20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (1728)

28. mál, innlend skiptimynt

Frsm. (Magnús Jónsson):

Samvinnunefnd viðskiftamála hefir haft till. þessa til meðferðar og birt álit sitt á þskj. 119. Í þessu áliti er að vísu tekið flest það fram, sem máli skiftir um þessa till., en af því að þetta er smámál, og hv. þm. hafa ef til vill ekki kynt sjer það, ætla jeg að fara um það nokkrum orðum.

Í sambandi við þetta mál má benda á tvö atriði. Annað er það, hvort þörf sje á innlendri skiftimynt, sem ekki sje hætta á að hverfi úr umferð. Í greinargerð frv. er minst á vandræði þau, sem orðið hafa vegna skorts á þessari mynt, og nefndin hefir rannsakað það mál og komist að raun um, að þær umkvartanir, sem orðið hafa, eiga við rök að styðjast. Og nefndin gerir jafnvel meira úr þessum vandræðum en gert var í upphafi. Menn víða að sjer smápeningum, vegna þess, að þeir eru gjaldgengir erlendis án affalla, og þannig hafa smápeningarnir horfið af markaðinum smátt og smátt. Á það má einnig benda, sem ekki var tekið fram í upphafi, að það kostar ríkissjóð allmikið fje að afla þessara smápeninga, og það kostar hann meira, eftir því sem hann reynir betur að fullnægja þörfinni. Ríkissjóður þarf sem sje að kaupa þessa peninga í Danmörku með gengi danskrar krónu, en lætur þá hjer af hendi með gengi íslenskrar krónu, og verður af þessu drjúgur kostnaður. Ríkissjóður hefir sem von er reynt að hliðra sjer hjá því að kaupa þessa mynt, og er því ekki annar vegur til þess að fá leyst úr þessum skorti en sá, sem bent var á við 1. umr., að búa til innlenda skiftimynt.

Þá er hitt atriðið hvernig eigi að afla þessarar myntar, og mætti þar benda á þrjár leiðir. Fyrsta er að gefa út smærri seðla en krónuseðla. En ef nánar er að gætt, er þetta ekki álitleg leið. Krónuseðlarnir eru ekki vel sjeðir. Þeir geymast illa, verða ljótir og óþrifalegir og ganga úr sjer og eyðileggjast. Það virðist því ekki glæsilegt að ganga lengra á þeirri leið. Þá er önnur leiðin, að nota frímerki í sjerstökum umbúðum. Þetta hefir verið reynt erlendis, t. d. í Frakklandi, og gefist vel. Þessi skiftimynt er ekki óhandhæg og er ríkinu ekki dýr, að minsta kosti ekki þar, því að einstök verslunarfyrirtæki hafa lagt til umbúðirnar ókeypis, gegn því að fá að auglýsa á þeim. Hjer kynnu að verða örðugleikar á þessu, og þyrfti þá sjerstakar umbúðir, og þá gætu farið að aukast útgjöldin. Sjerstakar vjelar þarf til þess, fólkshald o. s. frv., með öðrum orðum heilt atvinnubákn, því að umbúðir þyrfti svo hundruðum þúsunda skifti, ef fullnægt ætti að vera þörfinni. Eins væri ekki víst, að þessar umbúðir gætu komið svo fljótt sem þörf er á. Þriðja leiðin mun því verða heppilegust, að gefa út málmmynt. Smápeningar úr málmi verða handhægastir, og kostar ekki mikið umstang að slá þá eða fá þá slegna. Stjórnin, sem frá var að fara, hefir undirbúið þetta mál, leitað upplýsinga hjá sendiherranum í Kaupmannahöfn um kostnað og fleira. Hann áleit heppilegast að hafa peningana úr nikkel. Járn er endingarverra, ryðgar og gengur úr sjer, og kostnaðarmunur er enginn, svo teljandi sje. Það mundi kosta um 4 aura að slá hverja mynt. Það mundi vera hæfilegt að slá um 300 þús. af hverri tegund, og ef teknar væru tvær tegundir, tíeyringar og tuttugu- og fimmeyringar, þá næmi það 24 þús. kr., en verð peninganna yrði 105 þús. Ef flutningskostnaður o. fl. væri áætlaður um eitt þús. kr., þá væri mismunurinn 80 þús., sem yrði rentulaust lán ríkissjóðs, þar til leysa þyrfti inn peningana. En svo ber þess að gæta, að mikið af þeim mundi fara forgörðum, miklu yrði safnað af einstökum mönnum, eitthvað týndist og menn mundu ekki átta sig á að leysa inn peningana í tíma. Það mundi varla koma meira í leitirnar en svo, að það, sem eftir yrði, vægi upp á móti kostnaðinum. Hjer er því engin óvissa, kostnaðurinn verður aldrei meiri en þetta, sem hjer hefir verið áætlað, og líklegt er, að hann náist allur upp. Nefndin verður því að leggja til að skora á stjórnina að slá smápeninga úr nikkel. Málið kostar lítið vafstur, stjórnin lætur slá þessa peninga, líklega helst í Kaupmannahöfn, og þeir koma á markaðinn smátt og smátt, þegjandi og hljóðalaust. Nefndin ætlast ekki til, að slegnar verði nema tvær tegundir; krónunni hefir verið slept, vegna þess, að nú eru til mótin fyrir krónuseðlana, og kostar því tiltölulega lítið að endurnýja þá mynt.

Jeg vona, að hv. deild fallist á till., og býst ekki við, að deilur eða langar umr. þurfi að verða um hana.