25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (1723)

28. mál, innlend skiptimynt

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg get verið stuttorður um þetta efni og að mestu vísað til greinargerðarinnar á þskj. 30.

Málið er ofureinfalt. Eins og mönnum er kunnugt, hafa smápeningar horfið svo úr umferð, að til vandræða horfir, einkum hjer í Reykjavík. Þó að þetta sje ekki eitt af okkar mestu vandræðamálum nú, eru óþægindin að því samt mikil. Smámyntin hefir verið flutt út úr landinu vegna yfirfærsluvandræðanna og munarins á genginu. Krónur og smásilfur er horfið, og mun þar ekki vera um að kenna stærri verslunum, heldur þeim, sem lítið hafa haft með höndum.

Það er óþarfi að lýsa óþægindunum, sem af þessu stafa, sem auðvitað koma verst niður á verslununum. Geta þær jafnvel oft tapað smáupphæðum, sem eigi heimtast inn, af því að skuldin er svo lítil, að ekki tekur því að setja hana á reikning. Menn hafa reynt að notast við frímerki, sem er afaróþokkalegur gjaldmiðill, eða smáseðla, sem menn hafa gefið út sem einskonar skuldabrjef, hljóðandi upp á nokkra aura. En slíkt er í sjálfu sjer enginn gjaldeyrir, þó að menn hafi neyðst til að taka við því. Auk þess getur þessi hörgull á smápeningum beinlínis ráðið nokkru um verðlag á varningi og fleiru. Menn neyðast til að láta verðið standa á krónu, af því að eigi er til skiftimynt.

Einfaldasta ráðið til að bæta úr þessu er að koma sjer upp skiftimynt, er eingöngu gildi innanlands. Í rauninni var byrjunin til þessa þegar gerð með útgáfu krónuseðlanna, en nú er svo komið, að það er hjer um bil ómögulegt að gefa til baka af krónunni. Það er þá þannig aðallega 10 aurar og 25 aurar, sem þörf er á. Krónuseðlana hafa menn og geta notast við, þó að eigi sjeu þeir þokkalegir, og síst er þeir eru farnir að þvælast. Sömuleiðis er nægur kopar til; hann hefir sýnilega reynst óhandhægur til útflutnings.

Jeg býst ekki við, að neinar verulegar mótbárur komi fram gegn þessari tillögu. Jeg hefi talað við fróða menn í þessum efnum, og hafa þeir ekki sjeð henni neitt til fyrirstöðu. Helst væri hægt að berja við, að Svíar, Norðmenn eða Danir gætu neitað að taka við peningum, sem ekki giltu nema á Íslandi, er þeir borguðu með sinni eigin mynt. En hjer er aðeins um smámuni að ræða, því strax þegar safnast í krónu, geta menn fengið seðil.

Hjer er ekki að ræða um að taka að sjer myntsláttuna samkvæmt ákvæðum 9. gr. sambandslaganna, heldur eingöngu að greiða úr óþægindum innanlands. Enda mundi myntslátta ekki hjálpa neitt í þessu efni. Sú mynt, sem slegin yrði og gjaldgeng væri í Skandinavíu, mundi flytjast út jafnt og hin hefir gert það. Eru mýmörg dæmi þess, þar sem gengismunur er, t. d. í Danmörku og Svíþjóð.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta efni, en vona, að hv. deild taki vel í það og feli landsstjórninni framkvæmdir á því.