25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (1724)

28. mál, innlend skiptimynt

Fjármálaráðherra (M. G.):

Í tillögunni, sem fyrir liggur, er ekki bent á aðra leið út úr vandræðunum en myntsláttu, en jeg álít það mál alveg órannsakað, hvort ekki eru til aðrar leiðir. Mjer finst því ekki úr vegi að vísa málinu til viðskiftamálanefndar.

Stjórninni hefir borist brjef frá kaupmannaráðinu í Reykjavík, þessu máli viðvíkjandi. Stjórnin fól sendiherranum í Kaupmannahöfn að grenslast eftir, hvort eigi mundi tiltækilegt að slá járnmynt, og hvað það mundi kosta. Hefir hann sent símskeyti um málið þess efnis, að járnmynt væri talin óheppileg; henni væri hætt við ryðgun, og væri auk þess litlu ódýrari en nikkelpeningar. Jeg held því, að önnur leið væri heppilegri út úr þessum vandræðum, sem sje að nota frímerki í gagnsæjum umslögum. Eru þau miklum mun ódýrari, og get jeg ekki sjeð, að það sje neitt neyðarúrræði að notast við þau.

Jeg hefi hjer í höndunum franskan pening. Það er frímerki, sem gildir 25 centimes; yfir því er gagnsæ plata, en að aftanverðu auglýsing frá kaupmanninum, sem hefir sett það í umferð. Fyrirkomulagið er þannig, að ríkið selur kaupmönnum frímerkin, er þeir svo setja út í umferð, og nota jafnframt til auglýsinga fyrir varning sinn. En ríkið leysir þau að sjálfsögðu inn með nafnvirði, þegar krafist er.

Jeg ræð til, að mál þetta verði athugað vel og gangi til atvinnumálanefndar.