28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl.J.):

Jeg vil leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þá liði þessa máls, sem snerta embætti mitt. Fyrst er þá XXII. brtt. á þskj. 153, við 16. gr. 11. tölulið, frá meiri hluta sparnaðarnefndar, um að leggja niður styrk handa efnilegum iðnaðarmönnum til náms erlendis.

Þessi sama háttv. nefnd hefir nýlega komið fram með aðra brtt. um það, að styrkurinn til iðnskóla fjelli niður. Það lítur svo út, að hún vilji ekki unna lítt undirbúnum iðnnemum, sem sækja hingað til bæjarins, að fá þá fræðslu, sem iðnskólinn lætur í tje, sem þó af kunnugum er talin mjög góð; og það lítur ennfremur eftir þessari brtt. út fyrir það, að þeir vilji ekki heldur að iðnaðarmenn fullnumi sig.

Mig furðar mjög á þessu, einkum þegar þess er gætt, að þessi styrkur hefir staðið lengi og verið mikið notaður. Áður fyr sóttu jafnan um hann miklu fleiri en gátu fengið, og mjer er kunnugt um, að enn hafa margar beiðnir komið um þennan styrk. Og mjer er ennfremur kunnugt um það, að margir hafa haft mikið gagn af honum og hafa orðið til sóma handverki sínu og öllu landinu. Þessvegna endurtek jeg beiðni háttv. frsm. (B. J.) um það, að háttv. deild lofi þessum styrk að haldast.

Þá vildi jeg minnast á 15. tölulið 16. gr., um að leitast fyrir um fiskmarkað erlendis. Þessi liður var, eins og háttv. þm. er kunnugt, settur inn í fjárlagafrv. við 2. umr. Jeg gat þess þá, að hann mundi vera of lágur og leit svo á, að stjórnin ætti að hafa óbundnar hendur til þess að verja meira fje til þessa, ef þurfa þætti. Þessu var hv. fjvn. samþykk, og jeg vænti að háttv. frsm. hennar (B. J.) muni kannast við það og gefa yfirlýsingu hjer að lútandi.

Í sambandi við þetta vildi jeg minnast á XXX. brtt. á þskj. 153, frá 2. þm. Reykv. (J. B.), um að ríkisstjórninni sje heimilt að ábyrgjast alt að 500000 krónum fyrir bæjar- og sveitarfjelög til að halda uppi atvinnu, ef atvinnubrest bæri að höndum. Þess var getið við umræðurnar í gær, að þessi brtt. væri óþörf, því ef almennur atvinnubrestur væri í landinu, væri stjórninni skylt og heimilt að hjálpa, og þá fyrst og fremst með láni. Þessi brtt. er því í rauninni óþörf, en það er þó síður en svo, að jeg vilji amast við henni.

Í umræðunum um þessa brtt. gerði þessi háttv. þm. fyrirspurn til stjórnarinnar um það, hvort hún ætlaði ekki að leita fyrir sjer um fiskmarkað á fleiri stöðum en verið hefði. Gat hann þess þá sjerstaklega, að Noregur hefði gert samning við Rússland um fisksölu. Jeg get lýst því yfir hjer, að þessi ummæli hans eru rjett. Mjer hefir nýlega borist í hendur hið alþekta norska blað „Tidens Tegn“. Stendur þar, að Noregur hafi fullgert samninga við Rússland um að selja því 100000 tunnur af stórsíld á 27 kr. tunnuna fob., 300000 tunnur af vorsíld á 20 kr. tunnuna fob. og 20 milj. kg. af saltfiski, verkuðum eins og Rússar vilja hafa hann, á 40 og 35 aura kg. fob. og án umbúða. Blaðið segir, að alls muni þessi sala nema 16½ milj. kr. Það er því auðsjeð að hjer er um mikinn samning að ræða og hagfeldan fyrir Noreg. Hitt veit jeg ekki, hvort slíkir samningar væru hagfeldir fyrir okkur, því mjer er ekki kunnugt um, hvort hægt sje að framleiða síld hjer svo hagnaður yrði af slíkri sölu, en þótti rjett að skýra þinginu frá þessu, því hjer eru auðsjáanlega möguleikar fyrir fiskmarkað.

Þá er viðaukatill. frá háttv. fjvn. við 21. grein fjárlaganna, um að veita Búnaðarfjelagi Íslands alt að 35000 kr. lán til þess að kaupa sljettil (Fräsemaschine). Jeg átti tal um þetta í morgun við forseta Búnaðarfjelagsins. Leggur hann mikla áherslu á það, að þetta lán fáist. Það er tilætlun hans, að þessi vjel verði notuð norðanlands í grend við Akureyri og út með firðinum, því þar eru mikil ræktunarskilyrði. En hann sagði, að þessi vjel kostaði 35000 kr. sænskar. Mundi því lánið þurfa að vera um 60000 í íslenskum krónum. Þessu vildi jeg beina til háttv. fjvn.

Loks vildi jeg fara nokkrum orðum um XIV. brtt. og þá einkum 3. lið hennar, um að fella niður styrkinn til Alþingisbóka, þó að það snerti ekki embætti mitt. Jeg get ímyndað mjer, að háttv. flm. (S. St.) hafi ekki komið með þá till. af glöðu geði, því mjer er fullkunnugt um, að hann ann mjög fornum fræðum.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talaði vel og skörulega móti þessari tillögu, en vegna þess að jeg hefi lengi verið í stjórn Sögufjelagsins, vildi jeg leyfa mjer að skýra hinu háa Alþingi frá því, að Sögufjelagið hefir lagt mikinn hug á það að ljúka útgáfu Alþingisbókanna fyrir 1930; því fróðir menn segja, að 930 hafi Alþingi verið stofnað; vildi því fjelagið hafa lokið útgáfunni á 1000 ára afmæli Alþingis. Það verður erfitt fyrir fjelagið að framkvæma þetta, þótt það haldi þessum styrk óskertum, en ókleift með öllu, ef hann fjelli niður 1–2 ár.

Eins og flestum háttv. þm. mun kunnugt og háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) tók fram eru þessar Alþingisbækur og Íslenskt fornbrjefasafn merkustu söguleg heimildarrit, sem við höfum. En svo stendur á, að Fornbrjefasafnið er komið aftur að 1550, en Alþingisbækurnar byrja árið 1570. Þegar búið er að fylla þessa gloppu, og prentun Alþingisbókanna fram haldið, eins og að undanförnu, þá er fyrst kominn fastur grundvöllur undir sögu landsins: þá er fyrst hægt að semja hana, svo vel sje.

Það voru einkum Alþingisbækurnar, sem jeg vildi tala um en í rauninni má segja hið sama um Jarðabók Árna Magnússonar og Landsyfirdómasafnið. Það er kunnugra en svo, að hjer þurfi að ræða, hve mikils virði þessi rit eru. Um þessi síðustu rit má nú segja sem svo, að ekki geri til, þótt þau komi ekki út 1–2 ár. En til þeirra er veitt svo lítil upphæð, að jeg vona, að háttv. deild láti hana standa eins og hún er nú, því áður hefir verið klipið af henni.

Fleira hefi jeg ekki að taka fram.