske ekki þótt þörf vegna s. s. „Þór“. En þegar hann fór til Reykjavíkur til að fá sjer kol, þá fyltist alt af skipum. Þá kom beiðni um að fá varðskipið, sem þá var líka að taka kol og vatn. Er það kom, þá hafði það nóg að starfa, en misti auðvitað mörg skip, sem sek voru. Þetta sannar þá reglu, að skipið má ekki koma aðeins snöggvast til veiðisvæðanna og vera svo í burtu í tvær til þrjár vikur samfleytt. Það er engin gæsla. Þetta sannar, að gamla fyrirkomulagið er óhafandi, og gerir ekki annað en útvega nokkra peninga í landssjóð, og þetta er ekki síst stjórninni að kenna. Af öllu þessu verð jeg því að vera á móti þessari till. Hún er algerlega óþörf, þar sem stjórnin hefir næga heimild áður. Hvað viðvíkur strandvörnum nú, þá er ekkert hægt að miða við stríðsárin. Þá hættu Englendingar svo að segja alveg veiði hjer við land, Frakkar og Þjóðverjar sáust ekki, en þessar þrjár þjóðir stunduðu hjer allar veiðar áður og eru nú allar byrjaðar á ný. Jeg tel rjett að fella till., en ráða fram úr málinu á annan hátt, enda hafa aðrar till. komið fram til sjávarútvegsnefndar. Þessi till. mundi líka mjög sennilega verða misskilin af deildinni og þinginu, því þó að svo fari, að við fáum tvö skip, þá er það engan veginn fullnægjandi. Íslenska stjórnin þarf að ráða yfir mörgum skipum til varna landhelginnar, en það fæst ekki með þessari till. Ef stjórnin vill framkvæma lögin og semja um skip, þá þurfa þau ekki hvert að hafa marga tugi manna innanborðs, heldur aðeins fáa menn. Jeg er algerlega samþykkur hv. þm. Snæf. (H. St.), að það sje aldrei ofborgað, ef það tekst að útrýma ólöglegum veiðum úr landhelginni, en það þarf líka að hafa eftirlit með veiðinni utan landhelgi, hjer eins og annarsstaðar í heiminum.